9.7.12

Ferðadagbók frá Spáni: Færsla 2

Titillinn á þessu í dag er reyndar rangur. Við höfum ekki eingöngu haldið okkur á Spáni heldur skelltum við okkur yfir til Frakklands í tvo daga og ætlum reyndar þangað aftur á morgun. Clarisse og fjölskylda búa í tveggja tíma akstursfjarlægð frá San Sebastián. Það var auðvitað frábært að hitta þau öll og Maggi var sérstaklega hrifinn af hundinum hennar, honum George. Bærinn var undirlagður af flamenco-hátíð, spænsk tónlist, dans og matur um allt. Mjög skemmtilegt.

Í gær fórum við til Vitoria, sem er borg í um það bil 100 kílómetra fjarlægð frá San Sebastián, í suðvestur átt. Við vissum svo sem lítið sem ekkert um þessa borg en hún kom á óvart. Hún er mjög falleg og ekki síst mjög hreinleg. Við fórum á olíuflipp, borðuðum steiktar kartöflur, steikta rabas (sem er ekki svo ólíkt smokkfiski, veit ekki hvað það er nákvæmlega) og svo handgert snakk sem var til sölu á Festival de naciones. Festival de naciones er þjóðahátíð sem byggðist upp á sölubásum fyrst og fremst. Margt þarna var nú ekki hægt að tengja sérstaklega við eitt land frekar en annað, til dæmis voru þarna seldir pottar og plastlok til að hindra að sjóði upp úr. Inn á milli voru samt flottir munir, til dæmis babúskur (því miður fundum við enga með Pútín-mynd til að gefa Evu Dögg) og flottar afrískar dúkkur.

Annars nutum við líka laugardagsins hér í San Sebastián þótt við hefðum eiginlega ekki gert neitt sérstakt. Við fórum reyndar út að borða á frekar fínan stað. Það sem var fínt við staðinn var aðallega að hann var dúkaður með hvítu og servíetturnar voru úr taui, allt voðalega hvítt. Eftir að hafa séð parið á næsta borði, sem var með skjannahvítan barnavagn, bæði klædd í hvít og ljós föt og með barnið í ljósum kjól, leið mér eins og subbu. Ekki síst eftir að ég byrjaði að subba allt út með bolognesesósu. Tvær servíettur og dúkurinn urðu sósunni að bráð. Minn hluti borðsins var subbulegri en hjá Magga. Maggi fékk svo að fara út og leika sér á leikvelli. Hann reyndi í sífellu að vega salt við aðra krakka en í hvert sinn sem barnið birtist með sólhattinn sinn létu krakkarnir sig hverfa. Frekar fúlt. Afganginum af deginum eyddum við svo í rölt. Við löbbuðum um gamla hverfið og eins nýrri hluta miðborgarinnar, borðuðum ís og keyptum í matinn. Æðislegt og fáránlegt að Maggi hafi nennt að rölta um svona lengi og gera ekkert.

Í dag ætlum við til Bilbao. Feðgarnir voru að labba út til að fá sér morgunmat þegar þeir sjá mús í garðinum. Hvað gerir pabbinn? Jú, hann hleypur hoppandi inn og lokar út á verönd - en skilur barnið eftir. Vonandi lendi ég aldrei í neyð með honum!

3.7.12

Ferðadagbók frá Spáni: Færsla 1

Núna erum við komin á leiðarenda í San Sebastián í Baskalandi. Júhú! Hér er frábært að vera. Húsið sem við dveljum í er risastórt og mjög flott. Í kjallaranum er borðtennisborð og fótboltaspilsborð, það er risastór garður og fullur kassi af síder-víni sem okkur er skipað að drekka. Reikna þó ekki með að við eigum eftir að standa okkur í því síðastnefnda. Ef það er kúkalykt á einu salernanna þá er það lítið mál. Þá veljum við bara eitthvað af hinum enda eru fjögur salerni í húsinu, eitt baðkar, tvær eða þrjár sturtur og fimm baðvaskar.

Flugið með Wow til London gekk mjög vel. Þjónustan um borð var frábær og tímasetningar stóðust. Maggi var ljúfur sem lamb í fluginu. Hann lék sér bara sjálfur nánast allan tímann, lét pabba sinn splæsa í veitingar og spjallaði við flugfreyjuna. Það er eins og barnið hafi aldrei gert annað en að ferðast. Við gistum á hóteli við flugvöllinn á Stansted, alveg í göngufæri sem var mjög þægilegt. Herbergið var mjög flott með útsýni yfir veitingastað hótelsing og morgunverðarhlaðborðið. Magga fannst þetta samt ægilega skrítið. Hann skildi ekki hugtakið hótel og spurði í sífellu hvar eldhúsið væri eiginlega. Eins spurði hann okkur hvort hótelfólkið væri heima í Bogahlíð.

Í morgun flugum við svo með Easyjet til Bilbao. Flugið gekk líka vel. Magnús var örþreyttur og steinsofnaði og hélt þannig móður sinni félagsskap í farartækjalúrnum. Við tókum svo rútu frá flugvellinum yfir til San Sebastián. Það er líklegt að Jónas fari ekki með okkur Magnúsi í rútu alveg á næstunni. Mér leið hundilla, var líklega bílveik og með höfuðverk í þokkabót. Því reyndi ég að sofa mestalla leiðina. Magnús var aftur á móti nokkuð hress framan af en gubbaði þegar um það bil mínúta var í leiðarenda. Hann lét það ekkert á sig fá, skellti sér úr buxunum á rútustöðinni og tók svo leigubíl með okkur heim til foreldra gestgjafanna. Þau sýndu okkur svo húsnæðið.

Við vorum svo eiginlega einhvers konar blanda af Mr. Bean og Klaufabárðunum þar á eftir. Fyrst fórum við í labbitúr að leita að verslun sem átti að vera í nágrenninu. Við fundum hana ekki og var bent á það af eldri manni að engar búðir væru í göngufæri. Því ákváðum við að keyra af stað. Við fundum til bílstólinn og reyndum að skella honum í. Ekki tókst betur til en að við festum beltið við stólinn sem lá einhvern veginn hálfur utan við bílinn (sem ekki var hægt að loka) og okkur tókst alls ekki að losa stólinn. Þá voru góð ráð dýr en á endanum skrúfuðum við beltisherðigræjuna af og tókst að koma þessu í lag á löngum tíma. Við keyrðum svo beint út í flasið á bróður gestgjafanna sem benti okkur pent á að við værum að keyra í einstefnu. Mjög töff!

Á morgun förum við líklega niður í bæ að skoða okkur svolítið um. Rigningarspáin virðist ekki ætla að rætast nema að hluta svo að við getum notið fullkomins veðurs, rétt rúmlega tuttugu gráður og sól og ský í bland.

1.5.12

Foreldrahlutverkið

Þeir sem eiga barn vita að íbúðarkaup, meðganga og fæðing eru ekki nærri eins ógnvekjandi og foreldrahlutverkið. Um leið og litlu geimverunni er vippað upp á bringuna á þér er komið að nýjum hluta í lífinu. Þú berð ábyrgð á lítilli veru og stekkur beint í djúpu laugina. Innsæi móður og föður á að fylgja með í kaupunum.

Það eru engar ýkjur að lífið gjörbreytist með fæðingu barns. Fyrstu vikurnar hjá nýbökuðum foreldrum einkennast oftast af svefnleysi og brjóstagjöf. Brjóstagjöf er eitthvað sem flestir halda að sé konum í blóð borið og gangi smurt eins og vél hjá öllum. Svo er ekki. Aumar geirvörtur, jafnvel með blæðandi sárum og stíflur í mjólkurgöngum verða daglegt brauð. Þakklátasta ráðið sem ég fékk á meðgöngunni var frá kunningjakonu minni sem benti mér á að í hennar tilfelli hafi hún fundið til fyrstu fjóra mánuði brjóstagjafar en þá hafi hlutirnir farið að ganga betur. Þetta snerist því bara um að þrauka þessa fjóra mánuði.

Ungbarnaforeldrar gera sér að góðu að sofa allt niður í tvo tíma í einu og í raun er furðulegt að ekki hafi verið gerðar rannsóknir á aukinni slysatíðni meðal svefnlausra foreldra. Fólk svífur um í móki svefnleysis og ræðir fátt annað en brjóstagjöf, kúkableiur og krúttleg bros. Ég man eftir að hafa heimsótt heilsugæslustöð með son minn nokkurra vikna gamlan. Þrátt fyrir þó nokkuð margar tilraunir tókst mér ekki að koma kennitölunni hans rétt út úr mér.

