6.9.04

Framtíðin ráðin

Með þessum orðum tóku foreldrar mínir á móti okkur Siggu þegar við komum heim úr vinnunni á laugardaginn. Ástæðan var auglýsing í sunnudagseintaki Morgunblaðsins þar sem bandarískur faðir óskaði eftir íslenskum prinsessum fyrir syni sína. Maðurinn sjálfur, íbúi í Washington DC hefur verið giftur einni slíkri í 36 ár og vill að sjálfsögðu sonum sínum aðeins það besta. Með auglýsingunni fylgdi smálýsing á sonunum sem allir voru á giftingaraldri og efnilegir menn, og svo mynd af þeim með pabbanum og íslensku prinsessunni, eða kannski drottningunni. Ætli einhver hafi svarað? Mamma hótaði að skrifa fyrir okkar hönd en sagðist fyrst vilja láta taka nýjar myndir af okkur systrum. Ætli hún klæði okkur í ljósbláa blúndukjóla aftur eins og síðast þegar hún lét taka af okkur myndir?