9.7.12

Ferðadagbók frá Spáni: Færsla 2

Titillinn á þessu í dag er reyndar rangur. Við höfum ekki eingöngu haldið okkur á Spáni heldur skelltum við okkur yfir til Frakklands í tvo daga og ætlum reyndar þangað aftur á morgun. Clarisse og fjölskylda búa í tveggja tíma akstursfjarlægð frá San Sebastián. Það var auðvitað frábært að hitta þau öll og Maggi var sérstaklega hrifinn af hundinum hennar, honum George. Bærinn var undirlagður af flamenco-hátíð, spænsk tónlist, dans og matur um allt. Mjög skemmtilegt.

Í gær fórum við til Vitoria, sem er borg í um það bil 100 kílómetra fjarlægð frá San Sebastián, í suðvestur átt. Við vissum svo sem lítið sem ekkert um þessa borg en hún kom á óvart. Hún er mjög falleg og ekki síst mjög hreinleg. Við fórum á olíuflipp, borðuðum steiktar kartöflur, steikta rabas (sem er ekki svo ólíkt smokkfiski, veit ekki hvað það er nákvæmlega) og svo handgert snakk sem var til sölu á Festival de naciones. Festival de naciones er þjóðahátíð sem byggðist upp á sölubásum fyrst og fremst. Margt þarna var nú ekki hægt að tengja sérstaklega við eitt land frekar en annað, til dæmis voru þarna seldir pottar og plastlok til að hindra að sjóði upp úr. Inn á milli voru samt flottir munir, til dæmis babúskur (því miður fundum við enga með Pútín-mynd til að gefa Evu Dögg) og flottar afrískar dúkkur.

Annars nutum við líka laugardagsins hér í San Sebastián þótt við hefðum eiginlega ekki gert neitt sérstakt. Við fórum reyndar út að borða á frekar fínan stað. Það sem var fínt við staðinn var aðallega að hann var dúkaður með hvítu og servíetturnar voru úr taui, allt voðalega hvítt. Eftir að hafa séð parið á næsta borði, sem var með skjannahvítan barnavagn, bæði klædd í hvít og ljós föt og með barnið í ljósum kjól, leið mér eins og subbu. Ekki síst eftir að ég byrjaði að subba allt út með bolognesesósu. Tvær servíettur og dúkurinn urðu sósunni að bráð. Minn hluti borðsins var subbulegri en hjá Magga. Maggi fékk svo að fara út og leika sér á leikvelli. Hann reyndi í sífellu að vega salt við aðra krakka en í hvert sinn sem barnið birtist með sólhattinn sinn létu krakkarnir sig hverfa. Frekar fúlt. Afganginum af deginum eyddum við svo í rölt. Við löbbuðum um gamla hverfið og eins nýrri hluta miðborgarinnar, borðuðum ís og keyptum í matinn. Æðislegt og fáránlegt að Maggi hafi nennt að rölta um svona lengi og gera ekkert.

Í dag ætlum við til Bilbao. Feðgarnir voru að labba út til að fá sér morgunmat þegar þeir sjá mús í garðinum. Hvað gerir pabbinn? Jú, hann hleypur hoppandi inn og lokar út á verönd - en skilur barnið eftir. Vonandi lendi ég aldrei í neyð með honum!

3.7.12

Ferðadagbók frá Spáni: Færsla 1

Núna erum við komin á leiðarenda í San Sebastián í Baskalandi. Júhú! Hér er frábært að vera. Húsið sem við dveljum í er risastórt og mjög flott. Í kjallaranum er borðtennisborð og fótboltaspilsborð, það er risastór garður og fullur kassi af síder-víni sem okkur er skipað að drekka. Reikna þó ekki með að við eigum eftir að standa okkur í því síðastnefnda. Ef það er kúkalykt á einu salernanna þá er það lítið mál. Þá veljum við bara eitthvað af hinum enda eru fjögur salerni í húsinu, eitt baðkar, tvær eða þrjár sturtur og fimm baðvaskar.