Það er ábyggilega fátt leiðinlegra fyrir barnlausa en vinir sem fjölga sér. Umræðuefnin hætta að snúast um skemmtanahald næstu helgar og flotta kjólinn sem keyptur var í síðustu verslunarferð til útlanda. Barnið á athyglina alla og fæðingarorlofsgreiðslur duga tæpast fyrir nýjum kjólum eða verslunarferðum til útlanda. Takmörkuð orka foreldranna fer í að dást að minnstu framfaramerkjum hjá krílinu, sama hvort um er að ræða að tánögl þess hafi vaxið eða barnið geiflað sig öðruvísi en venjulega. Foreldrar taka varla eftir því sem ber á góma í samfélaginu. Það er kannski ekki skrítið að samskipti við vini breytist og samverustundir með vinahópnum verði færri eftir að börn koma til sögunnar.

Meira að segja vinir og ættingjar hætta að spyrja hvernig þið foreldrarnir hafið það. Það er líðan barnsins sem er í fyrirrúmi og minnstu breytingar í lífi barnsins á borð við fyrstu tönnina, harðlífi eða þyngdaraukningu eru langtum vinsælla umræðuefni en það hvernig foreldrinu gengur í vinnunni, hvort það hafi lesið nýjustu bókina eftir Arnald eða farið í leikhús nýlega.

Vissulega er margt jákvætt við foreldrahlutverkið. Færni foreldra í að gera marga hluti í einu eykst gífurlega eftir því sem barnið eldist. Foreldrar koma upp tækni til að ná að sofa örlítið lengur í stofusófanum á laugardagsmorgnum meðan barnið horfir á teiknimyndir. Þeir læra að vaska upp um leið og sungið er fyrir barn í burðarpoka á maganum. Ekki síst læra mæður að gefa brjóst á sama tíma og þær skrifa tölvupóst, hæfileiki sem vonlaust er fyrir barnlausa að apa eftir.

Þeir sem eiga börn þekkja það eflaust að verslunarferðir breytast allsvakalega eftir að barnið fæðist. Í stað þess að kaupa flíkur á þig til að hylja skvapið eftir meðgönguna er langtum auðveldara að velja föt á barnið í staðinn. Dagar þess þegar hálfri mánaðarhýrunni var eytt á útsölum eru liðnir. Börn stækka ógnarhratt og þurfa föt sem passa. Barnaföt eru mjög dýr og enginn pengingur eftir til að kaupa bjór á barnum eða nýjan gsm-síma.

Flest ykkar kannast eflaust við það að hafa ferðast í strætisvagni, rútu eða flugvél þar sem lítið barn ærir aðra farþega. Þeir sem kannast við börn sem æra aðra eru væntanlega barnlausir. Þegar börn koma til sögunnar hætta foreldrar oft að láta frekjuköst annarra barna, barnsvæl og annars konar hávaða í ungviði fara í taugarnar á sér. Í staðinn hefjast vangaveltur um það hvort barnið sé ekki bara svangt eða þreytt og hversu erfitt sé fyrir litlu dúlluna að vera á svona löngu ferðalagi. Þess er svo gætt að brosa af skilningi til foreldrisins. Sjónarhornið gjörbreytist.

Í þekktu lagi heyrast eftirfarandi línur:
„Þetta fullorðna fólk er svo skrítið, það er alltaf að skamma mann. Þó maður geri ekki neitt, það er alltaf að skamma mann“.
Mér þótti þetta lag alltaf mjög skemmtilegt en tengi öðruvísi við það en áður. Ég er ekki lengur á sveif með barninu sem syngur um skilningsleysi þessara ömurlegu foreldra. Núna skil ég hið skammandi fullorðna fólk miklu betur.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.
Ólétta og fæðing

Ráðlagt er fyrir barnlausa að kynna sér málin vel áður en lagt er til atlögu við hjónaleikfimina. Ólétta og fæðing eru sjaldnast eins og í væmnum amerískum kvikmyndum og ýmislegt sem ekki uppgötvast fyrr en á hólminn er komið.

Margt í tengslum við óléttu tala fáir um nema við sína allra nánustu. Vissulega heyrist oft af þreytu á meðgöngu og tíðum þvaglátum auk þess sem hríðarverkir í fæðingu bera stundum á góma. Annars virðist mest talað um hversu dásamlegt var að fá barnið í fangið. Það er líkt og allt annað gleymist.

Óneitanlega er það góð tilfinning að bera barn undir belti og fæðingin eða að minnsta kosti afrakstur fæðingar er vitanlega frábær. Það er aftur mjög margt sem gleymist að nefna í tengslum við það sem sumir vilja kalla kraftaverk lífsins.

Ég hafði séð myndir af móður minni þar sem hún leit glansandi vel út kasólétt af systur minni. Ég áttaði mig ekki á því að allar hinar myndirnar af henni rötuðu eflaust ekki í albúmið. Það blómstra ekki allar konur á meðgöngu og líta út eins og í dömubindaauglýsingu. Raunar er erfitt að líta óaðfinnanlega út þegar þú hefur kastað upp tvisvar sama daginn og þjáðst af óstöðvandi ógleði og þreytu síðustu vikurnar. Líkaminn virðist hætta því ósjálfrátt að halda inni keppunum um leið og búið er að pissa á óléttupróf. Enginn varaði mig heldur við því að slit á húð geta myndast löngu áður en bumban birtist. Það er ástæða fyrir því að ég harðbannaði allar myndartökur af mér meðan á meðgöngu stóð.

Ólétt kona þjáist af ýmsum öðrum kvillum. Hún pissar í tíma og ótíma, jafnvel svo oft að tæpt getur verið að stunda skemmtanir á borð við leikhús og bíó. Gyllinæð og sveppasýkingar eru algengir kvillar meðal þungaðra og margar ófrískar konur finna fyrir óþægindum í mjaðmagrind. Grindarverkir og eins sú staðreynd að þyngdarpunkturinn breytist á meðgöngu veldur svo því að óléttar konur kjaga í stað þess að ganga á síðustu metrum meðgöngu. Fáir kalla kjag heillandi göngulag.

Tímabilið þegar kunningjar sem ekki vita af óléttunni velta vöngum yfir því hvort þú hafir fitnað ótæpilega eða sért ófrísk er ekkert sérstaklega skemmtilegt heldur. Þegar allur vafi á því hvort um óléttubumbu er að ræða eða ekki er svo forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum fólksins í kringum þig. Ókunnugum finnst ekkert sjálfsagðara en að ræða málin við þig, segja sögur af fæðingum og jafnvel giska á kyn barnsins. Við þetta bætist svo að þótt kviðurinn á þér hafi verið í einkaeigu fram að meðgöngu, þá verður hann almenningseign á seinni metrum meðgöngunnar. Fólki finnst ekkert að því að þukla á bumbunni og ræða um stærð hennar, alveg óháð því hvort þú þekkir viðkomandi eða ekki. Eina stundina færðu kvíðakast þar sem fólk talar um að bumban sé óeðlilega lítil en þá næstu sannfærir fólk þig um að barnið hljóti að fara koma. Bumban sé orðin svo stór og farin að síga, jafnvel þótt tveir mánuðir séu eftir af meðgöngu.

Ég átti sjálf fremur átakalausa meðgöngu miðað við margar konur í kringum mig og fæðingin gekk einnig áfallalaust fyrir sig. Fæðingar eru ekki eins og í bandarískum bíómyndum. Það er sjaldgæfara en ekki að konur missi vatnið í miðjum stórmarkaði, og þú þýtur ekki með sjúkrabíl upp á fæðingardeild um leið og þú byrjar að fá hríðarverki. Ég hafði alltaf ímyndað mér að konur dveldu á fæðingardeild og tækjust þar á við hríðirnar með hjúkrunarkonu sér við hlið sem stryki á þeim ennið. Raunveruleikinn var sá að ég hafði það nokkuð huggulegt uppi í rúmi heima hjá mér, horfði á grínþætti og pantaði mér flatböku milli þess sem ég linaði verkina með baðferðum.

