1.3.07

Kóngafólk og klikkun í Kaupmannahöfn

Loksins fylltist líf mitt spennu hér í kóngsins Kaupmannahöfn. Loksins! Stóra spurningin er samt hversu langt maður vill ganga til að gera líf sitt viðburðaríkara. Lögreglumenn réðust inn í ungmennahúsið á Nørrebro eldsnemma í morgun og síðan þá hefur stór hópur fólks mótmælt víða um borgina. Vinsælustu mótmælastaðirnir hafa þó verið staðurinn þar sem ég hoppa úr strætó á morgnana til að labba í vinnuna og svo hér í næstu götu við heimili mitt. Vitandi að stór mótmæli voru skipulögð rétt við heimili mitt ákvað ég að leita skjóls í verslunarmiðstöð í úthverfi en þegar henni var lokað neyddist ég til að halda heim á leið. Ég komst óáreitt yfir brú Louise drottningar, líklega þar sem lögregluliðið var rétt að byrja að gæða sér á samlokum. Fyrr um daginn hafði fólk verið krafið um skilríki og sönnun þess að það byggi í hverfinu og jafnvel leitað á einhverjum. Nørrebrogade leit út eins og miðborg Reykjavíkur morguninn eftir Menningarnótt. Rusl og leifar af hindrunum og svo brunarústir. Ég ákvað að velja leið sem ég taldi rólega inn að götunni minni en ekki dugði það til. Á fyrsta götuhorni var brennandi ruslagámur, á því næsta lögreglan með sírenur og mótmælendur að kasta flugeldum að lögreglubílnum, í um það bil tíu metra fjarlægð. Ég nánast hljóp heim þaðan. Það eina sem hægði á mér var að lögregla gæti haldið að ég væri mótmælandi á flótta. Ég get skilið biturð fólksins vegna lokunar hússins, en er þetta ekki aðeins yfir strikið? Samgöngukerfi borgarinnar virkar afar illa, það er rusl afar víða, brunalykt og ástandið minnir helst á stríðshrjáð land. Vilja mótmælendurnir búa í svona borg?
Líklega myndi ég tuða enn meira hefði ég ekki flotið á hamingjuskýi í allan dag. Ástæðan var sú að í dag tók líf mitt nýja stefnu. Ég ákvað að ég myndi gifta mig fljótlega. Sá heppni er Friðrik André Henrik Christian, krónprins Dana. Ég sá hann nefnilega í dag. Ef einhver á góð ráð fyrir tilvonandi hjónadjöfla eins og mig, þá bið ég þann hinn sama að hafa samband sem fyrst.