28.6.07

Frá Nokia í Samsung

Síminn minn er látinn og annar tekinn við í hans stað. Ægilega ljótur Samsung-sími. Takkarnir eru sleipir, í lok hvers skilaboð kemur skrítin orðsending á dönsku og ég er alltaf að reka mig í flýtitakka sem leyfir mér að hlusta á mismunandi hringitóna. Vitanlega þarf ekki að taka það fram að hringitónarnir eru það versta við símann. Hræðilegir. Ekkert ,,you gotta pick it up"-væl lengur. Nei, ískrandi píp. Endilega hringið í mig!!

18.6.07

Dagarnir í hnotskurn

Að undanförnu hef ég:

- Unnið aukavinnu fyrir Nordjobb í Danmörku, mér til gleði og gamans en einnig pirrings.
- Eytt helgi í svo hrikalega mikla leti að flestir hefðu fengið samviskubit. Ekki ég.
- Tekist á móti frábærum gestum.
- Tapað í yatsi fyrir Siggu.
- Velt þvi fyrir mér hvort ég eigi að panta mér meira hvítt Twix, og jafnvel hvítt Lion Bar líka.
- Farið í Tívolí með Siggu, sem hirti verðlaun á nánast öllum skotbökkunum, sem hún heimsótti.
- Unnið Monsters Inc límmiða bók á skotbakka í Tívolí. Heppnin gífurleg!
- Borðað fyrsta grillmat sumarsins í góðum félagsskap hjá Óla.
- Svitnað í sendiráðinu.
- Blotnað í rigningu og brunnið í sól.
- Áttað mig á því að við nýfermd frænka mín eigum talsvert sameiginlegt hvað varðar fatasmekk.
- Verið svo ósýnileg í vinnunni að þjófavarnakerfið var sett á meðan ég sat enn við störf.
- Tekið þátt í að búa til Quiche, sushi og fullt af pönnukökum.
- Farið á tónleika með Pet Shop Boys í Tívolí og áttað mig á því að þessir gömlu karlar syngja ekki einu sinni vel.
- Séð drottninguna og verið veifað glaðlega af eiginmanni hennar.

Hvað svo?

16.6.07

Upplýsingaskyldu sinnt

Ég hefði mátt vita að gort mitt á síðum veraldarvefsins myndi ekkert nema slæmt hafa í för með sér. Núna rignir eins og hellt sé úr fötu og hefur gert í nánast allan dag. Á slíkum dögum er auðvitað ekkert hægt að gera annað en að hanga heima. Ég tók slíkt með trompi. Vaknaði kl. 12:30 eftir tólf tíma svefn og hef ekkert gert annað í dag en að labba út á pítsastað í fæðisleit(áður hafði ég kannað alla möguleika á heimsendum mat en Domino's sendir ekki í mitt hverfi). Ég var því þakklát þegar Oliver hringdi og tilkynnti komu sína í Læssøesgade, hér verður sushi í kvöld ásamt opalskotum og pönnukökum.
Heimkoman er öll að skýrast. Ég mun vinna aukaviku í sendiráðinu og halda svo í vikufrí við Adríahafið. Allt lítur svo út fyrir að við Jónas munum fljúga heim, Feneyjar - London - Keflavík, sunnudaginn 5. ágúst. Ég er búin að fá vinnu á gömlum slóðum og er raunar nokkuð spennt fyrir því. Eins komst ég inn í mastersnám við Háskóla Íslands sem ég sótti um, og stefni því að því að taka eins og tvö fög meðfram vinnu ef slíkt er mögulegt Nóg verður því eflaust að gera. Húsnæðismál eru raunar nánast komin á hreint, aðeins á eftir að skrifa undir leigusamning. Mér myndi sjálfsagt líða illa yfir því hvað þetta er allt saman ofurskipulagt, en sem betur fer er miðinn heim enn óbókaður. Gott að hafa örlitla óreiðu í lífinu til að halda geðheilsu, ekki satt?

9.6.07

Grillandi hiti

Ég vil nú ekkert vera að monta mig, EN það er svakalega heitt í Kaupmannahöfn þessa dagana. Einhverjir á leið í heimsókn?