Eftir að hafa hálfgrenjað liggjandi í aftursæti bílsins okkar á leið upp á fæðingardeild var mikill léttir að komast loks á áfangastað og fá að vita að það sem ég hræddist allra mest myndi ekki gerast. Ég vildi alls ekki vera ein af þeim sem yrði send heim með ímyndaða hríðarverki. Barnið var á hraðleið í heiminn og stuttu síðar var ég komin með kríli í fangið og vissi ekkert hvað ég ætti að halda. Mér leið eins og ég væri með geimveru organdi á brjóstinu. Komin í hlutverk sem ég vissi ekkert hvernig ég ætti að takast á við.

Ólétta og fæðing er enginn dans á rósum. Þú gubbar ekki regnbogum og það er margt skrítið sem gerist með líkamann meðan á meðgöngu stendur. Það er engin spurning um að allt er þetta þess virði og vel það. Það breytir því ekki að það þarf ekki að halda uppi þeirri ímynd að allar konur blómstri á meðgöngu, þótt ekki væri nema til að undirbúa konur í barneignapælingum undir það sem koma skal.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

_________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.
Fyrstu íbúðarkaupin

Sú stund er stór í lífi flestra þegar kaupa á fyrsta húsnæðið. Húsnæðiskaup þýða oftast að góðum hluta launa kaupendanna er þegar ráðstafað næstu tuttugu til fjörtíu árin og því er stórt skref að stíga að taka ákvörðun um þetta.

Við fjölskyldan keyptum okkur íbúð tveimur árum eftir hrun. Líklega byggjum við enn í leiguhúsnæði ef ekki hefði komið upp að leigusalinn okkar ákvað fremur skyndilega að hætta að leigja út íbúðina sína og við sáum fram á að verða húsnæðislaus þremur mánuðum síðar. Við tók leit að draumahúsnæðinu á fasteignasíðum. Val á framtíðarhíbýli getur verið erfitt enda um stóra ákvörðun að ræða.

Við byrjuðum á að ákveða hvaða hverfi borgarinnar kæmu til greina og hversu stórt húsnæði við þyrftum. Eins reiknuðum við út hversu dýra eign við gætum keypt. Inn í þetta fléttuðust vangaveltur um gæði grunnskóla á svæðinu. Það skipti engu máli að sonur okkar væri aðeins eins og hálfs árs á þessum tíma. Við spáðum einnig í helstu umferðaræðar, endursölumöguleika eignarinnar og líkur á stórvægilegum framkvæmdum á húsnæðinu næstu árin. Okkur þótti þetta afskaplega fullorðinslegt.

Ég hafði ekki áttað mig á því að draumaeignin finnst ekki endilega í fyrstu tilraun. Við skoðuðum fjöldann allan af fasteignaauglýsingum og eyddum heilmiklum tíma í leitina. Við skoðuðum líka þvílíkan fjölda af íbúðum, skoðanir sem voru stundum dálítið sérstakar. Því var þetta ekki eingöngu stór ákvörðun heldur líka dálítið ævintýri.

Í eitt skipti fórum við á svokallað opið hús þar sem nokkuð margir voru mættir til að skoða sérhæð í frábæru hverfi. Í íbúðinni voru nokkur herbergi en unglingar og börn sváfu inni í helmingi þeirra og annarri stofunni. Herbergjunum var því lokað og okkur bannað að skoða þau. Innréttingar og ástand íbúðar var eins rakkað niður af leigjandanum sem sýndi íbúðina og sá hinn sami neitaði að sýna þvottahús og kjallara. Viðkomandi benti okkur á að húsnæðið væri ekki íbúðarhæft en fannst augljóslega lítið mál að búa þarna með skarann allan af börnum.

Í annað skipti skoðuðum við íbúð þar sem eigandinn sagði okkur þegar við komum að hún vildi eiginlega ekki selja, henni hefði verið ýtt út í það. Hún var samt hæstánægð að fá okkur í heimsókn og meira en til í að spjalla um allt milli himins og jarðar. Hún ræddi við okkur hestamennsku, heimabæ tengdaforeldra minna sem voru með í för og frábæru steypuna sem notuð var í húsið hennar milli þess sem hún kitlaði son okkar. Þeirri heimsókn lauk með því að við vorum beðin um að hafa lágt meðan hún sýndi okkur síðasta hluta íbúðarinnar, herbergi inn af eldhúsi þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar svaf eins og ungabarn.

Það er alltaf dálítil synd að banka upp á til að skoða íbúð á óheppilegum tímapunkti. Við reyndum það að sjálfsögðu. Þriðju íbúðina var nefnilega varla unnt að skoða þar sem eigandinn var nýkominn af klósettinu. Augljóslega var ýmsu ábótavant hvað loftræstingu varðaði því að megna kúkalykt lagði um alla íbúðina og gerði það að verkum að við vorum fljót að forða okkur og misstum allan áhuga á að skoða okkur frekar um.

Það sem er allra mesta áhyggjuefnið við íbúðarkaup er ekki einungis að velja réttu eignina heldur einnig fjármögnun kaupanna. Að sjálfsögðu þarf að safna fyrir útborgun en einnig að velja hvernig lán eigi að taka og til hversu langs tíma. Kaupandinn þarf helst að geta spáð fyrir um verðbólgu næstu þrjátíu til fjörtíu árin og eins að geta áætlað hverjar tekjur hans verða út starfsævina. Eftir bankahrunið þarf auk þess að huga að þáttum eins og möguleikanum á að slíkt endurtaki sig, gengi íslensku krónunnar og mögulegri upptöku annarra gjaldmiðla. Allt eru þetta atriði sem hinn almenni borgari veit lítið sem ekkert um.

Eftir langa leit og margar skoðunarferðir tókst á endanum að finna íbúð sem bæði mér og sambýlismanni mínum leist vel á. Íbúðin er staðsett í fremur stóru fjölbýlishúsi í Reykjavík. Í fjölmennu húsi sem þessu fylgir að rekið sé húsfélag og húsfélag þýðir að haldnir séu húsfundir.

Húsfundir eru sjálfsagður hluti þess að búa í fjölbýlishúsi. Fundir sem þessir eru með áhugaverðari samkomum. Á því leikur enginn vafi. Þar kemur saman fólk sem á ekki annað sameiginlegt en að eiga íbúð á sama blettinum. Á fundunum eru rædd mikilvæg atriði á borð við það hvort breyta eigi kerfi á sorptunnum, hvort bletta eigi glugga eða heilmála og eins hvað gera eigi við erfiða útlendinginn sem verkar lax í þvottahúsinu. Í stuttu máli eru húsfundir líklega með leiðinlegri leiðum til að eyða mánudagskvöldi. Það er aftur slæm hugmynd fyrir húseiganda að skrópa á húsfund.

Kaup á húsnæði eru því ekki aðeins mikil skuldbinding og enn frekari sönnun á því að fullorðinsárin séu hafin. Þau snúast ekki eingöngu um að finna draumaeignina og sannfæra eiganda hennar um að hann eigi að selja þér hana. Eigandi húsnæðis getur ekki lengur hringt í leigusalann og kvartað yfir biluðum vaski heldur þarf sjálfur að redda hlutunum. Kaup á húsnæði þýða líka að minnst einu sinni á ári þarftu að eyða tíma þínum í hræðilega leiðinlega hluti á borð við húsfundi. Ef til vill ætti að vara við þessu í fasteignaauglýsingum.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

_____________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.
31 árs í sambúð

Bækurnar Fimmtán ára á föstu og Sextán ára í sambúð eftir Eðvarð Ingólfsson komu út árin 1984 og 1985 , ekki svo löngu eftir að ég fæddist. Þær voru afar vinsælar og mikið lesnar af jafnöldrum mínum jafnvel þótt þær væru ekki nýútgefnar þegar ég var unglingur á tíunda áratug síðustu aldar. Ég man að ég hugsaði með mér líklega tólf ára gömul að það væri helst til ungt að hefja sambúð sextán ára. Ráðlagt væri að bíða örlítið lengur með slíkt. Nú er það svo að tilhugsunin ein um að vera sextán ára í sambúð er fjarstæðukennd. Það er kannski merki um breytta tíma og hugsun hversu fjarstæðukennt mér finnst núna að skrifuð hafi verið bók um sextán ára krakka í sambúð.

