29.5.07

Spennandi sjálfboðaliðastarf í sumarbúðum

Ég hef oft pirrað fólk með sögunni af því þegar ég hitti nordjobbara frá 2004 í miðbæ Reykjavíkur síðastliðið sumar. Þá hafði ég einhverra hluta vegna séð mann á leið minni til vinnu og hugsaði með mér hvort þetta væri Simon, sem ég hafði ekki séð í tvö ár og raunar mundi ég varla nafnið á honum. Þetta var náttúrulega ekkert Simon, heldur bara annar ljóshærður maður. Fimm mínútum síðar geng ég svo fram á Simon. Svo hitti ég hann reyndar aftur í Leifsstöð nokkrum dögum síðar. Þetta væri ekki í frásögu færandi nema af því að í dag hitti ég Simon fyrir tilviljun, ekki bara einu sinni heldur tvisvar: Á leiðinni í vinnun hljólaði hann aftan að mér og á leið heim úr vinnunni sat hann á bekk og hrópaði á mig þegar ég gekk fram hjá. Ætti ég að hafa áhyggjur af því að maðurinn elti mig?


Annars er hlé á gestagangi í bili. Eva og Freyja voru hér um helgina og næsti hópur kemur ekki fyrr en aðra helgina í júní. Auðvitað var ægilega gaman að fá Evu og Freyju í heimsókn en Evu reyndar fylgir því miður ætíð rigning þegar hún heimsækir Danaveldi. Við skemmtum okkur engu að síður vel, fórum í Tívolí, sáum ægilega lélega mynd í bíó (síðasta skiptið sem Freyja fær að velja bíómynd, smekkur hennar er næstum eins slæmur og minn) og kíktum á Bakken. Nú bíð ég bara eftir því að þær komi aftur í heimsókn. Eftir að Eva yfirgaf landið byrjaði heldur betur að hitna í kolunum, það var steikjandi hiti síðdegis á sunnudag og eins í dag. Til þess að passa upp á að verða ábyggilega ekki sólbrún (brunnin) tók ég að mér smáaukaverkefni og mun ég því sitja inni á skrifstofu til klukkan 20 á hverjum degi. Munið að hvítt er fallegt.


Að lokum vil ég auglýsa örlítið fyrir hana Sigrúnu sem í sumar mun starfa í alþjóðlegum sumarbúðum fyrir börn á vegum CISV. Þangað vantar einn eða tvo starfsmenn og því hvet ég alla áhugasama að hafa samband við hana (símanúmerið er 8662692). Þetta er hrikalega spennandi og ég vildi óska þess að ég gæti tekið þátt í þessu.

20.5.07

Nafna mín

Bjarnheiður sendi mér link með upplýsingum um nöfnu mína. Ég veit nú ekki hvort mig langar að líkjast henni að öllu leyti en vonandi verður einhvern tímann samin um mig jafnflott vísa og þessi.

13.5.07

,,Helvítis Austur-Evrópuþjóðirnar"

Ég er orðin þreytt á að heyra og lesa um ,,helvítis Austur-Evrópuþjóðirnar" sem allar kjósa hver aðra í Eurovision. Norrænar þjóðir eru í fyrsta lagi engu betri og kjósa hver aðra eins og þeim sé borgað fyrir það. Erum við þá að gefa þeim stig vegna frændskapar eða er smekkurinn bara svipaður á norðurhjara veraldar? Gæti ekki verið að Balkanskagalöndin deili svipuðum tónlistarsmekk? Og að íbúar fyrrverandi ríkja Sovétríkjanna séu almennt heitir fyrir löngum leggjum og hvítum tanngarði? Vissulega má greina mikla pólitík í stigagjöf, en er það ekki bara í lagi? Vissulega þýðir það mögulega að ,,vestrænum þjóðum sé vonlaust að komast upp úr forkeppninni" eins og mörgum hefur orðið á orði. Íslendingar geta vitanlega ekki bara tekið þátt og haft gaman af, við þurfum jú alltaf að vera best í öllu. Annars var ég bara nokkuð ánægð með sigur Serbíu. Gaman að lag sem ekki er sungið á ensku vinni, slíkt hefur jú ekki gerst síðan 1998 skilst mér og eins var þetta ægilega dæmigert júrólag. Þetta var ekki uppáhaldslagið mitt reyndar, ég var aðdáandi Þýskalands og Frakklands, en smekkur minn er kannski örlítið skrítinn. Mér þótti minna gaman að slökkt væri á keppninni vegna kosningaúrslita þegar aðeins fimm mínútur voru eftir. Það eyðilagði þetta eiginlega alveg og var fúlt, þótt vissulega hafi kosningaúrslitin líka verið hörkuspennandi. En það munaði bara svo litlu. Gátu talningarmenn ekki verið aðeins seinir? Vinur minn í París, sem er harður aðdáandi kepninnar hringdi í mig í gær (slíkt gerir hann aldrei) bara vegna þess að hann var svo ægilega glaður með sigurvegara keppninnar. Það lá við að hann hrópaði af gleði. Ég held að hann haf ekki verið eini aðdáandinn og eflaust glöddust margir Evrópubúar í gær. Til hamingju Serbía!

9.5.07

Líf í myndum

Það er augljóst að Margit vinkona mín og ég erum sálufélagar. Áðan ætlaði ég að hringja í hana (og slíkt geri ég ekki sérlega oft), hafði tekið upp símann og fundið númerið hennar þegar hún hringir. Við hugsum líkt þrátt fyrir hálfrar aldar aldursmun. Annars ætla ég fátt að segja annað en að á föstudaginn held ég heim á leið. Á Íslandi mun ég dvelja í tæpa viku og vel má vera að ég nenni að hitta skemmtilegt fólk. Ég geri ráð fyrir að vera með gamla númerið mitt, en það fer þó eftir því hvort ég finn sim-kortið mitt. Svona til að herma aðeins eftir Jónasi ætla ég að deila með lesendum mínum nokkrum myndum úr daglegu lífi. Sjáið bara hvað það er gaman í Kaupmannahöfn.
Við Oliver, Jónas og Skibber héldum til Falster einn sunnudaginn og drukkum kaffi á nokkrum heimilum og borðuðum svo kvöldmat á afar huggulegum veitingastað við þjóðveginn.
Aldrei hef ég fengið jafnógeðslegan mat og þar. Ég er ekki viss hvort var ógirnilegra, fitulöðrandi skinkusnitselið sem strákarnir borðuðu eða ógeðslegi fiskurinn sem ég fékk. Jónas fékk svo vinstúlku sína í heimsókn. Gleðin var mikil það kvöldið eins og sjá má.
Hér eyði ég tímanum alla virka daga. Ægilega huggulegt, finnst ykkur ekki?
Þetta er kirkjan í Elmelunde á Møn en þar í þorpi gistum við Jónas. Ægilega var það huggulegt. Møn er þess utan ægilega falleg, fullt af sætum bæjum og fallegri náttúru.Jónas féll algjörlega fyrir þessu tréi. Þau skrifast á núna. Ég aftur á móti var algjörlega ástfangin af ströndinni sem sést þarna fyrir neðan og við gengum því niður alla hlíðina, ég á spariskónum. Alltaf gott að vera vel búin á ferðalögum.

3.5.07

Nafna mín

Hvernig get ég látið það vera að fá mér svona?

Spenna?

Mótmælendur eru enn komnir á kreik. Rétt í þessu var hópur mótmælenda á ferð við minn enda Nørrebrogade. Verður kvöldið spennandi?