3.7.08

CISV

Á föstudagsmorgun held ég í fjögurra vikna ferð til Noregs þar sem ég mun vera fararstjóri í sumarbúðum CISV fyrir 11 ára börn. Ég held að ég hafi aldrei farið í ferð sem krefst jafnmikils undirbúnings en að sama skapi hef ég aldrei átt eftir að gera jafnmikið einum degi fyrir brottför. Það liggur við að ég fái hjartsláttartruflanir af að hugsa um það. Börnin og foreldrar þeirra hafa safnað ógrynni skiptidóts og alls kyns hluta og matar sem við munum nota til að skiptast á og eins til að gefa öllum í búðunum. Þannig er ég nánast búin að fylla eina ferðatösku af súkkulaðistykkjum, grjóti, seglum með íslenska fánanum og íslenska fánanum í öllum stærðum og gerðum. Enn á þá hellingur eftir að fara ofan í töskuna...harðfiskur, lýsisperlur, hangikjöt, flatkökur og ferðagögn. Ég verð svo þreytt af að hugsa um þetta að ég bara verð að fara að sofa.