Ég er þrjátíu og eins árs gömul og hef búið með sambýlismanni mínum í nokkur ár. Ég þakka fyrir að ég hóf ekki sambúð að grunnskólaprófi loknu enda var ég lítið annað en krakkaormur við sextán ára aldurinn og naut þess að þurfa ekki að bera ábyrgð á öðru en sjálfri mér. Ég hefði tæplega notið þess að borga reikninga og rífast um það hver ætti að vaska upp eftir matinn. Þó er reyndar alltaf spurning hvort 31 árs manneskja hafi bætt svo miklu við sig í þroska að hún sé tilbúin í það fullorðinslíf sem sambúð og börn hafa í för með sér.

Til eru alls kyns frásagnir af lífi einhleypra kvenna sem leita ástarinnar. Þar má nefna bækur, þætti og kvikmyndir á borð við Beðmál í borginni, dagbækur Bridgetar Jones og bækur Tobbu Marínós. Það er ekki eins algengt að fjallað sé um líf para í sambúð með barn. Líklega er það ekki nógu spennandi umfjöllunarefni. Enda held ég að sambúðarlíf geri fólk örlítið leiðinlegra.

Þegar ég var barn fannst mér foreldrar mínir ofboðslega ósanngjarnir og fljótir að skammast þegar við systkinin fundum upp á einhverju skemmtilegu að gera. Þannig naut það takmarkaðra vinsælda þegar við spiluðum handbolta í stofunni eða límdum flotta límmiða á herbergishurðina okkar. Ég man líka hvað mér þótti móðir mín leiðinleg þegar hún vildi ekki gefa mér nammi, gos eða kex jafn oft og mig langaði. Á unglingsárunum fannst mér foreldrar mínir vissulega oft strangir. Frá sjónarhorni unglingsins lifðu foreldrarnir afar döpru lífi. Þeir fóru iðulega snemma að sofa og fóru nánast aldrei í bíó. Þótt mamma og pabbi færu annað slagið út og hittu vini fannst mér félagslíf þeirra minna en ekkert. Það var eins og lífi þeirra væri lokið þótt þau væru ekki einu sinni orðin fimmtug.

Nú er ég orðin móðir og er satt best að segja þrisvar sinnum verri rúmlega þrítug en mamma og pabbi voru 45 ára. Ef þriggja ára sonur minn tæki upp á því að líma límmiða á herbergishurðina hjá sér myndu hrópin í mér örugglega heyrast yfir í næstu hverfi. Sykri er haldið frá barninu eins og mögulegt er og bíó er eitthvað sem ég man varla hvað er enda telst gott núorðið ef tími gefst til bíóferða oftar en einu sinni á ári.

Föstudags- og laugardagskvöld breyta algjörlega um merkingu á fullorðinsárum. Pörum í sambúð finnst oftar en ekki huggulegra að kúra heima í sófa yfir hugljúfri kvikmynd heldur en að skella sér út á lífið. Margir foreldrar ungra barna eru þess utan svo þreyttir eftir annasama vinnuviku að þeir sofna næstum yfir kvöldmatnum og flýja svo alsælir í sófann til að horfa á Útsvar um leið og ormarnir eru komnir í ró. „Dapurleg föstudagskvöld“ myndu unglingar segja en „huggulegt“ að mati þreyttra fullorðinna.

Auðvitað er margt skemmtilegt við að vera í sambúð með manneskjunni sem er þér kærust en margt það sem fylgir er ekki eins skemmtilegt og gerir það að verkum að orka til öflugs félagslífs minnkar. Foreldrar þínir sjá ekki lengur um húsverkin. Þau eru í þínum verkahring og þeirra sem með þér búa. Reikningana þarf að greiða og til þess að geta greitt þá þarf að vinna til þess að afla fjár.

Það er kannski ekki skrítið að saga þeirra ungu kvenna sem ég minntist á hér að ofan fjalli um leitina að ástinni, sögur kvenna á borð við Bridget Jones og söguhetjanna í Makalaus eftir Tobbu Marínós. Það er ekki eins mikið sagt frá því þegar ástin er þegar fundin og það er eins spurning hvort Carrie og Bridget geri sér grein fyrir hvað þeirra bíður. Við fáum takmarkað að njóta lýsinga á því. Það yrði kannski of leiðinlegt að fylgjast með Carrie og Herra stórum kúra fyrir framan sjónvarpið og vakna snemma til að fara með smábarnið í sund. Það er heldur varla tilviljun að hvorki Carrie né Bridget eru sextán ára. Ætli það sé ekki langtum betra að vera fertugur í sambúð? Ég skil í hið minnsta ekkert hvað Eðvarð Ingólfsson var að spá.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

______________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.

25.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 5. færsla

Dagurinn í gær var fyrsti dagurinn sem var alveg rigningarlaus og raunar var ekki einu sinni skýjað. Það var samt enginn svakalegur hiti en mjög gott þegar sólin skein. Þetta passaði vel við plön dagsins, þ.e. að fara í dýragarð í um það bil eins og hálfs tíma fjarlægð, dýragarð sem heitir ZooParc de Beauval. Maggi hafði suðað nokkrum sinnum á dag að hann langaði í dýragarð: Ég mig langar í dýragaaaarð og tími var kominná að uppfylla þá ósk.

Beauval-dýragarðurinn er svakalega flottur, risastór og þar af leiðandi frekar mikið pláss fyrir dýrin. Það magnaðasta var líklega girðingin þar sem gíraffa, nashyrninga, sebrahesta og antilópur var að finna. Allt svo tignarleg og flott dýr, nashyrningurinn líka. Maggi var hrifinn af flestu en mörgæsirnar, aparnir og kannski gíraffarnir nutu aðdáaunar hans umfram önnur dýr. Hann reyndar gerðist sekur um brot á reglum dýragarðsins, reglufylgjandi móður hans til mikillar gremju. Við fórum tvö inn í litla girðingu þar sem hægt var að labba eftir göngustíg og klappa og koma nálægt geitum, smáhestum og öðrum húsdýrum. Meðfram göngustígnum var eins konar girðing sem Maggi skreið undir og hljóp góðan hring á grasflötinni. Þá voru góð ráð dýr, ekki komst Jónas að sækja hann (annars hefði ég pottþétt sent hann) svo að ég neyddist til að skríða undir girðinguna og sækja orminn. Það má taka fram að hann skammaðist sín mikið eftir að útskýrt var fyrir honum hversu óleyfilegt þetta væri.

Á leiðinni heim ákváðum við að keyra ekki hraðbrautina heldur keyra eingöngu gegnum bæi og þorp. Það var svakalega gaman. Það eru margir flottir bæir á þessari leið, t.d. Contres og St. Aignan. Hefði kannski verið gaman að stoppa þar eða í einhverjum kastalanum en orkuleysi háði okkur eftir marga klukkutíma í dýragarðinum. Eftir kvöldmat heima í landi skelltum við okkur út í hjóla- og labbitúr. Fyrst fór Maggi á lítið hlaupahjól en það var frekar erfitt að hjóla á því á hellulögðum götum Orléans. Því fannst honum ekkert tilvaldara en að við pabbi hans ýttum honum, ekkert sérstaklega þægilegt þar sem um mjög lágt hlaupahjól var að ræða.

Nú er ferðinni heitið út í von um að ná að labba aðeins um og borða Crêpes áður en fer að rigna af krafti. Ætli einhvers staðar sé hægt að fá rúðuþurrkur á sólgleraugu?

23.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 4. færsla

Það lítur út fyrir að við séum öll annaðhvort að fá kvef eða komin með ofnæmi, í hið minnsta við Jónas en mögulega Maggi líka. Við lítum alltaf út fyrir að vera afskaplega óhamingjusöm, með tárin í augunum nema þá að fólk álíti okkur hassreykingafólk. Það er auðvitað möguleiki líka. Bara gaman!

