27.11.03

Annars gleymdi ég að birta þakkarlistann minn. Svo er nefnilega mál með vexti að vinnu við annað verkefnið mitt er lokið. Ég kláraði að prenta út Orðabókarverkefni Eddu-Miðlunar, margumtalað btw, í morgun. Þar af leiðandi vil ég þakka eftirtöldum aðilum fyrir aðstoð af ýmsu tagi: Anna fyrir óþreytandi málfræðihjálp og dönskuþýðingar, Sigurður fyrir lán á tölvu og góða aðstöðu, Þjóðarbókhlöðunni fyrir aðgang að skemmtilegum orðabókum, Eddu fyrir lán á orðabók, Freyju fyrir sérfræðikunnáttu, Sergio (held ég að hann heiti) fyrir axlaböndin/brjóstahaldaraböndin, Rosu fyrir tengiliðavinnu og ábendingar og Natalíu hjá RENFE fyrir sérfræðiaðstoð. TAKK, TAKK! Að auki vil ég þakka Eddu, Jónasi, Sigríði og Elíasi fyrir að þola málæði mitt í gær. Ég var algjörlega óstöðvandi!
Jæja, nú held ég að tími Almna sé kominn. Ekki hefur eigendum nafnsins aðeins fjölgað talsvert á síðustu árum, heldur hefur afrekunum fjölgað í samræmi, eða jafnvel út úr hófi. Nú má vera að einhver hugsi: ,,En ég man ekki eftir neinum frægum Ölmum, enginn stjórnmálamaður, enginn leikari...iss ekki einu sinni neinn í Nemendaráði í grunnskólanum mínum". Ég þagga niður í slíku þegar ég bendi á forsíðu nýjasta tölublaðs gæðaritsins Séð og heyrt. Þar framan á er Idol-stjarnan (sem hefði átt að komast áfram) Alma Rut með ástmanni sínum. Kallið þið það ekki að vera fræg? Ég held að þetta sé bara fyrsta skrefið í rétta átt. Við erum komnar til að vera. Þess eflaust ekki langt að bíða ég komi mér í stjórnmálin.

26.11.03

Ég held kannski að ég sé ekki ein af þeim sem lukkan leikur við....hvað haldið þið?

24.11.03

OJOJOJ hvað það er kalt! Ég held að rasskinnarnar á mér séu frosnar saman. Ég hefði haldið að skíturinn djúpi sem hylur stóran hluta af mér myndi verma mig eitthvað upp. Ástæða þessa djúpa skíts er sú að ég á eftir að ljúka heilum helling af verkefnum fyrir fimmtudag! Í kvöld þarf ég að reyna að klára blessaða málfræðiverkefnið mitt, sem reyndar er mögulegt að takist þótt illa verði og svo þarf ég að draga fram úr erminni einu stykki orðabókarverkefni og tíu blaðsíðna bókmenntaritgerð. Hafa ekki allir trú á mér? Helgin var annars allsvakaleg, einum of svakaleg ef ég á að segja eins og er. Ég ákvað að elda með Palla og Jónasi á laugardaginn og við auðvitað enduðum á því að fara út í bæ. Þar hittum við Sigrúnu Þöll, Eddu og Elías sem voru góður félagsskapur allt þar til heim var haldið KLUKKAN SJÖ!!!!!!! Hvað er að mér? Ég þarf á hjálp að halda. Ætli til sé Anonymous Djammoholics?

19.11.03

Jesús minn hvað ég er löt...ég nenni ekki að lyfta litla fingri. Verkefnin mín ganga ekki alveg nógu vel, ég er reyndar mjög langt komin með málfræðina, það sem ég gat, en stutt komin með orðabókaverkefnið og ekki byrjuð á bókmenntaritgerðinni. HVAÐ GERÐIST MEÐ MIG???? Ég sem var einu sinni dugleg samviskusöm menntaskólastúlka hef breyst í þreyttan ungling sem nennir engu nema að hanga á kaffihúsum og sötra kók. Eigið þið ráð?

