Hneykslanlegt kann eflaust mörgum að þykja að ég skyldi ekki horfa á Mótorhjóladagbækur fyrr en í kvöld, en hvað sem því líður þá var ég afar hrifin af kvikmyndinn og þótti leikur (og líkami) margrædds Gaels García Bernals frábær. Eftir að hafa horft á myndina er ég komin með fleiri framtíðarhugmyndir, samhliða hugmynd minni um að gerast hjónadjöfull í dönsku konungsfjölskyldunni. Nú langar mig til Rómönsku Ameríku. Vitanlega langar mig þangað í von um að hitta Gael, þótt eflaust séu meiri líkur á að hitta kauða hér í Reykjavík, en líka bara til að ferðast og skoða. Það eina slæma er að til að fara til Suður-Ameríku þarf ég að eiga peninga og til að eignast peninga þarf ég að vinna. Mér finnst hvort tveggja afar leiðinlegt, vinna og að eiga peninga, ég er miklu betri í að eyða þeim bara.
Svo að ég snúi mér að öðru þá óska ég eftir mannafli til að aðstoða mig á Kleppsveginum. Sigríður er jú farin og ég hyggst hálfflytja niður í herbergi. Fyrst þarf samt að gera það vel vistarhæft, þrífa það og ganga frá dóti. Býð ég því áhugasömum í þrifapartý annað kvöld, 24. ágúst, þar sem ekki verður boðið upp á neitt nema gleðina sem fylgir því að hjálpa lötum námsmanni. Sjáumst á Kleppi!