Flugið með Wow til London gekk mjög vel. Þjónustan um borð var frábær og tímasetningar stóðust. Maggi var ljúfur sem lamb í fluginu. Hann lék sér bara sjálfur nánast allan tímann, lét pabba sinn splæsa í veitingar og spjallaði við flugfreyjuna. Það er eins og barnið hafi aldrei gert annað en að ferðast. Við gistum á hóteli við flugvöllinn á Stansted, alveg í göngufæri sem var mjög þægilegt. Herbergið var mjög flott með útsýni yfir veitingastað hótelsing og morgunverðarhlaðborðið. Magga fannst þetta samt ægilega skrítið. Hann skildi ekki hugtakið hótel og spurði í sífellu hvar eldhúsið væri eiginlega. Eins spurði hann okkur hvort hótelfólkið væri heima í Bogahlíð.

Í morgun flugum við svo með Easyjet til Bilbao. Flugið gekk líka vel. Magnús var örþreyttur og steinsofnaði og hélt þannig móður sinni félagsskap í farartækjalúrnum. Við tókum svo rútu frá flugvellinum yfir til San Sebastián. Það er líklegt að Jónas fari ekki með okkur Magnúsi í rútu alveg á næstunni. Mér leið hundilla, var líklega bílveik og með höfuðverk í þokkabót. Því reyndi ég að sofa mestalla leiðina. Magnús var aftur á móti nokkuð hress framan af en gubbaði þegar um það bil mínúta var í leiðarenda. Hann lét það ekkert á sig fá, skellti sér úr buxunum á rútustöðinni og tók svo leigubíl með okkur heim til foreldra gestgjafanna. Þau sýndu okkur svo húsnæðið.

Við vorum svo eiginlega einhvers konar blanda af Mr. Bean og Klaufabárðunum þar á eftir. Fyrst fórum við í labbitúr að leita að verslun sem átti að vera í nágrenninu. Við fundum hana ekki og var bent á það af eldri manni að engar búðir væru í göngufæri. Því ákváðum við að keyra af stað. Við fundum til bílstólinn og reyndum að skella honum í. Ekki tókst betur til en að við festum beltið við stólinn sem lá einhvern veginn hálfur utan við bílinn (sem ekki var hægt að loka) og okkur tókst alls ekki að losa stólinn. Þá voru góð ráð dýr en á endanum skrúfuðum við beltisherðigræjuna af og tókst að koma þessu í lag á löngum tíma. Við keyrðum svo beint út í flasið á bróður gestgjafanna sem benti okkur pent á að við værum að keyra í einstefnu. Mjög töff!

Á morgun förum við líklega niður í bæ að skoða okkur svolítið um. Rigningarspáin virðist ekki ætla að rætast nema að hluta svo að við getum notið fullkomins veðurs, rétt rúmlega tuttugu gráður og sól og ský í bland.

1.5.12

Foreldrahlutverkið

Þeir sem eiga barn vita að íbúðarkaup, meðganga og fæðing eru ekki nærri eins ógnvekjandi og foreldrahlutverkið. Um leið og litlu geimverunni er vippað upp á bringuna á þér er komið að nýjum hluta í lífinu. Þú berð ábyrgð á lítilli veru og stekkur beint í djúpu laugina. Innsæi móður og föður á að fylgja með í kaupunum.

Það eru engar ýkjur að lífið gjörbreytist með fæðingu barns. Fyrstu vikurnar hjá nýbökuðum foreldrum einkennast oftast af svefnleysi og brjóstagjöf. Brjóstagjöf er eitthvað sem flestir halda að sé konum í blóð borið og gangi smurt eins og vél hjá öllum. Svo er ekki. Aumar geirvörtur, jafnvel með blæðandi sárum og stíflur í mjólkurgöngum verða daglegt brauð. Þakklátasta ráðið sem ég fékk á meðgöngunni var frá kunningjakonu minni sem benti mér á að í hennar tilfelli hafi hún fundið til fyrstu fjóra mánuði brjóstagjafar en þá hafi hlutirnir farið að ganga betur. Þetta snerist því bara um að þrauka þessa fjóra mánuði.

Ungbarnaforeldrar gera sér að góðu að sofa allt niður í tvo tíma í einu og í raun er furðulegt að ekki hafi verið gerðar rannsóknir á aukinni slysatíðni meðal svefnlausra foreldra. Fólk svífur um í móki svefnleysis og ræðir fátt annað en brjóstagjöf, kúkableiur og krúttleg bros. Ég man eftir að hafa heimsótt heilsugæslustöð með son minn nokkurra vikna gamlan. Þrátt fyrir þó nokkuð margar tilraunir tókst mér ekki að koma kennitölunni hans rétt út úr mér.

