18.12.07

Leikur

Settu nafnið þitt í kommentakerfið og…

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig
4. Ég segi þér eitthvað sem meikar bara sens fyrir mig og þig
5. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér
6. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á
7. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef lengi velt fyrir mér um þig
8. Ef þú lest þetta þá verðuru að setja þetta á bloggið þitt…

4.12.07

Skítadjobb

Það gerist ekki sérlega margt spennandi í lífi mínu svo að ég hef ekki frá neinu stórfenglegu að segja en það var ægilega fyndið samtalið sem ég átti við ungan dreng sem afgreiddi mig fremur ólundarlega á kassa í Nóatúni síðdegis í dag eftir að ég gleymdi að biðja um poka en var búin að borga með korti:

Ég: Æi, ég gleymdi að segja að ég ætlaði að fá poka.
Ungi kassastrákurinn: Taktu hann bara.
Ég: (byrja að leita að klinki í veskinu mínu) Heyrðu, ég er hér með klink, ég borga bara fyrir pokann.
Ungi kassastrákurinn: Hvað heldurðu að það skipti máli? Ég yrði bara feginn ef þeir myndu reka mig héðan, þetta er svo svakalega mikið skítadjobb!

Ég tek fram að þetta var auðvitað miklu fyndnara real life og að ég þorði ekki öðru en að sleppa því að greiða fyrir plastpokann.

1.12.07

24 ára í dag!

Sigga litla systir mín á afmæli í dag. Það er ekki lítið erfitt að velja afmælisgjöf handa stúlku eins og henni. Sigga er nefnilega með ákveðinn smekk á fötum og gengur ekki í hverju sem er. Sem betur fer hjálpaði sú stutta mér örlítið við valið á gjöfinni. Hún tók myndir af sér í fötum sem hún fílaði. Núna er vandamálið bara að velja hverja af úlpunum ég gef henni. Þær eru allar svo flottar:


Til hamingju með daginn Sigga!

29.11.07

Ískalda Islandia


Óscar vinur minn benti mér á athyglisverðan greinarstúf (bls. 14) íspænska dagblaðinu 20 minutos, þar sem fjallað er um að Ísland hafi lent í efsta sæti á lista Sameinuðu þjóðanna yfir þau lönd sem best er að búa í. Ekki finnst mér svo sem sérlega merkilegt að landið hafi lent svona ofarlega. Hér eru jú vandamál eins og annars staðar, þótt lífið sé flestum léttara en víða. Það sem vekur athygli mína og blandnar nostalgíutilfinningar eru athugasemdirnar sem Spánverjarnir sendu til blaðsins og voru birtar þar. Ég læt nokkar fylgja og leyfi ykkur að segja skoðun ykkar á þessu:

Við erum pottþétt miklu glaðlyndari. - Otro que no se entera

Þegar það verður hægt að fá pintxos, paellu, jamón og ólífuolíu á Íslandi, þá velti ég því kannski fyrir mér. - Gilgamensh

Ég myndi ekki vilja skipta á pínulítilli íbúð við spænsku ströndina fyrir herragarð á Íslandi. -Asd

Þeir mega nú bara eiga sig með ísjakana sína og mörgæsirnar - Robe

Einhverra hluta vegna fær þetta mig til að hugsa um hin endalausu samtöl sem innihéldu línurnar ,,Frá Íslandi? Úúúú íííískalt?"

21.11.07

Til hamingju með daginn!

Hún er tveggja ára í dag, hún er tveggja ára í daaaaag.....


Ein af allra sætustu stelpunum í bænum er tveggja ára í dag, orðin hálffullorðin. Ég er ekki viss um að hún lesi bloggið mitt enn þá en ég óska henni engu að síður innilega til hamingju með daginn! Og þér líka með einkadótturina, Edda!
(Myndinni stal ég frá móður barnsins, sorrý!)

16.11.07

Missið ekki af þessari

Fyrir þau ykkar sem voru svo ólánsöm að missa af föstudagsmynd Ríkissjónvarpsins vil ég mæla með því að þið rjúkið á næstu videóleigu hið snarasta og náið ykkur í hana. Þetta er menning í hæsta gæðaflokki sem engin(n) ætti að miss af. High School Musical 2 er mynd sem allir ættu að sjá!

6.11.07

Hún á afmæli í dag

Fyrir nákvæmlega tuttugu árum fæddist pínulítil stúlka í Danmörku en hún er orðin nokkuð stór í dag eins og sést á myndinni, enda borðað talsvert mikið af brauði með hamborgarasósu og húðlausum pylsum gegnum tíðina. Elsa fékk þó flotta afmælisgjöf í dag sem þó gerir það að verkum að hún verður að gera sér að góðu að deila afmælisdeginum. Til hamingju Elsa, Óli og Sunna!

29.10.07

Osló

Ég er í Osló, ekki samt hugarástandinu Osló heldur borginni. Hér fara fram ýmsir fundir, sem ég þarf að sækja og svo er Norðurlandaráðsþing. Ægilega gaman. Fluginu mínu seinkaði vegna snjókomu en það gerði ekkert til. Þetta er í þriðja sinn í röð sem flugi sem ég tek seinkar. Allt er þá þrennt er. Nú ætla ég að fara í H&M.

23.10.07

Heimsókn

Eftir að hafa verið með gesti svona um það bil einn þriðja af þeim tíma sem ég dvaldi í Kaupmannahöfn, hefur verið dálítið skritið að vera bara ein með Jónasi á Sólvallagötunni frá því að við fluttum hingað. Sem betur fer hafa Eva og Sigga þó verið tíðir gestir og fyllt í hið ægilega tómarúm sem ella hefði skapast. Oliver og Skibber gerðu líka sitt með því að koma í heimsókn til okkar í síðustu viku. Drengirnir höfðu keypt miða á Airwaves og því þótt við hæfi að heimilisfólkið hér í Vesturbænum gerði slíkt hið sama. Ég var pínulítið smeyk yfir að ég myndi ekki finna neitt mér við hæfi enda er ég ægilega lítið inni í tónlistarheiminum og hafði lítinn tíma til að kynna mér það sem í boði var. Úr varð því að ég lét mig svolítið fljóta með straumnum, elti Siggu systur og Evu að mestu leyti, og ekki varð ég svikin. Það var ægilega gaman! Oli og Skibbie fóru reyndar stundum á aðra tónleika en við enda drengirnir hrifnir af óeðlilega hörðu rokki. Þeir voru samt líka mjög sáttir með þetta allt saman. Uppáhöldin mín voru líklega The Magic Numbers og Jenny Wilson en svo voru Naflakusk líka skemmtileg.
Helginni eyddi ég því miður ekki á Airwaves. Eldsnemma á laugardagsmorgun hélt ég nefnilega í rútuferð til Kirkjubæjarklausturs þar sem ég dvaldi í fríðum hópi stjórnarfólks í Norræna félaginu við störf. Ferðin var talsvert skemmtilegri en ég hafði búist við en Kirkjubæjarklaustur virkaði nokkuð mikið rólegri bær en í minningunni (Ég var þar nokkrum sinnum þegar ég var rétt skriðin á unglingsár). Það er þó aldrei svo að maður læri ekki neitt nýtt í svona vinnuferðum. Ég komst að því að ég er með andlit á við 19 ára en hendur sem myndu henta 45 ára. Eins voru mér gefnar reglulega fínar hugmyndir á barnsnöfnum, eignist ég einhvern tímann dóttur. Aldrei er neitt með öllu illt.

