27.7.04

Áhugasviðspróf

Já, ég hef tekið nokkuð slík en best hefur mér alltaf þótt að prófa mig bara áfram. Þannig hef ég horft á nokkuð margar spennumyndir til þess eins að komast að því að mér finnst þær frekar leiðinlegar, ég hef gert tilraunir til að stunda líkamsrækt og áttað mig á því að áhugi minn liggur ekki þar og svo mætti lengi telja. Í dag skellti ég mér á sjóinn. Nordjobb fór nefnilega í hvalaskoðunarferð og ég mætti galvösk með samloku í nesti sem ég skellti í mig áður en lagt var úr höfn. Því hefði ég betur sleppt. Eftir um það bil tvær mínútur um borð fór mér að líða illa og vanlíðanin stigmagnaðist svo og náði líklega hámarki inni á salerni skipsins. Ég lá svo á bekk ásamt sænskri stúlku, hlustaði á áhugasaman leiðsögumanninn spenntan yfir því að sést hefði í hvalsporð og sagði við sjálfa mig: „I DON'T GIVE A SHIT". Það slæma er að mér er enn þá óglatt, það hafði ekki góð áhrifa að fylla magann á eftir með fiski, frönskum og ís. Svo skammast ég mín auðvitað líka fyrir að vera íslenskur afkomandi sjómanna sem ekki getur þolað einn stuttan (reyndar fannst hann ALLS ekki stuttur þar sem ég lá niðri í bátnum í vanlíðan) sjótúr. En núna veit ég það, hvalaskoðunarferðir eru ekki fyrir mig. Einu skrefi nær í sjálfsþekkingarleitinni.

21.7.04

júlífærsla

Ég er ekki ein um að vera latur summarbloggari það er nokkuð ljóst en ég ætla engu að síður ekki að nýta það sem afsökun enda hefur þetta sumar verið nokkuð viðburðaríkt og mér finnst vinnan mín svo áhugaverð að ég tala stanslaust um hana. Leiðinlegt að ég leyfi ekki blogglesendum að njóta eða hvað? Síðustu helgi fórum við í raftingferð norður í Varmahlíð. Alls vorum við 47, ótrúlegur fjöldi og þetta heppnaðist allt vel. Reyndar var ég á báti með algjörum gungum og við hentum því engum í vatn eða dönsuðum mikið á gúmmíbátsborðinu en þetta var samt skemmtilegt og ég var stolt af einni stelpunni sem er afskaplega vatnshrædd en lét sig hafa það að koma með og hafði gaman af. Við gistum á Blönduósi og til allrar lukku rigndi ekki, ótrúlegt en satt. Ég á erfitt með að gera upp við mig hvort hápunktur ferðarinnar hafi verið raftingferðin sjálf og stökkið niður af klettinum (vel á minnst, það var skelfileg lífsreynsla) eða barferðin okkar um kvöldið. Þá fór ég ásamt danskri stelpu, Íslendingi og fleirum á lítinn bar í bænum sem væri ekki í frásögu færandi nema vegna þess að ég var íklædd vindbuxum, regnjakka, flíspeysu, ullarhúfu og þessum líka fallegu bláu gúmmístígvélum með límbandi á. Í þessari múnderingu skellti ég mér í dans ásamt heimamönnum...aldeilis gaman :)  

3.7.04

Talandi um fall sökum fíknar

Við Sigga erum orðnar mjög sólgnar í harðfisk og eyðum stórum fúlgum í þetta gæðasnakk í viku hverri. Yfirleitt förum við bara í hverfisbúðina en við látum okkur dreyma um góða harðfiskinn sem ég hef keypt í Kolaportinu tvisvar sinnum. Í annað skiptið sem ég fór heilsaði konan mér „hæ” og brosti en ég ímyndaði mér að hún væri svona ung og „hipp” í sér að hún væri farin að heilsa á þennan máta. Í dag þegar ég fór í Kolaportið komst ég að því að ég hafði rangt fyrir mér. Konan heilsaði aftur jafnkumpánlega og ræddi við mig um síðustu kaup mín. Það er ekki nóg með það að ég sé orðin fastakúnni á videóleigunni heldur líka í harðfiskshorninu í Kolaportinu. Hæfir þetta 23 ára gamalli stúlku?

2.7.04

Fíkn getur orðið að falli

Þrátt fyrir það að vera ekkert kvikmyndagúrú er ég mjög dyggur gestur á myndbandaleigu hverfisins og hef verið það gegnum árin. Þegar eigendur leigunnar afgreiða mig þarf ég yfirleitt ekki að gefa upp kennitölu og mér er heilsað kumpánlega. Ástæða tíðra heimsóna minna á leiguna síðastliðin ár hefur samt ekki verið sú að ég hafi leigt margar kvikmyndir, nei, ég datt í sjónvarpsþætti. Fyrst var það Friends en þegar ég var búin að sjá svo að segja alla þáttaröðina (og vinir mínir löngu búnir) skipti ég yfir í Sex and the City og má segja að þátturinn sé orðin hálfgerð fíkn hjá mér. Við systur förum iðulega saman, horfum á kvikmyndirnar og ákveðum að fara yfir í þættina (smekkur minn fyrir væmnum sunnudagsmyndum eða þýsk-norskum drömum og smekkur hennar fyrir kappakstursmyndum fellur illa saman). Þá tekur við sérstök athöfn; Sigga les aftan á þættina þar sem ég er haldin minnisleysi á alvarlegu stigi og get ekki munað hvort ég er búin að sjá þætti eða ekki. Oftar en ekki tek ég upp spóluna sem við horfðum síðast á (tveimur dögum fyrr kannski) og spyr Siggu hvort þetta sé ekki eitthvað sem við eigum eftir að sjá. Fíknin stigmagnast samt. Það má sjá í því að síðustu daga hef ég rifist í starfsmanni leigunnar og óskað eftir því að þeir panti fleiri þætti. Í bræði minni hef ég jafnvel misst spólur á gólfið og brotið þær. Þegar ég svo kem með spólur og bið starfsmennina að athuga hvenær ég tók þær síðast held ég að þeim votti af virðingu sem borin var fyrir mér áður fyrr sé fleygt út um gluggann.

1.7.04

Gleðitíðindi

„Hress” er farinn að blogga á ný. Skemmtileg frásögnin hans af grillveislunni.