Það er ábyggilega fátt leiðinlegra fyrir barnlausa en vinir sem fjölga sér. Umræðuefnin hætta að snúast um skemmtanahald næstu helgar og flotta kjólinn sem keyptur var í síðustu verslunarferð til útlanda. Barnið á athyglina alla og fæðingarorlofsgreiðslur duga tæpast fyrir nýjum kjólum eða verslunarferðum til útlanda. Takmörkuð orka foreldranna fer í að dást að minnstu framfaramerkjum hjá krílinu, sama hvort um er að ræða að tánögl þess hafi vaxið eða barnið geiflað sig öðruvísi en venjulega. Foreldrar taka varla eftir því sem ber á góma í samfélaginu. Það er kannski ekki skrítið að samskipti við vini breytist og samverustundir með vinahópnum verði færri eftir að börn koma til sögunnar.

Meira að segja vinir og ættingjar hætta að spyrja hvernig þið foreldrarnir hafið það. Það er líðan barnsins sem er í fyrirrúmi og minnstu breytingar í lífi barnsins á borð við fyrstu tönnina, harðlífi eða þyngdaraukningu eru langtum vinsælla umræðuefni en það hvernig foreldrinu gengur í vinnunni, hvort það hafi lesið nýjustu bókina eftir Arnald eða farið í leikhús nýlega.

Vissulega er margt jákvætt við foreldrahlutverkið. Færni foreldra í að gera marga hluti í einu eykst gífurlega eftir því sem barnið eldist. Foreldrar koma upp tækni til að ná að sofa örlítið lengur í stofusófanum á laugardagsmorgnum meðan barnið horfir á teiknimyndir. Þeir læra að vaska upp um leið og sungið er fyrir barn í burðarpoka á maganum. Ekki síst læra mæður að gefa brjóst á sama tíma og þær skrifa tölvupóst, hæfileiki sem vonlaust er fyrir barnlausa að apa eftir.

Þeir sem eiga börn þekkja það eflaust að verslunarferðir breytast allsvakalega eftir að barnið fæðist. Í stað þess að kaupa flíkur á þig til að hylja skvapið eftir meðgönguna er langtum auðveldara að velja föt á barnið í staðinn. Dagar þess þegar hálfri mánaðarhýrunni var eytt á útsölum eru liðnir. Börn stækka ógnarhratt og þurfa föt sem passa. Barnaföt eru mjög dýr og enginn pengingur eftir til að kaupa bjór á barnum eða nýjan gsm-síma.

Flest ykkar kannast eflaust við það að hafa ferðast í strætisvagni, rútu eða flugvél þar sem lítið barn ærir aðra farþega. Þeir sem kannast við börn sem æra aðra eru væntanlega barnlausir. Þegar börn koma til sögunnar hætta foreldrar oft að láta frekjuköst annarra barna, barnsvæl og annars konar hávaða í ungviði fara í taugarnar á sér. Í staðinn hefjast vangaveltur um það hvort barnið sé ekki bara svangt eða þreytt og hversu erfitt sé fyrir litlu dúlluna að vera á svona löngu ferðalagi. Þess er svo gætt að brosa af skilningi til foreldrisins. Sjónarhornið gjörbreytist.

Í þekktu lagi heyrast eftirfarandi línur:
„Þetta fullorðna fólk er svo skrítið, það er alltaf að skamma mann. Þó maður geri ekki neitt, það er alltaf að skamma mann“.
Mér þótti þetta lag alltaf mjög skemmtilegt en tengi öðruvísi við það en áður. Ég er ekki lengur á sveif með barninu sem syngur um skilningsleysi þessara ömurlegu foreldra. Núna skil ég hið skammandi fullorðna fólk miklu betur.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.
Ólétta og fæðing

Ráðlagt er fyrir barnlausa að kynna sér málin vel áður en lagt er til atlögu við hjónaleikfimina. Ólétta og fæðing eru sjaldnast eins og í væmnum amerískum kvikmyndum og ýmislegt sem ekki uppgötvast fyrr en á hólminn er komið.

