22.8.05

Ég vil vera prinsessa

Það er frekar leiðinlegt að vera ég þessa dagana. Nú er ég ekki að meina vegna þess að ástkær systir mín er farin úr landi eða vegna þess að haustið virðist nálgast allt of óðfluga með tilheyrandi blæstri og kulda, þótt vitanlega hjálpi þessi atriði ekki til. Það leiðinlegasta þessa dagana er það að áform mín fyrir haustið eru nákvæmlega engin önnur en þau að skrifa eitt stykki BA-ritgerð en fólkið í kringum mig virðist ekki taka tillit til þess að ég hef ekki hugmynd um hvað nánasta framtíð ber í skauti sér og heldur áfram að spyrja: Já, hvenær byrjar skólinn hjá þér? Hættir þú að vinna í næstu viku? Mér finnst fúlt að útskýra í þrítugasta og níunda sinn að ég eigi bara eftir að skrifa ritgerð og að ég viti hreinlega ekki hvað framundan sé. Kannski ég ætti að skálda eitthvað upp, segja við fólk að ég sé búin að fá vinnu hjá Rauðu línunni við upplestur á erótískum smásögum og stunum eða að ég hyggi á ferð til Grænlands til að finna sjálfa mig. Það er auðvitað gott og blessað að sitja bara og kvarta, en ég er hrædd um að besta ráðið til að komast út úr þessari krísu minni sé að láta hendur standa fram úr ermum, eða ákvörðunargáfuna lýsa réttara sagt, og koma mér upp plani fyrir haustið. Sem stendur dettur mér raunar eitt í hug. Ég ætla að reyna að gerast hjónadjöfull í dönsku konungsfjölskyldunni. Prinsinn og Mary Dónalds eru í viðtali og hann virkar ekki aðeins skemmtilegur og hress, heldur er hann bráðmyndarlegur. Verst hvað ektafrúin er djöfull frambærileg! Hafið þið heyrt um bresti í hjónabandinu?