15.11.03

"Æææææ" var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég hreyfði mig í rúminu í morgun. Bakið á mér er helaumt eftir ríðingar gærdagsins. Við Leiri frá Laxnesi áttum nefnilega góða stund í morgunsárið og hann skilaði mér hálfdofinni í klofi, brjóstum og baki. Annars var gærdagurinn einstaklega atburðaríkur. Vitanlega átti ég skemmtilega stund í skólanum svo ekki sé minnst á vinnuna en einhverra hluta vegna þá þótti mér partýið í Norræna félaginu bera af. Þangað komu billjón Finnar og Danir og svo nokkrir Íslendingar og ég held að flestir hafi skemmt sér bærilega. Eftir partýið fórum við svo í Þjóðleikhúskjallarann á heimspekideildardjamm sem var ágætlega heppnað. Þar var dansað út í nóttina og sumir djúsuðu. Einstaklega skrítið kvöld engu að síður.........fúff........

11.11.03

Úff, ég held að glæstir dagar afreka í Trivial Pursuit séu löngu, löngu liðnir. Að undanförnu geri ég ekki annað en að tapa. Nú síðast fyrir mömmu og Siggu systur. Og ég tapaði ekki bara heldur var ég höfð að háð og spotti, þá aðallega af mömmu (þó svo að Sigga væri eiginlega að vinna). Mamma hló að mér og hneykslaðist á fávisku dóttur sinnar og hálfhló og spurði: “Ertu EKKI komin með köku? Kemur reyndar ekki á óvart, þú veist ekki neitt.” Gaman hvað fjölskyldan veitir mér mikinn og góðan stuðning. Annars er kannski ekki furða að illa gangi í heilanotkunarspilum. Heilinn er jú ekki í mjög stífri notkun. Ég læri ekkert. Mínar ær og kýr eru bara að fara út að dansa! Úff, úff!

10.11.03

Sem stendur er ég að fara í gegnum einhvers konar leiðindatímabil í geðdagatali mínu og finnst því fremur leiðinleg dagskráin hjá mér. Í dag var hún reyndar geysifull af áhugaverðum hlutum; fremur leiðinlegum málnotkunartíma klukkan átta (það á að banna að láta fólk mæta svona snemma í skólann til að tala!!! ég mun ekki hætta að impra á því), sýningu á La Colmena klukkan tíu, sem btw er mynd gerð eftir bók sem ég las fyrir bókmenntakúrsinn úti í Madrid...man einhver eftir kvörtunum mínum?.....Ég fór svo í ítölskutíma þrátt fyrir áform mín um að skrópa...kennarinn nefnilega gekk fram hjá mér og brosti og sagði "Ciao Alma" þegar ég var að læðast út úr aðalbyggingunni að ég hafði ekki geð í mér að mæta ekki. Konan sem átti að kenna mér í tímanum klukkan eitt var ekki mætt korteri síðar svo að við Palli ákváðum að fara á Alþjóðaskrifstofuna og spyrjast fyrir um Erasmusskipti. Þar var konan bara á Palla máli, sagði Bologna eflaust besta kostinn fyrir okkur.....grrr...mér reyndar líst ekkert illa á það, verður samt að koma í ljós. Svo var það bara beint í vinnuna....hingað til allt fremur leiðinlegt en það gerðist eitt fyndið. Við vinur minn, sem er níu ára, sáum Davíð Oddsson, ég benti pilti á fræga manninn sem var fyrir framan okkur eins og eðlilegt er. Byrjar þá piltur ekki að kalla á Davíð......"Hæ!" "Ertu ekki Davíð Oddsson?" Davíð heilsaði á móti og játti því. "Þú ert oft í sjónvarpinu, er það ekki?" "Jú stundum" svaraði Davíð á móti og áttu þeir þarna smá samtal á köllum meðan ég reyndi að benda barninu á að hætta að tala við Davíð enda einstaklega óþægilegt fyrir skuggakonu eins og mig. Davíð á samt hrós skilið fyrir að svara piltinum, heilsa og veifa honum að endingu, þrátt fyrir að hafa augljóslega verið að flýta sér. Þetta var svolítið skemmtilegt tilvik í dag. Líka gaman að stelpu sem var að tala mjööög hátt í gemsann sinn í strætó, að reyna að ráðleggja vinkonu sinni sem eflaust var í ástarsorg. Ég lærði sko mikið og vona að ég lendi bráðum í ástarsorg til að geta nýtt ráð þessa tánings.