11.10.07

Bible Camp

Horfði einhver á þátt í sjónvarpinu í gær sem fjallaði um ofsatrúuð börn? Ég varð næstum hrædd við að horfa á þetta. Hvað fannst ykkur?

10.8.07

Kvart og kvein (kannski best að lesa ekki)

Mér finnst ægilega leiðinlegt að flytja. Það er eiginlega alveg sama hversu stutt er flutt, það er alltaf leiðinlegt. Hræðilegast hlýtur þó að vera að flytja milli landa. Að setja í kassa og ákveða hverju eigi að henda er erfitt verk fyrir fólk eins og mig, sem allt vill geyma. Ekki skánar það við að þrífa íbúðina en ég held að þa allra allra ömurlegasta sé að standa í því veseni sem fylgir því að senda búslóð með skipi milli landa. Þekkið þið einhvern sem tekur að sér að ná nokkrum kössum af drasli og eins og einu rúmi út úr tolli gegn vægu gjaldi? Endilega sendið mér númer!

27.7.07

Klukkleikur

Ég var klukkuð af Valgerði sem svo lokkar mig með verðlaunum til þess að drífa mig í að taka þátt. Verð ég ekki að hlýða? Hér koma átta hlutir sem þú vissir ekki um mig. (Vissulega eru einhverjir sem vita þetta, en vonandi er eitthvað sem kemur á óvart).

1. Þegar ég var lítil fannst mér gaman í ,,mömmó" en ekki hinum dæmigerða dúkkuleik. Í mínum leikjum var ég ávallt einstæð móðir á flótta, ýmist undan skattayfirvöldum eða brjáluðum barnsföður. Nánast án undantekninga flúði ég á báti og lenti í óveðri. Sigga var ekki sérlega sátt við að vera elsta barnið sem þurfti að vera ábyrgðarfullt.

2. Ég hef aldrei verið saumuð, en reyndar þurfti einu sinni að skella einu spori á tannholdið þegar dreginn var úr mér endajaxl.

3. Þegar ég var unglingur var ég skotin í Tom Hanks, sem er 25 árum eldri en ég. Mér fannst hann sætastur allra leikara.

4. Á leikskóla var ég yfirleitt ægilega þæg en þótti sá stimpill líklega eitthvað leiðinlegur þar eð ég dundaði mér á tímabili við að rífa bækur og henda þeim bak við sófa. Ég var með samviskubit yfir þessu í langan tíma en man ekki eftir að þetta hafi uppgötvast, a.m.k. grunaði engan engilinn mig.

5. Eina prófið sem ég man eftir að hafa svindlað á (fyrir utan stafsetningarpróf hjá Nebba í 8. bekk) er kristinfræðipróf í 4. bekk. Þá kíkti ég á svarið hjá Gunnari bekkjarfélaga mínum og mundi rétta svarið. Þetta hvílir enn á samviskunni.

6. Í 9. bekk fór bekkurinn minn í skólaferðalag. Við stelpurnar vorum í góðu áliti hjá kennaranum en strákarnir ekki eins. Við tókum okkur til og sprautuðum tómatsósu úr pylsusalatómatdunki á borðið og kenndum svo strákunum um. Þeir fengu skammir en við stelpurnar hlógum.

7. Þegar ég var lítil laug ég því að ég væri með ofnæmi fyrir sinnepi þar sem mér þótti það vont. Enn þann dag í dag borða ég sjaldnast sinnep, en ég er hætt að afsaka það með ofnæmi.

8. Eva vinkona mín manaði mig gjarnan upp í hluti, sem þó yfirleitt tengdust undarlegum klæðaburði eða stælum við pítsasendla. Einu sinni tókst henni þó að mana mig upp í að reyna við afgreiðslumanninn í kjörbúð hverfisins, en sá starfaði einnig sem kennari við skólann okkar. Vart kynþroska reyndi ég að sanna mig og snerti hönd afgreiðslumannsins þegar hann rétti mér afganginn. Held að það hafi verið eitthvað alvarlegt að hjá mér.

Ég klukka Hlíf, Catiu, Sigrúnu Þöll, Jónas og Magdalenu.

23.7.07

Sveitasælan

Það hefur alltaf blundað í mér dálítill spæjari og raunar hefði mig langað til að opna einkaspæjaraskrifstofu í Reykjavík ef aðeins markaðurinn væri stærri og meiri hasar í gangi. Sem betur fer koma samt alltaf upp stundir eins og nú, þegar spjæjarinn í mér fær að lifa góðu lífi. Í gær vorum við Jónas nefnilega rænd í nýjum heimkynnum okkar fjarri ysi stórborgarlífsins. Við búum á kollegíi ásamt hópi nordjobbara. Nýja húsnæðið er að mörgu leyti prýðilegt, en ýmsa smágalla má finna hér og þar. Eldhúsið er til að mynda viðbjóðslegt og sturtan farin að mygla. Frá og með morgundeginum eru sambýlingarnir eða ef til vill aðeins einn sambýlingur, hins vegar stærsta vandamálið. Í morgun uppgötvuðum við Jónas nefnilega að búið var að ræna frá okkur þremur vænum sneiðum af Dominos pítsu, hálfum líter af kók sýróp og hafði þjófurinn bíræfni einnig opnað 1,5 lítra Fantaflösku sem við áttum og fengið sér glas. Nú sé ég þjóf í hverjum manni. Skyldi litli félagsráðunauturinn (sem ég hefði haldið þrettán ára son húsvarðarins ef ég hefði ekki vitað að Nordjobb ræður engan undir átján ára aldir) hafa slafrað í sig pítsunni sem við hlökkuðum til að taka með í nesti? Eða ætli reykingarpían, sem plokkar á sér lappirnar uppi á eldhúsborði sé sek? Vonandi kemst ég fljótt til botns í þessu grafalvarlega máli. Þjófnum skal refsað. Alma spæjó hlífir engum.

