10.8.08

Ferðasaga?

Ég held að það sé ómögulegt að skrifa ferðasögu í einni færslu um mánuð í CISV-sumarbúðum. Vissulega er frá mörgu að segja en hver dagur í svona sumarbúðum er svo keimlíkur en á sama tíma mismunandi að það er erfitt að segja frá. Það sem ég get sagt er að við bjuggum í frekar litlum skóla í þorpi sem heitir Kapp og er rétt utan við Gjövik. Þetta er um það bil tvo tíma fyrir utan Osló. Í skólanum var í raun allt pláss nýtt. Við sváfum allir kvenkyns fararstjórar og jc-ar í einni skólastofu, í fjórum skólastofum voru krakkar og í einni var staffið. Á staðnum var líka matsalur, eldhús, farastjóraherbergi, leikfimissalur og sturta. Sem sé fínasta aðstaða. Nánasta umhverfi skólans var mjög fallegt, Mjösa vatn var þarna nálægt og gátum við séð aðeins í vatnið frá skólanum. Allt var svakalega grænt enda var þetta í hálfgerðri sveit eða eins konar sveitaþorpi að minnsta kosti. Þar sem það var svona stutt í vatnið fórum við tvisvar að vatninu til að synda, gengum niður í mót í hálftíma og örugglega svona 45 mínútur á leiðinni til baka upp í mót. Í fyrra skiptið fannst mér vatnið allt of kalt en í seinna skiptið fór ég ofan í og það var æðislegt. Þá var líka óendanlega heitt og vatnið víst eins heitt og það verður.
Börnin mín voru ósköp þægileg að flestu leyti og höfðu það gott í búðunum, að ég held. Það voru í hið minnsta engin alvarleg vandamál með þau, bara smáheimþrá og annað eðlilegt. Flestir krakkarnir voru líka hin mestu krútt. Sumir orðnir algjörir unglingar meðan aðrir voru algjör börn. Athyglisvert að sjá muninn á þeim. Þótt þetta hafi verið yndsileg börn upp til hópa var ég óendanlega fegin að fá smá frí og ekki síst að fara í annað umhverfi á leaders' weekend. Þá fóru allir fararstjórar og JC-ar í lúxussumarbústað einhvers staðar í Noregi (ég keyrði sjálf þangað en ég gæti ekki giskað hvert við keyrðum jafnvel þótt það væri upp á líf og dauða). Þar dvöldum við frá föstudegi til sunnudags og gerðum nákvæmlega ekki neitt. Það var yndislegt. Samt gott að hitta börnin eftir helgina. Á hinum frídeginum mínum fór ég ásamt sænska og þýska fararstjórunum til Osló þar sem við gistum á farfuglaheimili. Við fórum út að borða við Akersbrygge, kíktum aðeins í búðir og sváfum á grasflötum, sem sé uppskrift að þægilegum degi. Reyndar var ótrúlega heitt og líklega aftraði það mér frá því að eyða fúlgum í verslunum. Vissi annars fólk að í sjoppu við aðalgötuna í Osló kostar lítil kók í dós 23 NOK sem gerði 360 islenskar krónur þegar ég var þar. Er þetta eðlilegt? En já...svona allt í allt var þetta skemmtileg upplifun sem ég hefði ekki viljað missa af. Ég lærði heilan helling af þessu, var úti og hreyfði mig meira en en ég hefði gert hér heima og hafði það svakalega gott. Mæli með CISV!