2.7.04

Fíkn getur orðið að falli

Þrátt fyrir það að vera ekkert kvikmyndagúrú er ég mjög dyggur gestur á myndbandaleigu hverfisins og hef verið það gegnum árin. Þegar eigendur leigunnar afgreiða mig þarf ég yfirleitt ekki að gefa upp kennitölu og mér er heilsað kumpánlega. Ástæða tíðra heimsóna minna á leiguna síðastliðin ár hefur samt ekki verið sú að ég hafi leigt margar kvikmyndir, nei, ég datt í sjónvarpsþætti. Fyrst var það Friends en þegar ég var búin að sjá svo að segja alla þáttaröðina (og vinir mínir löngu búnir) skipti ég yfir í Sex and the City og má segja að þátturinn sé orðin hálfgerð fíkn hjá mér. Við systur förum iðulega saman, horfum á kvikmyndirnar og ákveðum að fara yfir í þættina (smekkur minn fyrir væmnum sunnudagsmyndum eða þýsk-norskum drömum og smekkur hennar fyrir kappakstursmyndum fellur illa saman). Þá tekur við sérstök athöfn; Sigga les aftan á þættina þar sem ég er haldin minnisleysi á alvarlegu stigi og get ekki munað hvort ég er búin að sjá þætti eða ekki. Oftar en ekki tek ég upp spóluna sem við horfðum síðast á (tveimur dögum fyrr kannski) og spyr Siggu hvort þetta sé ekki eitthvað sem við eigum eftir að sjá. Fíknin stigmagnast samt. Það má sjá í því að síðustu daga hef ég rifist í starfsmanni leigunnar og óskað eftir því að þeir panti fleiri þætti. Í bræði minni hef ég jafnvel misst spólur á gólfið og brotið þær. Þegar ég svo kem með spólur og bið starfsmennina að athuga hvenær ég tók þær síðast held ég að þeim votti af virðingu sem borin var fyrir mér áður fyrr sé fleygt út um gluggann.