18.2.04

Fúff, ég er fegin að ég þarf ekki að taka meira heimspekitengt en blessuð forspjallsvísindin. Annnars vildi ég tjá reiði mína yfir því hversu illa er staðið að félagsmálum innan spænskunnar. Til að byrja með þá liggur það á huldu hverjir í ósköpunum eru í stjórn félags spænskunema. Það á jú að vera til en ekki hef ég séð neitt að ráði til gjörða þess. Eina sem ég sá voru friðarkerti sem áttu að vera á þess vegum nú nýlega í menningarvikunni. Áðan í tíma heyrði ég káta stúlku segja mér að árshátíðin nálgaðist fljótt, „núnú árshátíð...ekkert svoleiðis hjá okkur” heyrðist í mér. „Jú” sagði stúlkan, „árshátíðin okkar er sameiginleg með spænsku- og bókmenntafræðinemum”. Hvenær átti að segja okkur þetta? Ég er satt best að segja pirruð og vona að ástæðan sé sú að stjórn félags spænskunema sé ekki til, það er eina afsökunin sem hún gæti mögulega borið fyrir sig.