Í dag fórum við í hjólatúr meðfram ánni Loire. Við hljóluðum enga svakalega vegalengd enda var stýrið á hjólinu sem ég notaði bilað og dálítið hættulegt að vera með körfu framan á og barnastól aftan á þegar stýrið byrjaði snögglega að beygja í aðra átt en framhjólið. Þetta kom þó ekki að sök, bara olli því að við ákváðum að fara ekki mjög langt. Við vorum skemmtilegir foreldrar aldrei þessu vant og eyddum góðri stund á tveimur leikvöllum, Magga til mikillar gleði. Hér eru sjóræningjaskip á öllum leikvöllum, sem passar vel þar sem drengurinn segist vera besti stýrimaður í heimi, eins og Pingó í Rasmusi Klumpi. Það var kannski ágætt að stýrið var bilað, þar sem við styttum dvölina þarna við ánna í annan endann og komum þannig í veg fyrir að verða holdvot þegar byrjaði að rigna, við urðum bara þó nokkuð mikið vot. Rigningin fór reyndar ekkert í taugarnar á besta stýrimanni í heimi, sá sofnaði í hjólasætinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að halda honum vakandi.

Eftir svefnpásu héldum við svo á rölt um bæinn, keyptum skóbúnað á Jónas og versluðum í matinn hjá afskaplega hressum afgreiðslumanni í Carrefour sem lagði sig fram við að bera allt fram á ensku, vildi greinilega æfa sig...törtí fæv sagði hann og horfði á mig spyrjandi til að vita hvort þetta væri rétt hjá honum. Við elduðum svo kúskús og kjöt og hengum í sófanum og reyndum að brjóta eins og einn myndaramma. Nóg að gera í la France!

22.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 3. færsla

Magnús hefur lært nýjan sið hér í Frakklandi af stráknum sem við sáum á kínverska staðnum, það er alveg augljóst. Í dag fórum við í nýja hringekju og þegar ég segi drengnum að þakka fyrir sig (segja merci) grípur kappinn í höndina á hringekjustjóranum og ropar út úr sér einu stykki af merci. Sagan endurtók sig svo þar sem við fórum að borða, nema hvað að starfsmaðurinn þar vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við þessu undarlega barni.

Annars tókst okkur að heimsækja garð Louis Pasteur - sem er svakalega flottur - og skoða dómkirkjuna hér í dag. Dómkirkjan er falleg bygging og þar inni voru alls konar gripir til sýnis, mögulegt að kveikja á kertum og eins voru myntir með ásleginni mynd af kirkjunni til sölu. Ég man hvað mér þótti svona myntir flottar þegar ég fór til Frakklands fyrir um það bil tíu árum. Sigga keypti fleiri en eina svona mynt og gott ef ég splæsti ekki líka í svona. Alveg frábært að eiga í minjagripasafni - eða ekki. Magnús var heldur hávær í kirkjunni enda var hann að leita að Séra Jóni. Ég er ekki alveg pottþétt á því hvern um var að ræða en eftir miklar vangaveltur höfum við komist að því að hann sé að leita að prestinum í Grænadal, þ.e.a.s. Reverend Timms úr Póstinum Páli. Líklega er hann kallaður Séra Jón í íslenskri þýðingu. Því miður var leit Magnúsar árangurslaus, enginn prestur lét sjá sig í kirkjunni - kannski sem betur fer, en það er alveg ljóst að hann gaf ekkert eftir við leitina.

Síðdegis fór að rigna svo að við hálffestumst uppi í íbúð, dottuðum, lásum og Magnús reyndi að finna sér dót að eyðileggja. Svo lásum við að sjálfsögðu um voðaverkin í Noregi, mjög sorglegt allt saman. Við skruppum reyndar út nálægt kveldi til að kaupa vatn, og þar reyndi á málleysið. Afgreiðslukonan reyndi að segja eitthvað við okkur (annað en takk, gjörðu svo vel og bless) en ég skildi ekki bofs. Fúlt, fúlt. Verkefni kvöldsins eru svo púsl sem eru svo hrikalega erfið að ég gafst upp. Það vantar alveg afþreyingu fyrir fávita hér í hús. Allt hérna er hugsað fyrir hugsuði, sem sé ekki fyrir okkur. Góða nótt!

21.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 2. færsla

Letilífið heldur áfram hér í Orléans og spurning hvort ekki þurfi að venja okkur af þessari leti. Sólarhringnum hefur verið snúið við hjá Magnúsi sem í kjölfarið sefur aðeins lengur á morgnana, svo lengi í morgun að Jónas var kominn á fætur á undan honum. Eftir að hafa borðað morgunmat og eytt óeðlilega löngum tíma í að koma okkur í sturtu og föt héldum við í labbitúr. Við gerðum tilraun til þess að finna stað sem selur ódýrara crépes-pönnukökur en þrjósku minnar vegna fundum við ekki staðinn fyrr en í síðari labbitúr dagsins. Pönnukökurnar bíða því betri tíma, sem líkast til verður á morgun.

Ferðinni var svo heitið í hringekju sem stendur á risastóru torgi. Þetta er rosalega flott gamaldags hringekja, meðal annars með hestum sem lyftast upp og niður. Það þarf vart að tilkynna að Magnús er stórhrifinn. Við nýttum því strax annan af miðunum sem franska fjölskyldan skildi eftir handa honum. Maggi rétti starfsmanninum miðann orðalaust enda skildi hann ekki orð af því sem maðurinn reyndi að tala við hann og hóf svo að skríkja af ánægju. Hann skríkti hálfa leiðina í hringekjunni og grét svo þegar átti að halda burt. Við náðum aðeins að deyfa sorgina með því að skoða skó í skóbúð og smám saman hætti hann að hugsa um þetta, þó staðráðinn að prófa hringekjuna sem fyrst aftur. Við gerðum það raunar síðar um daginn, og ekki var gleðin minni þá. Við sjáum fram á að þurfa að splæsa í hringekjuferð í hvert skipti sem við göngum þarna fram hjá, sem sé um það bil tvisvar á dag.

Annars gengum við eiginlega bara um í allan dag, gengum um bæinn og skoðuðum mannlif, hús og búðarglugga, gengum meðfram Loire-ánni og settumst þar á stétt og fengum okkur hressingu. Við gerðum einnig slæm kaup, keyptum minniskort í myndavélina á kostakjörum en uppgötvuðum svo að það var of stórt og líklega fullkomið fyrir myndavélina okkar svo að við héldum aftur í sömu búð síðdegis til að kaupa kort sem virkar. Ef einhvern vantar SDHC minniskort, þá er um að gera að blikka mig. Eins keypti Jónas ódrekkandi rauðvín, og við mat sem að hluta til var frekar slappur. Við fórum nefnilega á kínverskan veitingastað í hádeginu og borðuðum þar að hluta mjög ljúffengan mat en að hluta hálfvondan. Þjónustan var samt afskaplega skemmtileg, þjónarnir reyndu að eiga samskipti við Magga, prófuðu að tala við hann hollensku en það virkaði lítið. Því kenndi ég honum að segja takk og benti honum svo á að herma eftir frönskum gæja á næsta borði. Sá var líklega fimm sinnum eldri en Maggi og kunni því alla kurteisissiði upp á tíu. Hann setti servíettu í hálsmálið - nokkuð sem mér tókst að fá Magnús til að apa eftir, og tók svo í höndina á þjóninum og þakkaði fyrir sig. Maggi gerði slíkt hið sama, enda orðinn sprenglærður í franskri tungu, greip í höndina á þjóninum sem var alveg óviðbúinn og splæsti einu Merci á kauða. Heimsmaður á ferð!

Við vorum líka bómullarforeldrar í dag. Fórum nefnilega á leikvöll síðdegis til að skemmta litla rassi. Leikvöllurinn var inni í hálfgerðum hundagarði en leikvöllurinn sjálfur var girtur og lokað með hliðum beggja vegna. Eftir ágæta stund við leik, kom allt í einu maður inn á leikvöllinn og stóð þar. Við Jónas fengum bæði voðalega slæma tilfinningu fyrir þessu eftir að maðurinn hafði staðið góða stund og ekki virst eiga neitt erindi þarna. Það endaði því með því að við flúðum leikvöllinn frá manni sem ábyggilega ætlaði að hitta vin sinn eða lítil frændsystkini. Gott að vera með ofsóknaræði.

Annars hélt rigningin sig víðs fjarri frá því í morgun og þar til í kvöld og sólin náði meira að segja að gægjast gegnum skýin. Uppáhaldsorðið hans Magga þessa dagana er að sóla sig og hann segist sóla sig eins og amma í Sólheimum. Hann missti þó því miður af sólarglætunni en náði kannski nokkrum geislum í kerruna þar sem hann svaf. Það er þó hæpið að nokkuð verði af sólbaði á morgun, það virðist ætla að rigna allan daginn. Líklega hefðum við frekar átt að pakka sjóstökkunum okkar en sólarkreminu...