Margt í tengslum við óléttu tala fáir um nema við sína allra nánustu. Vissulega heyrist oft af þreytu á meðgöngu og tíðum þvaglátum auk þess sem hríðarverkir í fæðingu bera stundum á góma. Annars virðist mest talað um hversu dásamlegt var að fá barnið í fangið. Það er líkt og allt annað gleymist.

Óneitanlega er það góð tilfinning að bera barn undir belti og fæðingin eða að minnsta kosti afrakstur fæðingar er vitanlega frábær. Það er aftur mjög margt sem gleymist að nefna í tengslum við það sem sumir vilja kalla kraftaverk lífsins.

Ég hafði séð myndir af móður minni þar sem hún leit glansandi vel út kasólétt af systur minni. Ég áttaði mig ekki á því að allar hinar myndirnar af henni rötuðu eflaust ekki í albúmið. Það blómstra ekki allar konur á meðgöngu og líta út eins og í dömubindaauglýsingu. Raunar er erfitt að líta óaðfinnanlega út þegar þú hefur kastað upp tvisvar sama daginn og þjáðst af óstöðvandi ógleði og þreytu síðustu vikurnar. Líkaminn virðist hætta því ósjálfrátt að halda inni keppunum um leið og búið er að pissa á óléttupróf. Enginn varaði mig heldur við því að slit á húð geta myndast löngu áður en bumban birtist. Það er ástæða fyrir því að ég harðbannaði allar myndartökur af mér meðan á meðgöngu stóð.

Ólétt kona þjáist af ýmsum öðrum kvillum. Hún pissar í tíma og ótíma, jafnvel svo oft að tæpt getur verið að stunda skemmtanir á borð við leikhús og bíó. Gyllinæð og sveppasýkingar eru algengir kvillar meðal þungaðra og margar ófrískar konur finna fyrir óþægindum í mjaðmagrind. Grindarverkir og eins sú staðreynd að þyngdarpunkturinn breytist á meðgöngu veldur svo því að óléttar konur kjaga í stað þess að ganga á síðustu metrum meðgöngu. Fáir kalla kjag heillandi göngulag.

Tímabilið þegar kunningjar sem ekki vita af óléttunni velta vöngum yfir því hvort þú hafir fitnað ótæpilega eða sért ófrísk er ekkert sérstaklega skemmtilegt heldur. Þegar allur vafi á því hvort um óléttubumbu er að ræða eða ekki er svo forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum fólksins í kringum þig. Ókunnugum finnst ekkert sjálfsagðara en að ræða málin við þig, segja sögur af fæðingum og jafnvel giska á kyn barnsins. Við þetta bætist svo að þótt kviðurinn á þér hafi verið í einkaeigu fram að meðgöngu, þá verður hann almenningseign á seinni metrum meðgöngunnar. Fólki finnst ekkert að því að þukla á bumbunni og ræða um stærð hennar, alveg óháð því hvort þú þekkir viðkomandi eða ekki. Eina stundina færðu kvíðakast þar sem fólk talar um að bumban sé óeðlilega lítil en þá næstu sannfærir fólk þig um að barnið hljóti að fara koma. Bumban sé orðin svo stór og farin að síga, jafnvel þótt tveir mánuðir séu eftir af meðgöngu.

Ég átti sjálf fremur átakalausa meðgöngu miðað við margar konur í kringum mig og fæðingin gekk einnig áfallalaust fyrir sig. Fæðingar eru ekki eins og í bandarískum bíómyndum. Það er sjaldgæfara en ekki að konur missi vatnið í miðjum stórmarkaði, og þú þýtur ekki með sjúkrabíl upp á fæðingardeild um leið og þú byrjar að fá hríðarverki. Ég hafði alltaf ímyndað mér að konur dveldu á fæðingardeild og tækjust þar á við hríðirnar með hjúkrunarkonu sér við hlið sem stryki á þeim ennið. Raunveruleikinn var sá að ég hafði það nokkuð huggulegt uppi í rúmi heima hjá mér, horfði á grínþætti og pantaði mér flatböku milli þess sem ég linaði verkina með baðferðum.