5.7.07

Torsdagsdemo við Blegdamsvej fængsel

nst

Á hverjum fimmtudegi eru haldin mótmæli, sem mér skilst að tengist niðurrifi Ungdomshusets margumrædda. Dagurinn í dag var engin undantekning en að þessu sinni heyrðum við aldeilis vel í mótmælendum. Í hellidembu marseruðu dökkklædd ungmenni ásamt tilheyrandi lögreglumannagengi í götuna og líktist þetta einna helst líkfylgd. Talsverður hávaði fylgdi þeim en lækkað var í tónlistinni og hópurinn stoppaði fyrir utan fangelsið, sem finna má í bakgarðinum hér á Læssøesgade. Hóf þá ungur maður raust sína en sá vildi hvetja vini bak við rimla. Við Jónas hlupum milli glugganna sem snúa að götunni og eldhúsglugganum sem vísar að fangelsinu til að fylgjast með viðbrögðum fanganna, sem virtust ánægðir með heimsóknina. Égvar samt örlítið hugsi, ætli allir fangarnir sem hlustuðu á hvatningarorð svartfrakkanna og veifuðu á móti sitji í gæsluvarðhaldi vegna mótmæla? Getur ekki verið að þarna séu líka ofbeldismenn eða þjófar? Með fylgja myndir af herlegheitunum. Ef grannt er skoðað má sjá glytta (er það kannski glitta?) í fangana í gluggum fangelsisins.

2.7.07

Hórkarlinn Travis

Á uppáhaldssjónvarpsstöðinni minni er um þessar mundir verið að sýna þáttinn vinsæla um piparsveininn eða hórkarlinn eins og ég kýs fremur að kalla hann. Að þessu sinni berjast ungmeyjarnar um lækninn Travis. Þátturinn gengur vitanlega út á hið venjulega, hórkarlinn kynnist dömunum á stefnumótum og dreifir svo rósum til þeirra sem honum þykja heppilegar til undaneldis. Þær sem ekki fá blóm halda heim á leið grátandi. Að þessu sinni fer leikurinn fram í Frakklandi og er París að sögn hórkarlsins frábær borg til að hitta hina einu réttu. Valið er þó erfitt. Stefnumótin hjálpa vissulega. Travis fer með dömurnar út að borða, þau spóka sig í sundlaugum og heitum pottum og eins gefur hann þeim gjafir. Í þættinum í kvöld fóru þau líka í hjólakeppni, sem kölluð var Tour de France. Þannig kynnist hann dömunum og áttar sig á alvarlegum göllum. Mér virðist hann þó ekki kynnast dömunum eins vel og í íslensku útgáfu piparsveinsins. Í kvöld voru Susan og Jehan sendar heim. Önnur þótti of mikið fyrir sopann en glæpur hinnar var alvarlegri. Hún hafði verið gift. Það vita allir að tilvonandi hórkarlaeiginkonur mega ekki eiga sér hjónabandsfortíð á sama hátt og fegurðardrottningar mega ekki eiga afkvæmi. Ég held að hápunktur þáttarins í kvöld hafi verið síðasta mínútan. Eftir augljóslega allt of langa dvöl í Frakklandi var nefnilega komið upp alvarlegt vandamál meðal kvennanna og hórkarlsins. Jú, maturinn. Franskur matur þykir þeim nefnilega alls ekki góður. Sem betur fer var þetta þó leyst. Hrúgur af klesstum hamborgurum ollu fagnaðarópum meðal stúlknanna. Ekkert betra en ekta amerískur matur. Ég spyr sjálfa mig af hverju ég eyddi ekki frekar kvöldinu í að pakka í kassa en að horfa á þennan frábæra þátt.

Blautt bless

Ég hugsa að ég flýi bráðum land, þessi rigning er illþolandi. Kannski flý ég bara suður á bóginn, kannski kringum 28. júlí. Já, há, hafðu það ,rigningarland!

28.6.07

Frá Nokia í Samsung

Síminn minn er látinn og annar tekinn við í hans stað. Ægilega ljótur Samsung-sími. Takkarnir eru sleipir, í lok hvers skilaboð kemur skrítin orðsending á dönsku og ég er alltaf að reka mig í flýtitakka sem leyfir mér að hlusta á mismunandi hringitóna. Vitanlega þarf ekki að taka það fram að hringitónarnir eru það versta við símann. Hræðilegir. Ekkert ,,you gotta pick it up"-væl lengur. Nei, ískrandi píp. Endilega hringið í mig!!

18.6.07

Dagarnir í hnotskurn

Að undanförnu hef ég:

- Unnið aukavinnu fyrir Nordjobb í Danmörku, mér til gleði og gamans en einnig pirrings.
- Eytt helgi í svo hrikalega mikla leti að flestir hefðu fengið samviskubit. Ekki ég.
- Tekist á móti frábærum gestum.
- Tapað í yatsi fyrir Siggu.
- Velt þvi fyrir mér hvort ég eigi að panta mér meira hvítt Twix, og jafnvel hvítt Lion Bar líka.
- Farið í Tívolí með Siggu, sem hirti verðlaun á nánast öllum skotbökkunum, sem hún heimsótti.
- Unnið Monsters Inc límmiða bók á skotbakka í Tívolí. Heppnin gífurleg!
- Borðað fyrsta grillmat sumarsins í góðum félagsskap hjá Óla.
- Svitnað í sendiráðinu.
- Blotnað í rigningu og brunnið í sól.
- Áttað mig á því að við nýfermd frænka mín eigum talsvert sameiginlegt hvað varðar fatasmekk.
- Verið svo ósýnileg í vinnunni að þjófavarnakerfið var sett á meðan ég sat enn við störf.
- Tekið þátt í að búa til Quiche, sushi og fullt af pönnukökum.
- Farið á tónleika með Pet Shop Boys í Tívolí og áttað mig á því að þessir gömlu karlar syngja ekki einu sinni vel.
- Séð drottninguna og verið veifað glaðlega af eiginmanni hennar.

Hvað svo?

