24.4.07

Ef ég bara nennti...

...að blogga. Ægileg bloggleti hefur lagst á mig eins og þykkt ský og ég veit ekki hvort mér tekst að blása því burt. Annars var nóg að gera um helgina og ég þurfti raunar að skrópa á stefnumót vegna annríkis. Aðalástæðan var sú að á Læssøesgade og Blegdamsvej (í húsunum sem snúa að garðinum fyrir aftan húsið) var vinnuhelgi. Þeir sem ekki vildu borga 500 DKK í sekt þurftu því að mæta og taka til hendinni í garðinum. Afrek dagsins eru ekki í frásögu færandi en það var ægilega gaman að borða svo kvöldmat með nágrönnunum í ruslatunnuportinu um kvöldið við kertaljós og hlýju frá gashitara. Áhugavert var eins að heyra sögur nágrannanna af húsinu og því sem í kringum það er. Eins og glöggir lesendur muna er útsýnið úr svefnherbergisglugganum mínum fangelsi sem tilheyrir dómshúsi sem er við hliðina á Blegdamsvejhúsinu. Þar sem mótmæli vegna ungdomshuset hafa verið afar tíð í hverfinu hef ég oftar en ekki skellt skuldina á mótmælendur þegar hávaði neðan af götu, en slíkt er raunar tíður viðburður. Nágrannakona mín skýrði aftur á móti fyrir mér um helgina að öskur ungra karlmanna ættu sér aðra orsök. Fangelsið er sem sé gæsluvarðhaldsfangelsi og heimsóknir þangað eru að sögn afar takmarkaðar. Slíkt veldur vissulega samskiptaleysi milli vina og ættingja fanga en margir þeirra hafa fundið ráð við því. Jú, þeir öskra skilaboð sín á milli. Þeir allra klókustu nota víst ljósskilaboð í þokkabót og börn nýta enn aðrar aðferðir. Téð nágrannakona sagði mér nefnilega líka frá því að í desember í fyrra hafi hún orðið vör við það oftar en einu sinni að börn stóðu fyrir neðan gluggann hjá henni og sungu jólalög fyrir pabba sinn sem sat í gæsluvarðhaldi í Blegdamsfængsel. Mömmurnar voru svo iðulega með í för að hennar sögn og hver annarri skapverri við börnin. Er hægt að hugsa sér eitthvað sorglegra?

Fleiri sögur fékk ég að heyra af fangelsinu. Karlmaður sem búið hefur síðan á áttunda áratugnum á Læssøesgade 25 lýst til að mynda heimsókn tíu mótorhjólatöffara í fangelsið. Nágrannakonan Stine lumaði einnig á fleiru skemmtilegu. Þeir sem svo þekkja mig vita að strípihneigð mín er töluverð og oftar en ekki geri ég mér enga grein fyrir því að ef ég labba berrössuð fram hjá glugga með gardínuna uppi, þá verða nágrannarnir ekki kátir. Stine sagði mér aftur á móti að fangarnir væru hæstánægðir með strípihneigða nágranna og hún hefur víst lent í því nokkrum sinnum að fangarnir hvetja hana til dáða þegar hún afklæðist í svefnherberginu. Eitthvað var stúlkunni illa við þetta og er flutt í stofuna. Nágrannarnir þeim megin geta nefnilega litið undan þegar hún strippar þar, það geta gæsluvarðhaldsfangarnir illa.

Ég gæti sagt frá bráðskemmtilegum bíltúr sunnudagsins en vegna skýsins fyrrnefnda verður slíkt að bíða. Hasta la próxima vez....