20.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 1. færsla

Það er svo gaman að eiga dagbók úr ferðalögum, svo að ég ætla að gera tilraun til að skrifa örlítið um dagana í Frakklandi. Ég hef hingað til skrifað um nokkrar ferðir á þessa bloggsíðu en nú hefur aukaferðalangur bæst í hópinn svo að líklega verður mikið skrifað um hann og hans upplifun.

Við flugum með Iceland Express að morgni 19. júlí. Eftir hryllingssögur af flugfélaginu í fjölmiðlum að undanförnu, bjuggumst við ekki við einu né neinu og gerðum nánast ráð fyrir seinkun. Seinkun varð vissulega á fluginu, líklega klukkutími eða einn og hálfur. Það gerði þó nákvæmlega ekkert til enda lá okkur ekki sérlega á að komast á áfangastað. Það kom á óvart að nóg pláss var fyrir fætur, mögulega vorum við heppin að sitja framarlega og eins var afskaplega ljúft að fá Ipad að láni endurgjaldslaust fyrir Magga og okkur. Vonum að heimferðin verði jafngóð.

Einkasonurinn hegðaði sér óaðfinnanlega alla ferðina. Þægilegri ferðafélaga er eiginlega ekki hægt að hugsa sér. Hann vaknaði þegar við héldum á honum út í leigubíl og sofnaði ekkert aftur fyrr en við vorum að lenda í París. Honum þótti afskaplega spennandi að fara í rútu en var ekki alveg nógu sáttur við að bílstjórinn var ekki með bílbelti. Hann hikaði ekki við að gera athugasemdir við það, enda eiga jú ALLIR að vera með belti, en bílstjórinn annaðhvort heyrði ekki í honum eða þóttist ekki heyra. Mikill reglumaður á ferð. Sem betur fer svaf Maggi af sér þar sem við ferðuðumst í troðfullri neðanjarðarlestinni með tugi kílóa af farangri auk kerru og eins var ég afskaplega þakklát konunni sem eiginlega píndi mig beint í sitt sæti þegar hún stóð upp, jafnvel þótt ég þyrfti að klofa yfir annað sæti til að troða mér fram hjá öðrum farþegum í lestinni. En ég vildi jú hlýða. Við komum rúmlega sjö til Orléans og við tók labbitúr til að finna íbúðina með allt draslið í eftirdragi. Það var mjög jákvætt að stytt var upp en á móti okkur hafði tekið hellidemba á flugvellinum.

Íbúðin sem við búum í hér er frekar ólík því sem við eigum að venjast. Hún er á efstu hæð í eldgömlu húsi í þröngri götu sem er víst ekki bara göngugata en lítur samt út fyrir það. Lofthæðin er svakaleg og meira að segja að hluta á tveimur hæðum. Heima hjá okkur er alveg ágætlega mikið af dóti og drasli (oft meira en góðu hófi gegnir) en hér er mínimalismi bannorð. Það er fullt af myndum og teikningum á veggjum, leikföng í nokkrum stöðum og alls konar smádót. Svo eru bækur úti um allt, í tvöfaldri röð í flestum bókahillum, á klósettinu og í bunkum á gólfinu. Þetta hljómar dálítið ýkt en þetta er eins konar skipulögð óreiða og alls ekki slæmt, bara mjög kósí og góð tilbreyting.

Maggi kann afskaplega vel við sig hér og var ekki lengi að sækja lítið hljómborð, draga það inn í stofu og setja við hljóðfæraleik. Þetta er eiginlega eins konar skemmtari svo að Maggi situr og spilar og dillar sér í takt. Engin þörf á annarri tónlist hér. Eins talar þetta einstaklega skemmtilega leikfang þegar Maggi er ekki að spila, spyr hvert hann hafi farið á frönsku. Verst að hann skilur það ekki.

Við náðum að taka okkur góðan göngutúr í dag og versla inn áður en við fórum inn aftur í hádegismat og eftirmiðdagslúr. Þegar við vöknuðum aftur ætluðum við að reyna að ná að vera aðeins úti áður en aftur myndi byrja að rigna. Það mistókst allhrapallega. Við löbbuðum vissulega heillengi um áður en demban hófst en svo festumst við eiginlega undir trjám í tómum garði og biðum eftir að rigningunni slotaði. Það gerðist ekkert. Maggi naut sín samt í botn, hljóp um allt á pollabuxum og reyndi að ákveða hvaða vagn hann myndi velja í hringekjunni þegar búið væri að opna hana. Við ákváðum á endanum að labba af stað heim en það hætti eiginlega ekki að rigna fyrr en stuttu áður en við komum heim í land eins og Maggi kallar íbúðina. Á morgun verður stuðs við norsku veðurspána og reynt að vera úti við fram að hádegi þegar byrja á að rigna að nýju.

Góða nótt!

15.2.09

Smásaga eftir systu

Þegar ég hjálpaði Siggu að flytja um daginn rakst ég á bók með smásögum sem tóku þátt í einhverri smásagnakeppni fyrir fimmtán árum eða svo. Við Sigga tókum báðar þátt og því eru sögurnar okkar til á prenti. Mín saga er alveg drepleiðinleg en Siggu öllu skemmtilegri. Leyfi því lesendum að njóta hennar. Minn uppáhaldshluti er líklega þegar þau fara að dansa og svo er lokasetningin mjög góð:

Smásaga

Einu sinni var mjög fátækur, ógiftur maður. Hann átti enga að nema frænku sem átti heima í Noregi. Dag einn var hann að labba framhjá snyrtistofu einni. Þá sá hann unga og fallega stúlku sem missti vasaklútinn sinn. Maðurinn tók eftir þessu samstundis og sagði: “Humm, fröken, þér misstuð vasaklút yðar. Gjörðu svo vel. Á ég ekki að hjálpa þér yfir götuna? Það er svo mikil umferð.” Þá sagði frökenin: “Jú þakka þér fyrir.” Og svo fylgdi hann henni yfir og á endanum hafði frökenin boðið honum að borða hjá sér. Þau fóru heim til hennar. Hún bjó í fallegu húsi á Hjallavegi. Maðurinn virti fyrir sér umhverfið. Og loks byrjuðu þau að borða. Maðurinn tók svo sannarlega vel til matar síns og varð vel saddur. Og þá sagði frökenin hressilega: “Æi komum að dansa.” Þau dönsuðu fram á nótt Og þegar maðurinn ætlaði að fara að þakka fyrir sig og fara heim, var komið alveg hryllilegt veður. Þá sagði frökenin: “Það er of vont veður til að þú getir farið heim svo að ég býð þér að gista hér í nótt.” Þá sagði maðurinn: “Nei, nei það er alltof mikil fyrirhöfn.” Og morguninn eftir fór maðurinn. Frökenin reyndi að halda honum en hann varð að fara í vinnuna. Maðurinn og frökenin, sem hétu Ívar og Anna, hittust dag eftir dag.
Dag einn fór Ívar í sund og þar hitti hann Önnu. Ívar var hissa þegar hann sá Önnu af því að hún var búin að klippa sig. Og þegar hann var kominn heim þá fór hann til Önnu. Þegar Anna kom til dyra kraup hann strax á hnén og sagði: “Ó elsku anna, viltu giftast mér?” Þá sagði Anna: “En óvænt ánægja, en svarið er JÁ.” Og þau giftust og eignuðust börn. En þá kom sorgin og Anna eignaðist sitt síðasta barn, en barnið dó. Og þau höfðu alltaf sorg innra með sér. Og svo kom að því að yngsta barnið fór að heiman. Öll hin börnin höfðu verið farin. Þá bjuggu Ívar og Anna ein.
Á gullbrúðkaupi hjónanna var þeim gefin ferð til Portúgal. Þau skemmtu sér svo sannarlega vel og þetta var alveg nýtt fyrir hjónin. En á leiðinni heim þá fórust Ívar og Anna í flugslysi. Og þar með lauk ævi góðra hjóna.