16.6.07

Upplýsingaskyldu sinnt

Ég hefði mátt vita að gort mitt á síðum veraldarvefsins myndi ekkert nema slæmt hafa í för með sér. Núna rignir eins og hellt sé úr fötu og hefur gert í nánast allan dag. Á slíkum dögum er auðvitað ekkert hægt að gera annað en að hanga heima. Ég tók slíkt með trompi. Vaknaði kl. 12:30 eftir tólf tíma svefn og hef ekkert gert annað í dag en að labba út á pítsastað í fæðisleit(áður hafði ég kannað alla möguleika á heimsendum mat en Domino's sendir ekki í mitt hverfi). Ég var því þakklát þegar Oliver hringdi og tilkynnti komu sína í Læssøesgade, hér verður sushi í kvöld ásamt opalskotum og pönnukökum.
Heimkoman er öll að skýrast. Ég mun vinna aukaviku í sendiráðinu og halda svo í vikufrí við Adríahafið. Allt lítur svo út fyrir að við Jónas munum fljúga heim, Feneyjar - London - Keflavík, sunnudaginn 5. ágúst. Ég er búin að fá vinnu á gömlum slóðum og er raunar nokkuð spennt fyrir því. Eins komst ég inn í mastersnám við Háskóla Íslands sem ég sótti um, og stefni því að því að taka eins og tvö fög meðfram vinnu ef slíkt er mögulegt Nóg verður því eflaust að gera. Húsnæðismál eru raunar nánast komin á hreint, aðeins á eftir að skrifa undir leigusamning. Mér myndi sjálfsagt líða illa yfir því hvað þetta er allt saman ofurskipulagt, en sem betur fer er miðinn heim enn óbókaður. Gott að hafa örlitla óreiðu í lífinu til að halda geðheilsu, ekki satt?

9.6.07

Grillandi hiti

Ég vil nú ekkert vera að monta mig, EN það er svakalega heitt í Kaupmannahöfn þessa dagana. Einhverjir á leið í heimsókn?

29.5.07

Spennandi sjálfboðaliðastarf í sumarbúðum

Ég hef oft pirrað fólk með sögunni af því þegar ég hitti nordjobbara frá 2004 í miðbæ Reykjavíkur síðastliðið sumar. Þá hafði ég einhverra hluta vegna séð mann á leið minni til vinnu og hugsaði með mér hvort þetta væri Simon, sem ég hafði ekki séð í tvö ár og raunar mundi ég varla nafnið á honum. Þetta var náttúrulega ekkert Simon, heldur bara annar ljóshærður maður. Fimm mínútum síðar geng ég svo fram á Simon. Svo hitti ég hann reyndar aftur í Leifsstöð nokkrum dögum síðar. Þetta væri ekki í frásögu færandi nema af því að í dag hitti ég Simon fyrir tilviljun, ekki bara einu sinni heldur tvisvar: Á leiðinni í vinnun hljólaði hann aftan að mér og á leið heim úr vinnunni sat hann á bekk og hrópaði á mig þegar ég gekk fram hjá. Ætti ég að hafa áhyggjur af því að maðurinn elti mig?


Annars er hlé á gestagangi í bili. Eva og Freyja voru hér um helgina og næsti hópur kemur ekki fyrr en aðra helgina í júní. Auðvitað var ægilega gaman að fá Evu og Freyju í heimsókn en Evu reyndar fylgir því miður ætíð rigning þegar hún heimsækir Danaveldi. Við skemmtum okkur engu að síður vel, fórum í Tívolí, sáum ægilega lélega mynd í bíó (síðasta skiptið sem Freyja fær að velja bíómynd, smekkur hennar er næstum eins slæmur og minn) og kíktum á Bakken. Nú bíð ég bara eftir því að þær komi aftur í heimsókn. Eftir að Eva yfirgaf landið byrjaði heldur betur að hitna í kolunum, það var steikjandi hiti síðdegis á sunnudag og eins í dag. Til þess að passa upp á að verða ábyggilega ekki sólbrún (brunnin) tók ég að mér smáaukaverkefni og mun ég því sitja inni á skrifstofu til klukkan 20 á hverjum degi. Munið að hvítt er fallegt.


Að lokum vil ég auglýsa örlítið fyrir hana Sigrúnu sem í sumar mun starfa í alþjóðlegum sumarbúðum fyrir börn á vegum CISV. Þangað vantar einn eða tvo starfsmenn og því hvet ég alla áhugasama að hafa samband við hana (símanúmerið er 8662692). Þetta er hrikalega spennandi og ég vildi óska þess að ég gæti tekið þátt í þessu.

20.5.07

Nafna mín

Bjarnheiður sendi mér link með upplýsingum um nöfnu mína. Ég veit nú ekki hvort mig langar að líkjast henni að öllu leyti en vonandi verður einhvern tímann samin um mig jafnflott vísa og þessi.

13.5.07

,,Helvítis Austur-Evrópuþjóðirnar"

Ég er orðin þreytt á að heyra og lesa um ,,helvítis Austur-Evrópuþjóðirnar" sem allar kjósa hver aðra í Eurovision. Norrænar þjóðir eru í fyrsta lagi engu betri og kjósa hver aðra eins og þeim sé borgað fyrir það. Erum við þá að gefa þeim stig vegna frændskapar eða er smekkurinn bara svipaður á norðurhjara veraldar? Gæti ekki verið að Balkanskagalöndin deili svipuðum tónlistarsmekk? Og að íbúar fyrrverandi ríkja Sovétríkjanna séu almennt heitir fyrir löngum leggjum og hvítum tanngarði? Vissulega má greina mikla pólitík í stigagjöf, en er það ekki bara í lagi? Vissulega þýðir það mögulega að ,,vestrænum þjóðum sé vonlaust að komast upp úr forkeppninni" eins og mörgum hefur orðið á orði. Íslendingar geta vitanlega ekki bara tekið þátt og haft gaman af, við þurfum jú alltaf að vera best í öllu. Annars var ég bara nokkuð ánægð með sigur Serbíu. Gaman að lag sem ekki er sungið á ensku vinni, slíkt hefur jú ekki gerst síðan 1998 skilst mér og eins var þetta ægilega dæmigert júrólag. Þetta var ekki uppáhaldslagið mitt reyndar, ég var aðdáandi Þýskalands og Frakklands, en smekkur minn er kannski örlítið skrítinn. Mér þótti minna gaman að slökkt væri á keppninni vegna kosningaúrslita þegar aðeins fimm mínútur voru eftir. Það eyðilagði þetta eiginlega alveg og var fúlt, þótt vissulega hafi kosningaúrslitin líka verið hörkuspennandi. En það munaði bara svo litlu. Gátu talningarmenn ekki verið aðeins seinir? Vinur minn í París, sem er harður aðdáandi kepninnar hringdi í mig í gær (slíkt gerir hann aldrei) bara vegna þess að hann var svo ægilega glaður með sigurvegara keppninnar. Það lá við að hann hrópaði af gleði. Ég held að hann haf ekki verið eini aðdáandinn og eflaust glöddust margir Evrópubúar í gær. Til hamingju Serbía!

