13.1.04
Ég veit ekki hvað olli því en ég var óhemjubitur í morgun, alls ekki morgunfúl (ótrúlegt en satt) en greinilega full af bitrum tilfinningum. Svo er mál með vexti að ég var að hlusta á nýja geisladiskinn sem Eva gaf mér í jólagjöf, "Ella baila sola", sem er spænsk stúlknasveit, að fróðra sögn dáð af Madridarstúlkum. Í hægðum mínum beið ég eftir strætó og fór að hlusta almennilega á textann í laginu og satt best að segja hneykslaðist stórlega. Í textanum syngur kona sem dreymir um að fá að verða eiginkona einhvers og fá að þrífa húsið hans og hlusta á litlar tær tipla um húsið. Svo geti hún hlakkað til vikulegu kossanna. Ég ætla rétt að vona að þetta sé kaldhæðni, ég bara trúi því ekki að ungar spænskar stúlkur hugsi svona. Í næsta lagi á eftir var svo talað um stúlku sem var ekki söm ef hún fékk ekki að sjá hann, því þegar hann var nálægt glampaði í augum hennar. Ég geri mér grein fyrir því að um það bil áttatíu prósent dægurlaga fjalla um eitthvað svipað en biturleikinn sem rauk upp í mér olli því að ég hálfurraði í strætó. Annars er ég nú bara nokkuð kát. Ég fékk nefnilega tölvuskeyti í gærkveldi frá kennaranum mínum sem var að láta mig vita af því að einkunnin mín hefði farið vitlaust inn og ég hefði átt að fá 0,5 hærra en það sem ég hélt ég hefði fengið. Fyndið það!