1.1.09

Litli ormur er fæddur

Litli Ormur Ölmu- og JónAsson (viðbót: Jónas, þú varst ekkert að hafa fyrir því að kommenta?) er kominn í heiminn. Hann fæddist klukkan tvö aðfaranótt fjórða sunnudags í aðventu, mætti á svæðið á sama tíma og Gluggagægir. Drengurinn var þrettán merkur og 51,5 sentimetrar. Algjör písl miðað við flest börn í fjölskyldunni. Hann er afar hárfagur og mikill rólyndismaður, að minnsta kosti enn sem komið er. Mögulegt er að panta skoðanir á gripnum í símanúmerum foreldranna.

6.10.08

Berlín

Ég er í Berlín að njóta þess hvað gengið er hagstætt. Ég gleymdi að taka með mér sokkapör en vegna frétta af brjálæðinu heima er ég að spá í að spara mér að kaupa mér eitt eða tvö pör og þvo frekar það sem ég notaði á leiðinni hingað í vaskinum á hótelinu með handsápu. Annars er ég á rosalega fínu hóteli (sem greitt var áður en versta aldan reið yfir), það er m.a.s. í boði að baka sér vöfflu í morgunmat!!! Er hægt að biðja um það betra? Flugferðin gekk annars vel, Ramses virtist ekkert taka þessum þvælingi illa og mótmælti ekki einu sinni þegar hálfvitinn sem sat fyrir framan mig í flugvélinni hallaði sætinu sínu aftur þannig að ég hafði um það bil ekkert pláss. Annars var ég á fundi í dag og fer aftur á fund á morgun en þá yfirgefa samstarfsfélagar mínir frá hinum Norðurlöndunum mig. Ég þarf svo að bíða hér í Berlín fram á fimmtudagsmorgun en mun vonandi geta unnið frá hótelinu, sofið út og skoðað mig aðeins um. Og já, ég ætla að kaupa hvítt Twix! Jei.

10.8.08

Ferðasaga?

Ég held að það sé ómögulegt að skrifa ferðasögu í einni færslu um mánuð í CISV-sumarbúðum. Vissulega er frá mörgu að segja en hver dagur í svona sumarbúðum er svo keimlíkur en á sama tíma mismunandi að það er erfitt að segja frá. Það sem ég get sagt er að við bjuggum í frekar litlum skóla í þorpi sem heitir Kapp og er rétt utan við Gjövik. Þetta er um það bil tvo tíma fyrir utan Osló. Í skólanum var í raun allt pláss nýtt. Við sváfum allir kvenkyns fararstjórar og jc-ar í einni skólastofu, í fjórum skólastofum voru krakkar og í einni var staffið. Á staðnum var líka matsalur, eldhús, farastjóraherbergi, leikfimissalur og sturta. Sem sé fínasta aðstaða. Nánasta umhverfi skólans var mjög fallegt, Mjösa vatn var þarna nálægt og gátum við séð aðeins í vatnið frá skólanum. Allt var svakalega grænt enda var þetta í hálfgerðri sveit eða eins konar sveitaþorpi að minnsta kosti. Þar sem það var svona stutt í vatnið fórum við tvisvar að vatninu til að synda, gengum niður í mót í hálftíma og örugglega svona 45 mínútur á leiðinni til baka upp í mót. Í fyrra skiptið fannst mér vatnið allt of kalt en í seinna skiptið fór ég ofan í og það var æðislegt. Þá var líka óendanlega heitt og vatnið víst eins heitt og það verður.
Börnin mín voru ósköp þægileg að flestu leyti og höfðu það gott í búðunum, að ég held. Það voru í hið minnsta engin alvarleg vandamál með þau, bara smáheimþrá og annað eðlilegt. Flestir krakkarnir voru líka hin mestu krútt. Sumir orðnir algjörir unglingar meðan aðrir voru algjör börn. Athyglisvert að sjá muninn á þeim. Þótt þetta hafi verið yndsileg börn upp til hópa var ég óendanlega fegin að fá smá frí og ekki síst að fara í annað umhverfi á leaders' weekend. Þá fóru allir fararstjórar og JC-ar í lúxussumarbústað einhvers staðar í Noregi (ég keyrði sjálf þangað en ég gæti ekki giskað hvert við keyrðum jafnvel þótt það væri upp á líf og dauða). Þar dvöldum við frá föstudegi til sunnudags og gerðum nákvæmlega ekki neitt. Það var yndislegt. Samt gott að hitta börnin eftir helgina. Á hinum frídeginum mínum fór ég ásamt sænska og þýska fararstjórunum til Osló þar sem við gistum á farfuglaheimili. Við fórum út að borða við Akersbrygge, kíktum aðeins í búðir og sváfum á grasflötum, sem sé uppskrift að þægilegum degi. Reyndar var ótrúlega heitt og líklega aftraði það mér frá því að eyða fúlgum í verslunum. Vissi annars fólk að í sjoppu við aðalgötuna í Osló kostar lítil kók í dós 23 NOK sem gerði 360 islenskar krónur þegar ég var þar. Er þetta eðlilegt? En já...svona allt í allt var þetta skemmtileg upplifun sem ég hefði ekki viljað missa af. Ég lærði heilan helling af þessu, var úti og hreyfði mig meira en en ég hefði gert hér heima og hafði það svakalega gott. Mæli með CISV!

16.7.08

Oppland 3

Allt gott að frétta frá Noregi annað en að ég hef engin bréf fengið. Er vægast sagt svekkt þar sem allir hinir krakkarnir eru búnir að fá. Í dag fórum við í ferð á eldgamlan sveitabæ uppi í fjöllunum. Það var ískalt úti svo að krakkarnir hálfskulfu margir hverjir. Börnin skoðuðu beljur og fóru í leiki og svo fengum við að smakka ekta norskan mat, graut með smjöri og kanel og einhvers konar skinku. Grauturinn var öðruvísi, skinkan mjög góð. Þjóðakvöldin tókst ágætlega. Flestir smökkuðu harðfisk og flatkökur með hangikjöti og margir bitu í lýsisperlu. Að minnsta kosti tveir köstuðu upp. Núna á að kveikja eld svo að ég ætla að skella mér út. Bíð eftir póstkortum og bréfum.

12.7.08

Póstkort og bréf

Langar þig að senda mér bréf? Utanáskriftin er þessi. "Name" "Country" CISV "Unique village" C/o Bjørnsgård skole N- 2849 Kapp NORWAY

9.7.08

Oppland 2

Það er svo gaman að hafa skrifað eitthvað um sumarbúðadvölina svo að ég nota þetta bara eins og dagbók, jafnvel þótt ekki verði þetta áhugavert að lesa. Börnin mættu á svæðið og friðurinn er vissulega úti en samt eru lætin í þeim alls ekkert svo mikil, ekki enn. Flestir krakkanna eru ósköp þægir og algjörar rúsínur. Aðrir eru tjah...fjörugri. Við höfum enn ekkert farið út úr búðunum með krakkana, vonandi förum við bráðum niður að vatni að baða okkur. Það er svakalega heitt úti, ég búin að brenna en krakkarnir sem betur fer ekki. Sem sé allt með kyrrum kjörum. Fylgjast má með búðunum á cisvuniquevillage.blogspot.com. Lítið fram hjá því hvað myndirnar af mér eru óóóóógeðslegar!

6.7.08

Oppland 1

Þá er ég mætt í búðirnar eftir frekar tímafrekt ferðalag hingað. Raunar var tveggja tíma seinkun á fluginu okkar en við vissum af því fyrirfram og gátum því sofið auka tvo tíma. Vitanlega þurfti ég samt að vakna kl. 4 til að athuga hvort tíminn stæðist þannig að ég var frekar þreytt þegar við komum á áfangastað eftir flug, tveggja tíma hangs á flugvellinum, tveggja tíma rútuferð til Gjövik (bílstjórinn virtist sikksakka svo að ég var hálfbílveik hluta leiðarinnar) og svo bílferð til Kapp þar sem skólinn sem búðirnar verða haldnar er. Þetta er fínasti staður, fallegt hér í kring og allt í góðu gengi. Við gistum allir kvenkynsfararstjórar og JC-ar (unglingastarfsmenn) í einni skólastofu á dýnum svo að það er hálfgerð náttfatapartýsstemmning. Starfsfólkið í búðunum er svakalega indælt og við búin að læra heilmikið af þeim meðan börnin dvelja hjá gistifjölskyldum. Seinna í dag koma samt krakkarnir og þá býst ég við að friðurinn sé úti. Eða ég eiginlega veit það. Þarf að fara að undirbúa komu barnanna, þrífa og fleira. Læt í mér heyra fljótlega þar sem hér er þráðlaust internet! Jei!