9.5.07

Líf í myndum

Það er augljóst að Margit vinkona mín og ég erum sálufélagar. Áðan ætlaði ég að hringja í hana (og slíkt geri ég ekki sérlega oft), hafði tekið upp símann og fundið númerið hennar þegar hún hringir. Við hugsum líkt þrátt fyrir hálfrar aldar aldursmun. Annars ætla ég fátt að segja annað en að á föstudaginn held ég heim á leið. Á Íslandi mun ég dvelja í tæpa viku og vel má vera að ég nenni að hitta skemmtilegt fólk. Ég geri ráð fyrir að vera með gamla númerið mitt, en það fer þó eftir því hvort ég finn sim-kortið mitt. Svona til að herma aðeins eftir Jónasi ætla ég að deila með lesendum mínum nokkrum myndum úr daglegu lífi. Sjáið bara hvað það er gaman í Kaupmannahöfn.
Við Oliver, Jónas og Skibber héldum til Falster einn sunnudaginn og drukkum kaffi á nokkrum heimilum og borðuðum svo kvöldmat á afar huggulegum veitingastað við þjóðveginn.
Aldrei hef ég fengið jafnógeðslegan mat og þar. Ég er ekki viss hvort var ógirnilegra, fitulöðrandi skinkusnitselið sem strákarnir borðuðu eða ógeðslegi fiskurinn sem ég fékk. Jónas fékk svo vinstúlku sína í heimsókn. Gleðin var mikil það kvöldið eins og sjá má.
Hér eyði ég tímanum alla virka daga. Ægilega huggulegt, finnst ykkur ekki?
Þetta er kirkjan í Elmelunde á Møn en þar í þorpi gistum við Jónas. Ægilega var það huggulegt. Møn er þess utan ægilega falleg, fullt af sætum bæjum og fallegri náttúru.Jónas féll algjörlega fyrir þessu tréi. Þau skrifast á núna. Ég aftur á móti var algjörlega ástfangin af ströndinni sem sést þarna fyrir neðan og við gengum því niður alla hlíðina, ég á spariskónum. Alltaf gott að vera vel búin á ferðalögum.

3.5.07

Nafna mín

Hvernig get ég látið það vera að fá mér svona?

Spenna?

Mótmælendur eru enn komnir á kreik. Rétt í þessu var hópur mótmælenda á ferð við minn enda Nørrebrogade. Verður kvöldið spennandi?

28.4.07

Til hamingju með afmælið!

Þessi dama er ekki sérlega hrifin af að láta taka myndir af sér og því þykir mér við hæfi að láta þessa mynd fylgja. Þið sem þekkið hana vitið að hún er fjallmyndarleg og því er það mikil synd að blítt andlitsfall hennar fái ekki að prýða fleiri ljósmyndir. Sem betur fer er hún nú samt líka falleg að aftan. Þið sem þekkið hana vitið kannski líka að í dag er afmælisdagur þessarar ljósmyndafælnu stúlku. Hún er 26 ára í dag! Innilegar lukkuóskir, Edda mín! Nú ertu sko orðin gömul!

24.4.07

Ef ég bara nennti...

...að blogga. Ægileg bloggleti hefur lagst á mig eins og þykkt ský og ég veit ekki hvort mér tekst að blása því burt. Annars var nóg að gera um helgina og ég þurfti raunar að skrópa á stefnumót vegna annríkis. Aðalástæðan var sú að á Læssøesgade og Blegdamsvej (í húsunum sem snúa að garðinum fyrir aftan húsið) var vinnuhelgi. Þeir sem ekki vildu borga 500 DKK í sekt þurftu því að mæta og taka til hendinni í garðinum. Afrek dagsins eru ekki í frásögu færandi en það var ægilega gaman að borða svo kvöldmat með nágrönnunum í ruslatunnuportinu um kvöldið við kertaljós og hlýju frá gashitara. Áhugavert var eins að heyra sögur nágrannanna af húsinu og því sem í kringum það er. Eins og glöggir lesendur muna er útsýnið úr svefnherbergisglugganum mínum fangelsi sem tilheyrir dómshúsi sem er við hliðina á Blegdamsvejhúsinu. Þar sem mótmæli vegna ungdomshuset hafa verið afar tíð í hverfinu hef ég oftar en ekki skellt skuldina á mótmælendur þegar hávaði neðan af götu, en slíkt er raunar tíður viðburður. Nágrannakona mín skýrði aftur á móti fyrir mér um helgina að öskur ungra karlmanna ættu sér aðra orsök. Fangelsið er sem sé gæsluvarðhaldsfangelsi og heimsóknir þangað eru að sögn afar takmarkaðar. Slíkt veldur vissulega samskiptaleysi milli vina og ættingja fanga en margir þeirra hafa fundið ráð við því. Jú, þeir öskra skilaboð sín á milli. Þeir allra klókustu nota víst ljósskilaboð í þokkabót og börn nýta enn aðrar aðferðir. Téð nágrannakona sagði mér nefnilega líka frá því að í desember í fyrra hafi hún orðið vör við það oftar en einu sinni að börn stóðu fyrir neðan gluggann hjá henni og sungu jólalög fyrir pabba sinn sem sat í gæsluvarðhaldi í Blegdamsfængsel. Mömmurnar voru svo iðulega með í för að hennar sögn og hver annarri skapverri við börnin. Er hægt að hugsa sér eitthvað sorglegra?

Fleiri sögur fékk ég að heyra af fangelsinu. Karlmaður sem búið hefur síðan á áttunda áratugnum á Læssøesgade 25 lýst til að mynda heimsókn tíu mótorhjólatöffara í fangelsið. Nágrannakonan Stine lumaði einnig á fleiru skemmtilegu. Þeir sem svo þekkja mig vita að strípihneigð mín er töluverð og oftar en ekki geri ég mér enga grein fyrir því að ef ég labba berrössuð fram hjá glugga með gardínuna uppi, þá verða nágrannarnir ekki kátir. Stine sagði mér aftur á móti að fangarnir væru hæstánægðir með strípihneigða nágranna og hún hefur víst lent í því nokkrum sinnum að fangarnir hvetja hana til dáða þegar hún afklæðist í svefnherberginu. Eitthvað var stúlkunni illa við þetta og er flutt í stofuna. Nágrannarnir þeim megin geta nefnilega litið undan þegar hún strippar þar, það geta gæsluvarðhaldsfangarnir illa.

Ég gæti sagt frá bráðskemmtilegum bíltúr sunnudagsins en vegna skýsins fyrrnefnda verður slíkt að bíða. Hasta la próxima vez....

