15.2.09

Smásaga eftir systu

Þegar ég hjálpaði Siggu að flytja um daginn rakst ég á bók með smásögum sem tóku þátt í einhverri smásagnakeppni fyrir fimmtán árum eða svo. Við Sigga tókum báðar þátt og því eru sögurnar okkar til á prenti. Mín saga er alveg drepleiðinleg en Siggu öllu skemmtilegri. Leyfi því lesendum að njóta hennar. Minn uppáhaldshluti er líklega þegar þau fara að dansa og svo er lokasetningin mjög góð:

Smásaga

Einu sinni var mjög fátækur, ógiftur maður. Hann átti enga að nema frænku sem átti heima í Noregi. Dag einn var hann að labba framhjá snyrtistofu einni. Þá sá hann unga og fallega stúlku sem missti vasaklútinn sinn. Maðurinn tók eftir þessu samstundis og sagði: “Humm, fröken, þér misstuð vasaklút yðar. Gjörðu svo vel. Á ég ekki að hjálpa þér yfir götuna? Það er svo mikil umferð.” Þá sagði frökenin: “Jú þakka þér fyrir.” Og svo fylgdi hann henni yfir og á endanum hafði frökenin boðið honum að borða hjá sér. Þau fóru heim til hennar. Hún bjó í fallegu húsi á Hjallavegi. Maðurinn virti fyrir sér umhverfið. Og loks byrjuðu þau að borða. Maðurinn tók svo sannarlega vel til matar síns og varð vel saddur. Og þá sagði frökenin hressilega: “Æi komum að dansa.” Þau dönsuðu fram á nótt Og þegar maðurinn ætlaði að fara að þakka fyrir sig og fara heim, var komið alveg hryllilegt veður. Þá sagði frökenin: “Það er of vont veður til að þú getir farið heim svo að ég býð þér að gista hér í nótt.” Þá sagði maðurinn: “Nei, nei það er alltof mikil fyrirhöfn.” Og morguninn eftir fór maðurinn. Frökenin reyndi að halda honum en hann varð að fara í vinnuna. Maðurinn og frökenin, sem hétu Ívar og Anna, hittust dag eftir dag.
Dag einn fór Ívar í sund og þar hitti hann Önnu. Ívar var hissa þegar hann sá Önnu af því að hún var búin að klippa sig. Og þegar hann var kominn heim þá fór hann til Önnu. Þegar Anna kom til dyra kraup hann strax á hnén og sagði: “Ó elsku anna, viltu giftast mér?” Þá sagði Anna: “En óvænt ánægja, en svarið er JÁ.” Og þau giftust og eignuðust börn. En þá kom sorgin og Anna eignaðist sitt síðasta barn, en barnið dó. Og þau höfðu alltaf sorg innra með sér. Og svo kom að því að yngsta barnið fór að heiman. Öll hin börnin höfðu verið farin. Þá bjuggu Ívar og Anna ein.
Á gullbrúðkaupi hjónanna var þeim gefin ferð til Portúgal. Þau skemmtu sér svo sannarlega vel og þetta var alveg nýtt fyrir hjónin. En á leiðinni heim þá fórust Ívar og Anna í flugslysi. Og þar með lauk ævi góðra hjóna.