Eftir að hafa hálfgrenjað liggjandi í aftursæti bílsins okkar á leið upp á fæðingardeild var mikill léttir að komast loks á áfangastað og fá að vita að það sem ég hræddist allra mest myndi ekki gerast. Ég vildi alls ekki vera ein af þeim sem yrði send heim með ímyndaða hríðarverki. Barnið var á hraðleið í heiminn og stuttu síðar var ég komin með kríli í fangið og vissi ekkert hvað ég ætti að halda. Mér leið eins og ég væri með geimveru organdi á brjóstinu. Komin í hlutverk sem ég vissi ekkert hvernig ég ætti að takast á við.

Ólétta og fæðing er enginn dans á rósum. Þú gubbar ekki regnbogum og það er margt skrítið sem gerist með líkamann meðan á meðgöngu stendur. Það er engin spurning um að allt er þetta þess virði og vel það. Það breytir því ekki að það þarf ekki að halda uppi þeirri ímynd að allar konur blómstri á meðgöngu, þótt ekki væri nema til að undirbúa konur í barneignapælingum undir það sem koma skal.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

_________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.
Fyrstu íbúðarkaupin

Sú stund er stór í lífi flestra þegar kaupa á fyrsta húsnæðið. Húsnæðiskaup þýða oftast að góðum hluta launa kaupendanna er þegar ráðstafað næstu tuttugu til fjörtíu árin og því er stórt skref að stíga að taka ákvörðun um þetta.

Við fjölskyldan keyptum okkur íbúð tveimur árum eftir hrun. Líklega byggjum við enn í leiguhúsnæði ef ekki hefði komið upp að leigusalinn okkar ákvað fremur skyndilega að hætta að leigja út íbúðina sína og við sáum fram á að verða húsnæðislaus þremur mánuðum síðar. Við tók leit að draumahúsnæðinu á fasteignasíðum. Val á framtíðarhíbýli getur verið erfitt enda um stóra ákvörðun að ræða.

Við byrjuðum á að ákveða hvaða hverfi borgarinnar kæmu til greina og hversu stórt húsnæði við þyrftum. Eins reiknuðum við út hversu dýra eign við gætum keypt. Inn í þetta fléttuðust vangaveltur um gæði grunnskóla á svæðinu. Það skipti engu máli að sonur okkar væri aðeins eins og hálfs árs á þessum tíma. Við spáðum einnig í helstu umferðaræðar, endursölumöguleika eignarinnar og líkur á stórvægilegum framkvæmdum á húsnæðinu næstu árin. Okkur þótti þetta afskaplega fullorðinslegt.

Ég hafði ekki áttað mig á því að draumaeignin finnst ekki endilega í fyrstu tilraun. Við skoðuðum fjöldann allan af fasteignaauglýsingum og eyddum heilmiklum tíma í leitina. Við skoðuðum líka þvílíkan fjölda af íbúðum, skoðanir sem voru stundum dálítið sérstakar. Því var þetta ekki eingöngu stór ákvörðun heldur líka dálítið ævintýri.

Í eitt skipti fórum við á svokallað opið hús þar sem nokkuð margir voru mættir til að skoða sérhæð í frábæru hverfi. Í íbúðinni voru nokkur herbergi en unglingar og börn sváfu inni í helmingi þeirra og annarri stofunni. Herbergjunum var því lokað og okkur bannað að skoða þau. Innréttingar og ástand íbúðar var eins rakkað niður af leigjandanum sem sýndi íbúðina og sá hinn sami neitaði að sýna þvottahús og kjallara. Viðkomandi benti okkur á að húsnæðið væri ekki íbúðarhæft en fannst augljóslega lítið mál að búa þarna með skarann allan af börnum.

Í annað skipti skoðuðum við íbúð þar sem eigandinn sagði okkur þegar við komum að hún vildi eiginlega ekki selja, henni hefði verið ýtt út í það. Hún var samt hæstánægð að fá okkur í heimsókn og meira en til í að spjalla um allt milli himins og jarðar. Hún ræddi við okkur hestamennsku, heimabæ tengdaforeldra minna sem voru með í för og frábæru steypuna sem notuð var í húsið hennar milli þess sem hún kitlaði son okkar. Þeirri heimsókn lauk með því að við vorum beðin um að hafa lágt meðan hún sýndi okkur síðasta hluta íbúðarinnar, herbergi inn af eldhúsi þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar svaf eins og ungabarn.

