9.11.03

Jæja, enn ein helgin langt komin þótt ekki hafi hún verið neitt sérstaklega viðburðarrík. Á föstudagskvöld átum við reyndar saman heima hjá mér nokkrir vinir og horfðum á upptöku af Idol, sem vissulega var nokkuð gaman, auk þess sem hluti hópsins; Edda, Jónas, Elías og svo bættist Palli við, fór út að dansa. Fremur hressandi, en ekki eins gaman í morgun þegar ég þurfti að fara í vinnuna. Ég var svo ægilega þreytt og utan við mig að einn kúnninn sagði mig vera í öðrum heimi, sjöunda himni og spurði hvort ég væri ástfangin. Tókst samt að halda kassanum á núlli sem mér finnst árangur út af fyrir sig eftir jafnlítinn svefn og ég fékk. Annars er ég núna að leka út af sökum þreytu og er í þokkabót banhungruð. Væri einhver dyggur lesandi bloggs míns (líklega margir sem lesa það klukkan hálffjögur á laugardagsnóttum) til í að koma með eitthvað að borða handa mér? Takk, sjáumst! Hah, ákvað að bæta aðeins við þetta. Fór að rifja upp fund minn við gamlan bekkjarbróður og mundi þá eftir óhemjufyndnu atviki sem átti sér stað rétt fyrir heimför á föstudaginn. Elías, Jónas og ég stóðum sem sé eftir á Lækjartorgi eftir að hafa spjallað við Frey og Diddu (vona að ég fari rétt með nöfn) og vorum að leggja af stað til baka, þegar Jónas fór einhverra hluta vegna að syngja Nínulagið. Það var svo sem ekkert sniðugt við það, hið fyndna var SAUÐdrukkna lágmark þrjátíu ára gamla konan sem tók að syngja með Jónasi með miklum tilþrifum og gott ef ekki faðmaði hann að skilnaði. Sú söng sko illa! Veit ekki hvað Bubbi hefði sagt við hana! Kannski getað fantaserað eitthvað í Sister Act style....aldrei að vita.