23.7.07

Sveitasælan

Það hefur alltaf blundað í mér dálítill spæjari og raunar hefði mig langað til að opna einkaspæjaraskrifstofu í Reykjavík ef aðeins markaðurinn væri stærri og meiri hasar í gangi. Sem betur fer koma samt alltaf upp stundir eins og nú, þegar spjæjarinn í mér fær að lifa góðu lífi. Í gær vorum við Jónas nefnilega rænd í nýjum heimkynnum okkar fjarri ysi stórborgarlífsins. Við búum á kollegíi ásamt hópi nordjobbara. Nýja húsnæðið er að mörgu leyti prýðilegt, en ýmsa smágalla má finna hér og þar. Eldhúsið er til að mynda viðbjóðslegt og sturtan farin að mygla. Frá og með morgundeginum eru sambýlingarnir eða ef til vill aðeins einn sambýlingur, hins vegar stærsta vandamálið. Í morgun uppgötvuðum við Jónas nefnilega að búið var að ræna frá okkur þremur vænum sneiðum af Dominos pítsu, hálfum líter af kók sýróp og hafði þjófurinn bíræfni einnig opnað 1,5 lítra Fantaflösku sem við áttum og fengið sér glas. Nú sé ég þjóf í hverjum manni. Skyldi litli félagsráðunauturinn (sem ég hefði haldið þrettán ára son húsvarðarins ef ég hefði ekki vitað að Nordjobb ræður engan undir átján ára aldir) hafa slafrað í sig pítsunni sem við hlökkuðum til að taka með í nesti? Eða ætli reykingarpían, sem plokkar á sér lappirnar uppi á eldhúsborði sé sek? Vonandi kemst ég fljótt til botns í þessu grafalvarlega máli. Þjófnum skal refsað. Alma spæjó hlífir engum.