Það er alltaf dálítil synd að banka upp á til að skoða íbúð á óheppilegum tímapunkti. Við reyndum það að sjálfsögðu. Þriðju íbúðina var nefnilega varla unnt að skoða þar sem eigandinn var nýkominn af klósettinu. Augljóslega var ýmsu ábótavant hvað loftræstingu varðaði því að megna kúkalykt lagði um alla íbúðina og gerði það að verkum að við vorum fljót að forða okkur og misstum allan áhuga á að skoða okkur frekar um.

Það sem er allra mesta áhyggjuefnið við íbúðarkaup er ekki einungis að velja réttu eignina heldur einnig fjármögnun kaupanna. Að sjálfsögðu þarf að safna fyrir útborgun en einnig að velja hvernig lán eigi að taka og til hversu langs tíma. Kaupandinn þarf helst að geta spáð fyrir um verðbólgu næstu þrjátíu til fjörtíu árin og eins að geta áætlað hverjar tekjur hans verða út starfsævina. Eftir bankahrunið þarf auk þess að huga að þáttum eins og möguleikanum á að slíkt endurtaki sig, gengi íslensku krónunnar og mögulegri upptöku annarra gjaldmiðla. Allt eru þetta atriði sem hinn almenni borgari veit lítið sem ekkert um.

Eftir langa leit og margar skoðunarferðir tókst á endanum að finna íbúð sem bæði mér og sambýlismanni mínum leist vel á. Íbúðin er staðsett í fremur stóru fjölbýlishúsi í Reykjavík. Í fjölmennu húsi sem þessu fylgir að rekið sé húsfélag og húsfélag þýðir að haldnir séu húsfundir.

Húsfundir eru sjálfsagður hluti þess að búa í fjölbýlishúsi. Fundir sem þessir eru með áhugaverðari samkomum. Á því leikur enginn vafi. Þar kemur saman fólk sem á ekki annað sameiginlegt en að eiga íbúð á sama blettinum. Á fundunum eru rædd mikilvæg atriði á borð við það hvort breyta eigi kerfi á sorptunnum, hvort bletta eigi glugga eða heilmála og eins hvað gera eigi við erfiða útlendinginn sem verkar lax í þvottahúsinu. Í stuttu máli eru húsfundir líklega með leiðinlegri leiðum til að eyða mánudagskvöldi. Það er aftur slæm hugmynd fyrir húseiganda að skrópa á húsfund.

Kaup á húsnæði eru því ekki aðeins mikil skuldbinding og enn frekari sönnun á því að fullorðinsárin séu hafin. Þau snúast ekki eingöngu um að finna draumaeignina og sannfæra eiganda hennar um að hann eigi að selja þér hana. Eigandi húsnæðis getur ekki lengur hringt í leigusalann og kvartað yfir biluðum vaski heldur þarf sjálfur að redda hlutunum. Kaup á húsnæði þýða líka að minnst einu sinni á ári þarftu að eyða tíma þínum í hræðilega leiðinlega hluti á borð við húsfundi. Ef til vill ætti að vara við þessu í fasteignaauglýsingum.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

_____________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.
31 árs í sambúð

Bækurnar Fimmtán ára á föstu og Sextán ára í sambúð eftir Eðvarð Ingólfsson komu út árin 1984 og 1985 , ekki svo löngu eftir að ég fæddist. Þær voru afar vinsælar og mikið lesnar af jafnöldrum mínum jafnvel þótt þær væru ekki nýútgefnar þegar ég var unglingur á tíunda áratug síðustu aldar. Ég man að ég hugsaði með mér líklega tólf ára gömul að það væri helst til ungt að hefja sambúð sextán ára. Ráðlagt væri að bíða örlítið lengur með slíkt. Nú er það svo að tilhugsunin ein um að vera sextán ára í sambúð er fjarstæðukennd. Það er kannski merki um breytta tíma og hugsun hversu fjarstæðukennt mér finnst núna að skrifuð hafi verið bók um sextán ára krakka í sambúð.

Ég er þrjátíu og eins árs gömul og hef búið með sambýlismanni mínum í nokkur ár. Ég þakka fyrir að ég hóf ekki sambúð að grunnskólaprófi loknu enda var ég lítið annað en krakkaormur við sextán ára aldurinn og naut þess að þurfa ekki að bera ábyrgð á öðru en sjálfri mér. Ég hefði tæplega notið þess að borga reikninga og rífast um það hver ætti að vaska upp eftir matinn. Þó er reyndar alltaf spurning hvort 31 árs manneskja hafi bætt svo miklu við sig í þroska að hún sé tilbúin í það fullorðinslíf sem sambúð og börn hafa í för með sér.