9.11.03

Jæja, enn ein helgin langt komin þótt ekki hafi hún verið neitt sérstaklega viðburðarrík. Á föstudagskvöld átum við reyndar saman heima hjá mér nokkrir vinir og horfðum á upptöku af Idol, sem vissulega var nokkuð gaman, auk þess sem hluti hópsins; Edda, Jónas, Elías og svo bættist Palli við, fór út að dansa. Fremur hressandi, en ekki eins gaman í morgun þegar ég þurfti að fara í vinnuna. Ég var svo ægilega þreytt og utan við mig að einn kúnninn sagði mig vera í öðrum heimi, sjöunda himni og spurði hvort ég væri ástfangin. Tókst samt að halda kassanum á núlli sem mér finnst árangur út af fyrir sig eftir jafnlítinn svefn og ég fékk. Annars er ég núna að leka út af sökum þreytu og er í þokkabót banhungruð. Væri einhver dyggur lesandi bloggs míns (líklega margir sem lesa það klukkan hálffjögur á laugardagsnóttum) til í að koma með eitthvað að borða handa mér? Takk, sjáumst! Hah, ákvað að bæta aðeins við þetta. Fór að rifja upp fund minn við gamlan bekkjarbróður og mundi þá eftir óhemjufyndnu atviki sem átti sér stað rétt fyrir heimför á föstudaginn. Elías, Jónas og ég stóðum sem sé eftir á Lækjartorgi eftir að hafa spjallað við Frey og Diddu (vona að ég fari rétt með nöfn) og vorum að leggja af stað til baka, þegar Jónas fór einhverra hluta vegna að syngja Nínulagið. Það var svo sem ekkert sniðugt við það, hið fyndna var SAUÐdrukkna lágmark þrjátíu ára gamla konan sem tók að syngja með Jónasi með miklum tilþrifum og gott ef ekki faðmaði hann að skilnaði. Sú söng sko illa! Veit ekki hvað Bubbi hefði sagt við hana! Kannski getað fantaserað eitthvað í Sister Act style....aldrei að vita.

6.11.03

Eitt mjög merkilegt gerðist fyrir mig í morgun, kannski lýsir því hversu snautt af tilbreytingum líf mitt er um þessar mundir. Ég fékk nefnilega sms frá Tyrklandi!!!!! Jahá, þetta var ekkert sérlega merkilegt sms, bara eitthvert júróvisjónbull, en mér finnst bara svo ótrúlega flott að fá sms frá svona fjarlægu landi! Geysiáhugaverðir atburðir virðast fylgja mér í dag, nokkru síðar er ég að ganga upp Bankastrætið og geng fram hjá hinum frábæra Megasi. Ekki jafnflottur samt og næsti maður sem gekk fram hjá, Páll Óskar. Ég var að hugsa um að þakka honum kærlega fyrir júróvisjónlögin þrjú sem hann spilaði um helgina en var of feimin og hef það heldur ekki í mér að ónæða frægt fólk í frítíma þess. Ónáða bara vini mína. Jæja, ég held ég hætti þessari leti og fari að læra fyrir viðskiptaspænskupróf áður en ég fer að horfa á Tre uomini e una gamba (vona að þetta sé rétt skrifað...). Ciao!
Nú er illt í efni. Einhver óvæginn hefur skvett skyri fyrir framan Háskóla Íslands í morgun. Má vera að Helgi Hós sé kominn á ferð á ný en greinilega undir nýjum formerkjum, farinn að mótmæla íslensku menntakerfi, skólagjöldum eða lélegri þjónustu á Deli OG farinn að nota bláberjaskyr. Gaman að allri jákvæðri þróun, ekki satt? Annars vildi ég nota tækifærið og óska Elsu minni til hamingju með 16 ára afmælið. Ég reyndar hitti stöllu í strætó í morgun og gaf henni þá afmælisgjöf að kyssa hana ekki til hamingju (morgunandfýla) en ætla að hitta hana á eftir og leyfa henni að velja sér gjöf. Einhverjar hugmyndir?

