1.8.05

Verslunarmannahelgi í borginni

Svo virðist sem allar helgar hjá mér fari í vitleysu, ég kem mér aldrei að verki, og verslunarmannahelgin í ár var engin undantekingin þrátt fyrir aukadag. Í ár var ég bara heima í Reykjavík, eins og raunar ég hef gert öll ár með einni undantekningu, þegar ég fór á kristilegt mót í Vatnaskógi fyrir löngu síðan. Útihátíðir hafa einhverra hluta ekki náð að lokka mig, veit ekki hvers vegna, en þótt þær hefðu lokkað mig í ár þá hefði buddan bannað, og ég haldið mig heima. En svo að ég hætti þessu blaðri, þá átti ég hina ágætustu helgi og fór m.a.s. út að skemmta mér og hafði mjög gaman af. Ferðinni var heitið í Nordjobbarapartý í fylgd Katrínar, og þaðan í miðbæinn. Yfirleitt læt ég hafa eftir mér stór orð um leiðindi skemmtanalífsins í höfuðborginni en á föstudagskvöldið skemmti ég mér stórvel og það án þess að hafa hitt Gael. Ég fékk samt að tala smávegis spænsku, það kannski bjargaði kveldinu. Kannski enginn þjóðhátíðarstíll á helginni (Jónas, já ég gerði mér grein fyrir því hversu vel þú skemmtir þér, í öll skiptin) en fínt samt.
Satt best að segja er ég samt að komast í krísu varðandi haustið. Ég veit ekkert hvað ég á að gera samhliða ritgerðarskrifum. Kannski þarf ég reyndar að taka eitt eða tvö fög í Háskólanum...það kemur í ljós...en ef ekki þá er haustið algjörlega óskipulagt. Einhverjar hugmyndir?