17.4.06

Tur til Danmark

Við Eva erum komnar til Kaupmannahafnar eftir að hafa keyrt um Danmörku endilanga og alla leið til Þýskalands. Aðalástæða ferðarinnar var sú að við vildum fagna afmælisdegi drottningar með henni, og þar eð hún ákvað að fagna í Árósum var ferðinni heitið þangað. Við Eva hittum Ragnheiði Ástu og mæltum okkur mót við hana á afmælisdeginum. Þrátt fyrir að mæta um það bil einum og hálfum tíma fyrir planaða tímasetningu náðum við ekki að slá Dönunum við með stundvísinni, góður hópur beið þegar fyrir utan hliðið við höllina. Við biðum svo í mjög góðu veðri og veifuðum svo drottningu, hennar ektamanni, syni, sonarsyni og tengdadóttur í samtals 2 mínútur held ég. Mjög gaman, sérstaklega þar sem við vorum í fremstu röð. Að sögn mér fróðari sást íslenski fáninn í sjónvarpinu og einnig glitti í okkur stallsystur á annarri rás. Höfum engu að síður ekki orðið varar við aukna athygli vegna þessa. Annars er ég mjög hrifin af Árósum og vonast eftir að koma þangað aftur. Ragnheiður Ásta er líka snillingur!!!
Síðustu nótt eyddum við Eva í Skælskör á Sjálandi. Við vorum heppnar að fá gistingu þar (þrátt fyrir að hafa bókað hjá Malene) þar eð fasistaeigandinn Jan lokaði móttökunni rétt eftir að við komum. Við fengum þó lykla að herbergi, eða ætti ég að kalla það frystiklefa þar sem orka, vatn og flest allt annað en pláss var sparað eftir mætti. Skælskör er samt flottur bær og þar er hægt að fá rosalega góða pítsu á veitingastaðnum Memo's, með steik og bernaisesósu sem álegg. Allir til Skælskör á næsta páskadag!