5.11.03

Jiii, hvað þessi dagur byrjar illa....ég GLEYMDI að mæta í vinnuna í morgun!!!!! En sú skömm! Ekki gott það!
Dálítið skondið þetta: http://www.cenedella.com/stone/archives/000543.html
Í gær héldum við annað nordklúbbskvöldið, sem tókst með ágætum. Á dagskrá kvöldsins var survivorleikur, eitthvað sem við vissum eiginlega ekkert hvernig ætti að vera. Við enduðum því bara á að fara í leikjakeppni, keppa í dansi, sjómann, uppröðun og svo var líka spurningakeppni. Drösull, lið skipað Páli, Elíasi, Lindu, Gyðu, Sigurrós og fleirum sigraði keppni kvöldsins. Til hamingju, Drösull! Meiri aumingjarnir í Lappaliðinu. :) Úff.....held ég hætti að blogga...þetta er leiðinlegasta blogg áratugarins.

4.11.03

Annars vildi ég líka tilkynna það að ég er hætt við tvo af leynilegum ástmönnum mínum, annan fyrir sorglegt ástand, hinn fyrir slappa danstilburði. Getur einhver hjálpað mér að finna nýja?
Edda fær mínar bestu þakkir fyrir dugnað í dansi á föstudags- og laugardagskvöld. Annars voru kvöldin ágæt. Á föstudag drakk Páll sig sauðdrukkinn ásamt vinkonu sinni Sigrúnu Þöll og þau máluðu bæinn rauðan og týndu okkur Eddu. Við Edda létum það ekki á okkur fá, héldum dansi okkar ótrauðum áfram á Felix þar sem margan skrítinn manninn var að finna, Óli bróðir dæmi sem aldrei klikkar. Þar dönsuðum við fram á rauða nótt (ýkjur, Edda þurfti að vakna klukkan hálfníu þannig að ég plataði hana bara svona einn aukaklukkutíma) og fórum heim með bros á vör. Eftir áhugavert grænmetisætumatarboð á laugardaginn, sem var alþjóðlegur VEGAN-dagur, fórum við aftur út að dansa en í breyttu hópsniði. Með í för voru Sigríður, Edda, Kristín Rut og Jónas Magnússon. Við fórum á Nasa þar sem Páll nokkur Óskar þeytti skífur mér til mikillar ánægju. Um það bil 95% af lögunum sem hann spilaði voru mjög vel danshæf og í skemmtilegri kantinum. Við vorum ekki einu kátu kúnnarnir það kvöldið, skyrtuklædd ljóska á rúmlega miðjum aldri naut sín í botn, reyndi við alla ungu mennina (held hennar mark hafi verið að þeir væru lágmark helmingi yngri en hún) og stökk upp á svið og söng í míkrafón (=bjórflaska) við lagið “I Will Survive”. Afskaplega skemmtileg sviðsframkoma hjá stöllu. Við báðum Pál að sjálfsögðu um eurovisionóskalög en vorum á útleið, fremur svekkt yfir að hafa ekki fengið að heyra júrópoppið okkar, þegar lagið hennar Selmu Björns fór að hljóma og við (nema Edda, fyrirgefðu peddið mitt) hlupum út á dansgólfið og dönsuðum við júrósyrpuna sem Palli verðlaunaði okkur með. ROOOOOSAGAMAN! Ég ætti kannski að fara leið sveitamanna og telja upp fólk sem ég hitti þessi tvö kvöld....nahh...vil samt nefna Svíann sem ég mætti í Bankastrætinu klæddum upp sem Madonnu, mjög hórulegum. Hann fær mitt hrós fyrir búning kvöldsins! Svo sá ég líka rassapönka!
Jæja, loksins ætla ég að efna til keppni á bloggsíðunni minni. Að sjálfsögðu verða glæsileg verðlaun í boði. Keppnin snýst um að giska á réttan mann, og vísbendingarnar sem þið fáið eru orð hans. HVER ER MAÐURINN? "Hommar eru bara kvenmenn." "Edda, þér finnst gott þegar ég táldreg þig" Svör óskast í kommentakerfið!

2.11.03

Fúff, mig klæjaði í fingurna núna um helgina af bloggþörf. Held ég skrifi um atriði helgarinnar í nokkrum færslum.