12.4.07

Ferðalög

Öspin vill blogg og þá er eins gott að standa sig. Ýmsu hef ég raunar frá að segja, en leti gerir það að verkum að ég nenni ekki nokkrum hlut. Kemur það einhverjum á óvart?

Síðan ég skrifaði síðast hef ég raunar brallað ýmislegt sem í frásögu er færandi en ekki nenni ég að segja frá því öllu. Vel hið besta úr. Um mánaðamótin mars/apríl hélt ég í stórborgarferð til London til að sækja au pair drenginn minn. Ferðin gekk prýðilega og mér til mikillar undrunar virkaði hótelið sem við höfðum pantað sökum lágs verðs bara nokkuð huggulegt. Helst til áliðið var orðið þegar ég skreið upp á herbergi svo að ég skellti hurðinni á eftir mér og hoppaði upp í mjúkt og þægilegt rúmið og sofnaði. Ekki svaf ég þó lengi. Eftir klukkustundardvöl í draumalandinu (mínu Draumalandi, ekki landinu hans Andra) vaknaði ég við að karlmaður gekk inn í herbergið (ég áttaði mig á því nokkru síðar að vissulega hafði ég ekki læst, hélt bara að ég hefði gert það) og sýndi engin merki þess að fara út þótt ég lægi í rúminu. Svefndrukkin mjög og rugluð í meira lagi hóf ég að hrópa að manninum og benda honum á að koma sér út úr herberginu. Sá virtist ekki skilja mig eða hreinlega ekki heyra í mér og endaði á því að ganga inn á salernið til að pissa. Ég reiddist vitanlega við þessa tilburði mannsins og hélt áfram að æpa á hann að hypja sig út en þar eð viðbrögð mannsins voru engin greip ég það vopn sem hendi var næst, baguette-samloku með kjúklingi sem ég hafði keypt á Kastrup. Vopninu beindi ég að baki mannsins, sem undarlegt nokk virtist ekki skelfdur og hélt áfram að pissa. Ég tek fram að litla hjartað mitt sló afar hratt á þessum tímapunkti og vopnaburðurinn var því engan veginn merki um hugrekki. Eftir að gesturinn kláraði sig af á klóinu skipaði ég honum út og eftir örlítið skúbb tókst mér að ýta honum út og loka hurðinni. Ekki fór þó kauði burt heldur hékk hann á hurðinni í einar tíu mínútur og reyndi að komast inn og raunar virtist annar maður vera fyrir utan. Á endanum lét hann sig þó hverfa og ég skundaði niður í móttöku harðákveðin í að fá endurgreitt og halda á annað hótel um miðja nótt, en kannski sem betur fer var enginn þar og mér tókst á endanum að róa taugarnar og sofna. Að öðru leyti var ferðin til Lundúna ægilega ánægjuleg. Ég eyddi laugardeginum í selskap Katrínar. Við keyptum okkur óléttuföt eins og okkur einum er lagið (og nei, ekkert kríli er á leiðinni, bara gott að eiga föt sem hægt er að fitna í) og nutum veðurblíðunnar. Það var ósköp gott að fá au pair piltinn, rjóðan og angandi af karrý. Nú tekur við heilmikil húsþjálfun. Góð ráð eru vel þegin!

Um síðustu helgi hélt föruneyti hringsins til Berlínar. Sú ferð var að mestu friðsamleg og skemmtileg með eindæmum. Við skoðuðum bæði fólk og staði, prófuðum þýska matargerð og leituðum að hvítu Twixi. Ég verð að vera sammála Jónasi um að Þjóðverjar séu skrítnar skepnur. Margir sem við sáum voru eins og klipptir út úr kvikmyndum sem mismunandi steríótýpur; vandræðaunglingurinn sem Jónas minntist á, pönkarinn (með risastóran hanakamb, svartan varalit og í dökkum, rifnum fötum), lesbían og konan sem þurfti alvarlega á makeoveri að halda. Ótrúlegur útgangurinn á mörgum. Mér fannst karrýpyslan, sem ég smakkaði bara nokkuð góð og kebabið á Kepapalula var líka ljúffengt. Hápunktur ferðarinnar var þó líklega barferð á Bierbar - Bei Helga & Marina. Þar voru innréttingar, sem eflaust voru í tísku upp úr 1978 og dynjandi teknótónlist. Eins var kappátið skemmtilegt þótt mér hafi aðeins tekist að ná öðru sæti. Þegar við ætluðum að taka rútuna heim til Kaupmannahafnar seinkaði rútunni um eina tvo tíma þar eð þýska lögreglan hafði áhyggjur af því að rútan væri illa búin. Huggulegt!

Jæja, ég bið lesendur mína vel að lifa.

25.3.07

Rán!

Hverjum datt í hug að stela klukkutíma af annars afar takmörkuðum nætursvefni mínum með því að breyta klukkunni einmitt þegar ég þurfti að vakna klukkan hálfsjö? Ef þið vitið hver er ábyrgur fyrir þessu, þá vil ég gjarnan fá svör. Góða nótt!

20.3.07

Takk já takk

Ég átti aldeilis huggulegan afmælisdag í síðustu viku, þökk sé öllum ykkar sem hringduð eða senduð kveðjur. Sérstaklega ykkur sem hringduð á heilbrigðum tíma. Takk! Gracias! Tak! Thank you! Merci! Helgina fyrir afmælið var ég líka svo heppin að fá Bjarnheiði í heimsókn. Það er ekkert eins gott og að hitta hana svona rétt áður en eitt ár bætist í safnið og æfa sig fyrir eldri ár. Við Bjarnheiður reynum nefnilega að ná upp svefni fyrir næstu vikur og mánuði þegar við hittumst. Á einhvern óskiljanlegan hátt virðumst við sjúga orku hvor úr annarri sem gerir það að verkum að við verðum að leggja okkur í sí og æ og við höfum ekki einu sinni kraft á við astmasjúka um áttrætt. Þannig sofnuðum við í selskapi gesta okkar hér á Læssöesgötu og þurftum að leggja okkur eftir myndlistarsýningaferð með danskri vinkonu. Engu að síður var ægilega gaman að fá Bjarnheiði í heimsókn og ég vona að hún finni sér annað tækifæri til að kíkja hér við.
Á afmælisdaginn bauð ég vinnufélögum upp á köku, sem því miður var aðeins of holl, borðaði hádegismat á snobbaða kaffihúsinu á Norðurbryggju og fór svo út að borða með Sunnu og Óla um kvöldið. Við borðuðum á huggulegum tælenskum stað og nutum þess að horfa á klám á næsta borði undir annars ægilega góðri máltíð. Í tilefni þess að ég var orðin 26 ára ákvað ég að gæta þess að spara kraftana. Því eyddi ég fyrsta deginum á þessum háa aldri í svefn, kom heim úr vinnu og lagði mig svo frá klukkan 18 - 23. Er þetta eðlilegt fyrir gamalmenni á mínum aldri? Um síðustu helgi fékk ég svo að tala spænsku við tvær sparsamar argentínskar stúlkur sem dvöldu hér í borg og gengu borgina á enda. Það var gaman! Síðar um daginn komu svo Þórhildur, sem var með mér í MR, og Tobias kærastinn hennar í heimsókn. Við borðuðum saman og þau gistu hér, það var satt best að segja verulega huggulegt! Heimsóknirnar taka engan enda að því er virðist. Kari Finni, Sigrún Þöll og Heiðdís koma á fimmtudaginn og svo er von á au pair piltinum mínum um mánaðamótin. Þá verður sko kátt í höllinni!