3.7.08

CISV

Á föstudagsmorgun held ég í fjögurra vikna ferð til Noregs þar sem ég mun vera fararstjóri í sumarbúðum CISV fyrir 11 ára börn. Ég held að ég hafi aldrei farið í ferð sem krefst jafnmikils undirbúnings en að sama skapi hef ég aldrei átt eftir að gera jafnmikið einum degi fyrir brottför. Það liggur við að ég fái hjartsláttartruflanir af að hugsa um það. Börnin og foreldrar þeirra hafa safnað ógrynni skiptidóts og alls kyns hluta og matar sem við munum nota til að skiptast á og eins til að gefa öllum í búðunum. Þannig er ég nánast búin að fylla eina ferðatösku af súkkulaðistykkjum, grjóti, seglum með íslenska fánanum og íslenska fánanum í öllum stærðum og gerðum. Enn á þá hellingur eftir að fara ofan í töskuna...harðfiskur, lýsisperlur, hangikjöt, flatkökur og ferðagögn. Ég verð svo þreytt af að hugsa um þetta að ég bara verð að fara að sofa.

30.6.08

Til að fela tvíburana

Ef þetta er ekki næg ástæða til að byrja að horfa á fótbolta, þá held ég að ekkert sé það.

3.6.08

Tvíburar í óskilum

Þetta fallega systkinapar fannst í kassa með gömlu drasli heima hjá mér. Ég kannast við að hafa séð þessa tvíbura áður en ég minnist þess ekki að ég eigi þá sjálf. Því leita ég að foreldri/foreldrum drengjanna tveggja. Piltarnir eru ljósir yfirlitum og fremur svipljótir. Þeir eru klæddir í annars vegar blárósóttar buxur og fjólubláar köflóttar. Við þetta ganga drengirnir í hvítum blússum. Drengirnir eru hreinir og virðast við bestu heilsu en af svipnum að dæma eru þeir farnir að sakna mömmu og pabba og vilja komast heim!

7.5.08

Drulla og skítur

Ég var í djúpum skít fyrir fyrsta prófið mitt. Fyrir prófið á morgun ligg ég á botni djúps leðjuhafs. Hjálp!

28.4.08

Afmælisöldungur dagsins

Til lukku með daginn, Edda mín. Ég geri ráð fyrir að gráu hárin séu orðin dálítið fleiri en á þessari mynd, enda liðinN nokkur tími. Megir þú eiga góðan afmælisdag þrátt fyrir þau gráu!

24.4.08

Umkringd ógæfumönnum

Í gær kom einn af þekktari rónum bæjarins inn í vinnu og spjallaði við samstarfsmenn mína. Ég fékk því miður ekkert að tala við kauða. Seinna um daginn lenti ég aftur í lukkupottinum þegar ég gekk upp Laugaveginn ásamt tveimur samstarfsmönnum og við gengum fram hjá öðrum og jafnvel enn frægari róna, sem bað samstarfsmenn mína um að passa upp á mig. Vona að hann sé ekki skyggn og sjái sérstaka þörf fyrir því að mín sé gætt.

Ég er að þykjast læra fyrir próf sem er eftir tæpa viku en fæ mig ekki til þess. Ekki er það dökkur himinninn sem lokkar mig út í góða veðrið. Ekki eru það tíð tilboð um eitthvað spennandi. Nei, það er www.leikjanet.is. Gleðilegt sumar!

29.3.08

Ruglingsleg frásögn af Englandsferð

Ferðin til Englands var afskaplega vel lukkuð, afslöppuð og góð og við Eva (Jónas kannski smávegis líka) gerðum góð kaup þrátt fyrir að breska pundið hækkaði upp úr öllu veldi (eða íslenska krónan lækkaði - kannski rökréttara að segja það) rétt áður en við lögðum af stað og náði vonandi hámarki. Við Eva fórum út á undan Jónasi og fengum afhenta lykla hjá manni sem sagðist sko alveg vita hvað tvær ungar (hann hefur ekki séð 27 árin á okkur) væru að fara gera í Brighton. Það lá eiginlega við að samviskusama saklausa stúlkan í mér móðgaðist við þessi ummæli en ég náði að hemja mig og hreytti því ekki í hann að við værum þægar og góðar og myndum pottþétt ekki drekka okkur sérlega fullar. Enda vorum við nokkuð þæg. Við skoðuðum borgina, sem er mjög skemmtileg, fórum í dagsferð til London þar sem við versluðum í spottprísversluninni Primark. Ég tvo stóra pappírspoka, Eva einn stóran sem þurfti að hafa tvöfaldan til að halda þyngdinni. Um kvöldið hittum við Jónas og fórum út að borða á Garfunkels, mat sem er líklega sá versti sem ég hef smakkað lengi. Einn daginn hittum við svo Joy, vinkonu Jónasar, og fórum til bæjar sem heitir Arundel. Þar fórum við í draugaupplifun í gömlu fangelsi, sem var mjög fyndið.
Eitt af kvöldunum borðuðum við á spænskum tapasstað sem var svo dásamlega góður að í kvöld ætlum við að reyna að endurupplifa stemmninguna með því að elda og borða spænska smárétti. Nammi nammi. Annað kvöld borðuðum við á asísku hlaðborði og komum út full af mat en líklega enn fylltari af matarlykt, blöndu af sojasósu og djúpsteikingarfeiti. Síðusta daginn minn héldum við til höfuðborgarinnar þar sem Eva og Jónas gistu á hóteli eina nótt en ég hélt heim um kvöldið. Af þvi hóteli er að að segja að það hafði verið pantað vegna þess hversu frábærar neðanjarðarlestarsamgöngur voru þar í kring. Illu heilli var stöðin þar rétt hjá lokuð að hluta og sá hluti hennar sem var opinn var ekki í notkun vegna bilunar á línunni sem þar gengur um. Því má segja að Jónas og Eva hafi gist á hóteli sem var ekkert sérstaklega vel staðsett hvað samgöngur varðar og ógeðslegt að nánast öllu leyti. Á gólfinu í Evu herbergi voru táneglur, síminn og fleiri hlutir sem Eva hefði getað nýtt sér. Baðherbergið hjá henni var enn minna en hjá Jónasi þar sem baðherbergið var þó MJÖG lítið. Jónas var svo heppinn að vera með illa lyktandi myglaðan ísskáp í sínu herbergi. Ég ætla ekki að ræða það hversu skítugt þetta var allt saman. Þarna sváfu þau samt í svakakulda í eina nótt en ég var fegin að fara heim.

17.3.08

Takk fyrir mig!

Ég þakka kærlega fyrir skilaboð, símtöl og símtöl með skemmtilegum kveðjum á afmælisdaginn. Sérstakar þakkir fá þeir sem sáu sér fært að mæta í Pólýnesíupartý á Sólvallagötunni. Takk, takk! Til að jafna mig á þeim háa aldri sem ég hef náð og neyslu á tíu ára gamla vodkanum sem var í bollunni á laugardaginn (ég vissi það ekki áður en ég blandaði hana, hélt hann bara svona fimm ára) held ég nú til Suður-Englands í afslöppunarferð. Gleðilega páska gott fólk!

26.2.08

Finlandia

Já, ferðasagan heldur áfram. Í dag var fundað stíft og mér hálfleiddist enda hafði ég ekkert að segja á þessum fundi. Rætt um samstarfsmöguleika milli míns verkefnis og annarra verkefna sem vitanlega hafa ekkert með Ísland að gera. Eitt var samt fyndið. Í flugvélinni frá Kastrup til Helsini, þar sem ég hitti Martin Halló-félaga frá Danmörku, sat við hliðina á mér maður. Ég glápti svolítið mikið á hann af þeirri ástæðu einni að hann líktist mjög öðrum af Olsen-bræðrunum (þeim hvíthærða), svo mikið að ég skoðaði hann vel til að vera alveg viss um að við hliðina á mér sæti ekki frægur maður. Svo sofnaði ég og hann svaf raunar líka þegar ég vaknaði. Í morgun þegar ég labbaði inn á fundinn í utanríkisráðuneytinu hér í Finnlandi, var þá ekki hjásvæfan mín úr flugvélinni fyrsti maður sem ég sá? Þetta er sem sé ekki Olsen bróðirinn. En líkir eru þeir!