Til eru alls kyns frásagnir af lífi einhleypra kvenna sem leita ástarinnar. Þar má nefna bækur, þætti og kvikmyndir á borð við Beðmál í borginni, dagbækur Bridgetar Jones og bækur Tobbu Marínós. Það er ekki eins algengt að fjallað sé um líf para í sambúð með barn. Líklega er það ekki nógu spennandi umfjöllunarefni. Enda held ég að sambúðarlíf geri fólk örlítið leiðinlegra.

Þegar ég var barn fannst mér foreldrar mínir ofboðslega ósanngjarnir og fljótir að skammast þegar við systkinin fundum upp á einhverju skemmtilegu að gera. Þannig naut það takmarkaðra vinsælda þegar við spiluðum handbolta í stofunni eða límdum flotta límmiða á herbergishurðina okkar. Ég man líka hvað mér þótti móðir mín leiðinleg þegar hún vildi ekki gefa mér nammi, gos eða kex jafn oft og mig langaði. Á unglingsárunum fannst mér foreldrar mínir vissulega oft strangir. Frá sjónarhorni unglingsins lifðu foreldrarnir afar döpru lífi. Þeir fóru iðulega snemma að sofa og fóru nánast aldrei í bíó. Þótt mamma og pabbi færu annað slagið út og hittu vini fannst mér félagslíf þeirra minna en ekkert. Það var eins og lífi þeirra væri lokið þótt þau væru ekki einu sinni orðin fimmtug.

Nú er ég orðin móðir og er satt best að segja þrisvar sinnum verri rúmlega þrítug en mamma og pabbi voru 45 ára. Ef þriggja ára sonur minn tæki upp á því að líma límmiða á herbergishurðina hjá sér myndu hrópin í mér örugglega heyrast yfir í næstu hverfi. Sykri er haldið frá barninu eins og mögulegt er og bíó er eitthvað sem ég man varla hvað er enda telst gott núorðið ef tími gefst til bíóferða oftar en einu sinni á ári.

Föstudags- og laugardagskvöld breyta algjörlega um merkingu á fullorðinsárum. Pörum í sambúð finnst oftar en ekki huggulegra að kúra heima í sófa yfir hugljúfri kvikmynd heldur en að skella sér út á lífið. Margir foreldrar ungra barna eru þess utan svo þreyttir eftir annasama vinnuviku að þeir sofna næstum yfir kvöldmatnum og flýja svo alsælir í sófann til að horfa á Útsvar um leið og ormarnir eru komnir í ró. „Dapurleg föstudagskvöld“ myndu unglingar segja en „huggulegt“ að mati þreyttra fullorðinna.

Auðvitað er margt skemmtilegt við að vera í sambúð með manneskjunni sem er þér kærust en margt það sem fylgir er ekki eins skemmtilegt og gerir það að verkum að orka til öflugs félagslífs minnkar. Foreldrar þínir sjá ekki lengur um húsverkin. Þau eru í þínum verkahring og þeirra sem með þér búa. Reikningana þarf að greiða og til þess að geta greitt þá þarf að vinna til þess að afla fjár.

Það er kannski ekki skrítið að saga þeirra ungu kvenna sem ég minntist á hér að ofan fjalli um leitina að ástinni, sögur kvenna á borð við Bridget Jones og söguhetjanna í Makalaus eftir Tobbu Marínós. Það er ekki eins mikið sagt frá því þegar ástin er þegar fundin og það er eins spurning hvort Carrie og Bridget geri sér grein fyrir hvað þeirra bíður. Við fáum takmarkað að njóta lýsinga á því. Það yrði kannski of leiðinlegt að fylgjast með Carrie og Herra stórum kúra fyrir framan sjónvarpið og vakna snemma til að fara með smábarnið í sund. Það er heldur varla tilviljun að hvorki Carrie né Bridget eru sextán ára. Ætli það sé ekki langtum betra að vera fertugur í sambúð? Ég skil í hið minnsta ekkert hvað Eðvarð Ingólfsson var að spá.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

______________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.