6.3.07

Por fin una pareja!

De niña nunca me imaginaba que yo iba a tener amigos famosos en el futuro, pero la foto de arriba es un ejemplo de que no hay que dejar de soñar. Primero Gael, luego Federico el príncipe de Dinamarca (para los que no saben, yo lo vi hace una semana), ahora Dawson y para sumarlo, Gianluca y Susan Sarandon por fin son una pareja. Felicidades a los dos!

5.3.07

Friður í nánd?

Einhverra hluta vegna finnst mér þetta ein fyndnasta frétt, sem ég hef lesið í langan tíma. Ég veit ekki hvort mér finnst fyndnara hvernig mótmælandinn lýsir því yfir að hann borði nú stundum McDonald's þegar hann fer út að skemmta sér eða lýsing lögregluþjónsins á því hvernig grænmetisæturnar hefðu átt að leysa málið. Einhvern veginn er ég ekki viss um að látunum sé lokið. Heilmikill hasar var hér rétt fyrir utan gluggann hjá mér um helgina, og áðan sofnaði ég við ljúfan nið hávaðamótmælagöngu.
Frá því að ég bloggaði síðast af viti hefur annars ýmislegt skemmtilegt og óskemmtilegt gerst í Kaupmannahöfn. Til dæmis þetta:

- Lárus flutti út. Hverfið bíður þess seint bætur.
- Ég fór í ofurverslunarferð í Fields til að kaupa fjórar afmælisgjafir og forðast brjálaða mótmælendur og ofurgæslu lögreglunnar á brúnni rétt hjá heimili mínu.
- Ég kláraði að horfa á aðra seríu í Grey's Anatomy. Ætli fólk hafi verið lagt inn vegna sýki í þennan þátt? Ég hugsa að ég sé eins nálægt því að vera lögð inn og hægt er.
- Þvottahúsinu sem við Lárus heimsóttum var lokað vegna óláta og skemmdarverka í hverfinu. Eftir 28 ára starfsemi. Það runnu næstum tár á hvarma mér.
-Ég er farin að þjást af svefnleysi. Vakna milli fjögur og sex. Ég ætti að leigja mig út til barnafjölskyldna.
- Óli og Sunna aumkuðu sig yfir MIG og tóku mig með vinafólki út að borða. Þetta var huggulegt kvöld, sem endaði með því að miðaldra tittur hellti bjór yfir mig eftir að hafa sagt mér í annarri setningu samtals okkar að ég væri með flott brjóst. Æðislegt þegar karlmenn koma sér beint að hlutunum.
- Lárus bauð í mat. Ég gaf honum þrista í innflutningsgjöf. Ég er að spá í að kaupa salt næst þegar ég fer í heimsókn, jafnvel þótt piparinn hans sé ægilega góður.
- Alexandra er ekki lengur prinsessa, nú er hún greifynja. Er ekki gæinn hennar dálítið ungur? Sætur er hann a.m.k.

1.3.07

Kóngafólk og klikkun í Kaupmannahöfn

Loksins fylltist líf mitt spennu hér í kóngsins Kaupmannahöfn. Loksins! Stóra spurningin er samt hversu langt maður vill ganga til að gera líf sitt viðburðaríkara. Lögreglumenn réðust inn í ungmennahúsið á Nørrebro eldsnemma í morgun og síðan þá hefur stór hópur fólks mótmælt víða um borgina. Vinsælustu mótmælastaðirnir hafa þó verið staðurinn þar sem ég hoppa úr strætó á morgnana til að labba í vinnuna og svo hér í næstu götu við heimili mitt. Vitandi að stór mótmæli voru skipulögð rétt við heimili mitt ákvað ég að leita skjóls í verslunarmiðstöð í úthverfi en þegar henni var lokað neyddist ég til að halda heim á leið. Ég komst óáreitt yfir brú Louise drottningar, líklega þar sem lögregluliðið var rétt að byrja að gæða sér á samlokum. Fyrr um daginn hafði fólk verið krafið um skilríki og sönnun þess að það byggi í hverfinu og jafnvel leitað á einhverjum. Nørrebrogade leit út eins og miðborg Reykjavíkur morguninn eftir Menningarnótt. Rusl og leifar af hindrunum og svo brunarústir. Ég ákvað að velja leið sem ég taldi rólega inn að götunni minni en ekki dugði það til. Á fyrsta götuhorni var brennandi ruslagámur, á því næsta lögreglan með sírenur og mótmælendur að kasta flugeldum að lögreglubílnum, í um það bil tíu metra fjarlægð. Ég nánast hljóp heim þaðan. Það eina sem hægði á mér var að lögregla gæti haldið að ég væri mótmælandi á flótta. Ég get skilið biturð fólksins vegna lokunar hússins, en er þetta ekki aðeins yfir strikið? Samgöngukerfi borgarinnar virkar afar illa, það er rusl afar víða, brunalykt og ástandið minnir helst á stríðshrjáð land. Vilja mótmælendurnir búa í svona borg?
Líklega myndi ég tuða enn meira hefði ég ekki flotið á hamingjuskýi í allan dag. Ástæðan var sú að í dag tók líf mitt nýja stefnu. Ég ákvað að ég myndi gifta mig fljótlega. Sá heppni er Friðrik André Henrik Christian, krónprins Dana. Ég sá hann nefnilega í dag. Ef einhver á góð ráð fyrir tilvonandi hjónadjöfla eins og mig, þá bið ég þann hinn sama að hafa samband sem fyrst.

Hold jer væk fra Nørrebro!

Eftir að hafa lesið þetta er ég farin að efast um að ég fari nokkuð heim eftir vinnu.

