26.7.06

Jalili, je t'aime

Í dag er níundi dagur ferðalags og hver dagur hefur verið öðrum betri. Írland stóðst nánast væntingarnar (sem voru miklar) þótt eins og alvitað er eflaust orðið hafi vonbrigðin varðandi fáa rauðhærða menn verið talsvert stór. Þeir sem við sáum voru samt vel og fallega rauðhærðir, eldhærðir satt best að segja. Við Valgerður gistum eina nótt á hóteli í London og lentum ekki í neinu af því sem virðist afar algengt miðað við síður eins og Tripadvisor, hvorki kynferðislegri áreitni, ógeðslega skítugu herbergi né vondum morgunmat. Nei, herbergið okkar var hið fínasta, konurnar í móttökunni lítið fyrir að áreita og enski morgunverðurinn ljúffengur. Rosa og Dónal tóku á móti okkur í Dublin og brunuðu beint á írskan pöbb með okkur. Þau skötuhjúin sýndu mikla gestrisni, viku úr rúmi fyrir okkur og Dónal keyrði með okkur um uppsveitir landsins, ægilega fallegt allt þar. Við keyrðum m.a.s. gegnum Hollywood, sem er aðeins öðruvísi en ég hafði ímyndað mér. Ég kom til Parísar snemma á sunnudagsmorgun og hitti vin sem keyrði með mig milli Eiffel turnsins, Sigurborgans og Hins Heilaga Hjarta og keyrði mig svo á farfuglaheimilið mitt. Líklega mæli ég ekki eins mikið með því eins og hótelinu í London. Ég lærði að það borgar sig ekkert að panta gistingu fyrirfram a.m.k. ekki fyrir mig. Ég er nefnilega lukkunar pamfíll, það er engin spurning, ef til vill klíndist þessi heppni á mig í landi lukkunnar, Írlandi. Ég nefnilega hitti yndislegan mann í fallega hverfinu við farfuglaheimilið mitt, sem var svo ljúfur að bjóða mér gistingu hjá sér eftir sjö mínútna kynni. Algjör bömmer að vera þegar búin að borga fyrir farfuglaheimilið. Ég vona bara að Jalili verði í sambandi við mig. Æðislegt að eiga kærasta í hinum helstu stórborgum.
Núna er ég í Frakklandi og eftir að hafa lifað af bílferðina frá Bordeaux til strandhússins hennar Cla þá held ég að ég lifi allt af. Lofthitinn var um það bil 40-43°c og ég átti bágt með að halda meðvitund. Sjáumst!