14.2.07

Guten Tag Alma Sigurdardottir!

Ihre Bestellung Nr. 18581 ist versandt! - það er á leiðinni. Er hægt að byrja daginn betur. Bíð núna bara eftir DHL-starfsmönnunum. Dugar ekkert minna undir dýrmætan varning.

10.2.07

Lítið að segja

Þvottadagar eru skemmtilegir, það er engin spurning. Íbúðin lítur út eins og gerði hafi verið loftárás á hana, peysur í glugganum, handklæði á ofnunum og sængurföt á öllum stólum. Það fer ekki fram hjá neinum sem hingað kemur inn og eflaust ekki nágrönnunum heldur að hér var stórþvottur í gangi. Ofnotkun mýkingarefnis gerir það nefnilega að verkum að stofan ilmar eins og Body Shop.

Vikan hefur liðið á ofsahraða. Ágæt var hún líka. Félagslífið hjá mér er orðið örlítið virkara þökk sé Eddu sem greiðir vinum sínum fyrir að hanga með mér. Þeir buðu mér í pylsur og Sauerkraut í vikunni, sem rann ljúft niður. Reyndar held ég að hvaða matur sem er hefði runnið ljúft niður eftir um það bil klukkutíma langar strætóraunir. Ég beið fyrst góða stund, tók svo strætó sem ekki keyrði nema á næstu stoppustöð og svo gleymdi ég að fara út (og vissi ekki hvar) svo að ég þurfti að hoppa út í miðri Amager og hoppa svo inn í einhvern strætó í veikri von um að sá myndi færa mig til baka. Ég var heppin og þýski rétturinn rann ljúflega niður.


Annars þótti mér ákaflega gaman um daginn þegar ég komst að því að ef til vill er Kaumannahöfn bara álíka mikil sveitabær og Reykjavík. Þá sá ég nefnilega tvo sem ég þekki á einni mínútu. Fyrst sá ég Norræna félagsstrák sem heitir René labba fram hjá en var of mikið blávatn að gera tilraun til að bera fram nafnið hans þegar ég var orðin fullviss um að þetta væri hann. Svo gekk ég niður í neðanjarðarlestina og fyrsta manneskjan sem ég sé var Nordjobbari frá 2004, hann Lasse. Skemmtilegt að sjá hann aftur, enda var hann einn af þessum skemmtilegu.

Enn er pláss á veggjunum fyrir póstkort. Hvenær má þess vænta að fá falleg póstkort frá Íslandi? Spurning hvort ég hengi upp ástarsöguna frá Evu við hlið allra kortanna sem Bjarnheiður sendi? Takk fyrir stúlkur!

*Á myndunum má sjá huggulega þvottahúsið sem við Lárus fórum í og konuna sem benti okkur á að hægt væri að nota vinduna ókeypis, og svo fangelsið/dómshúsin sem ég sé út um svefnherbergisgluggann.

4.2.07

Jahá jahá

Þegar ég geng um stræti borgarinnar hugsa ég alltaf upp á einhverju sniðugu að blogga um en svo þegar ég er komin fyrir framan tölvuna virðist allt detta út. Síðustu dagar hafa annars verið ágætir. Ég eignaðist tímabundinn íbúðarfélaga í síðustu viku þegar Lárus vinur Sigríðar flutti inn til mín. Hann er hinn besti gestur, þótt ég reyndar hitti hann mest lítið enda hvorugt okkar mikið verið heima. Helginni eyddi ég að mestu leyti í félagsskap tveggja danskra pörupilta sem buðu mér í sushi á heimili sínu og svo í tveimur partýum kvöldið eftir. Annað partýið var afar undarlegt, matarveisla þar sem nokkrir nánast ókunnugir söfnuðust saman og elduðu mat. Planið var að halda julefrukost en sökum fárra gesta varð úr að eldaðir voru tapasréttir sem þó voru fæstir sérlega spænskir. Maturinn var hörkugóður og fólkið skrítið og skemmtilegt. Í seinni veisluna hélt ég þrátt fyrir þreytu en þar var samankominn hópur áhugapókerspilara sem setið hafði að sumbli allt kvöldið. Það var afar áhugavert að sjá hóp Dana skemmta sér og helst hefði ég bara viljað vera fluga á vegg. Þetta var annars ágætisfólk en ég átti bágt með að bæla hláturinn þegar einn strákurinn strauk kærustunni sinni um vangann og horfði blíðlega á hann um leið og hann söng með einhverju Beyonce Knowles-legu lagi sem kallaðist My Love. Ég hélt ég myndi pissa á mig. Í nótt mun ég deila rúmi með Elise Marianne og á morgun hefst ný vinnuvika. Spennandi?

30.1.07

Copenhague - parte 1

Llegué a Copenhague hace una semana pero parece haber pasado ayer. Mi amiga estuvo aquí conmigo la primera semana y me ayudó con las compras que tuve que hacer para hacer que mi piso pareciese un poco más doméstico. Fuimos a Ikea y al Jysk (un mercado de sábanas, toallas y otras cosas para el dormitorio y el cuarto de bano) y compré todo lo necesario. Mi hermano y su novia también me dejaron cosas y ahora el piso está bastante bien. Por supuesto falta limpiar y no hay internet, pero no me quejo. Un senor que trabaja en la embajada me dejó un televisor así que ahora puedo matar el tiempo viendo la tele y así aprendiendo más danés (espero). El cuarto de bano en mi piso es el más pequeno que he visto en mi vida, más pequeno que el de la casa de mi hermano y su novia, y este sí que es muy pequeno. Por eso hay que acostumbrarse a la falta de espacio, y quizás perder peso. Otro problema es que en los paredes hay agujeros bastante grandes. Es bastante feo en un piso tan bonito y por eso quiero pediros ayuda a mis lectores. Me podéis mandar fotos vuestros, dibujos, postales, mapas o algo para cubrir el pared, por favor?

La primera foto es de la puerte del piso que alquilaron los padres de la novia de mi hermano que terminó su examen de la universidad la semana pasada. Ahora es médica. Montaron una fiesta el sábado que duró desde las doce hasta medianoche y un poco más. Como la fiesta estaba en un piso muy cercano al mío yo fui a casa por la tarde para echarme una siesta y luego volví a la fiesta. En la fiesta había mucha gente de varios países....Islandia y Dinamarca por supuesto, pero también llegaron invitados desde Noruega, Inglaterra, Escocia y también había un faeroés. Después de la fiesta fuimos a un bar que está al lado de mi casa, un sito donde producen cerveza. Las fotos son más divertidas que lo que escribo así que mejor miradlas.