20.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 1. færsla

Það er svo gaman að eiga dagbók úr ferðalögum, svo að ég ætla að gera tilraun til að skrifa örlítið um dagana í Frakklandi. Ég hef hingað til skrifað um nokkrar ferðir á þessa bloggsíðu en nú hefur aukaferðalangur bæst í hópinn svo að líklega verður mikið skrifað um hann og hans upplifun.

Við flugum með Iceland Express að morgni 19. júlí. Eftir hryllingssögur af flugfélaginu í fjölmiðlum að undanförnu, bjuggumst við ekki við einu né neinu og gerðum nánast ráð fyrir seinkun. Seinkun varð vissulega á fluginu, líklega klukkutími eða einn og hálfur. Það gerði þó nákvæmlega ekkert til enda lá okkur ekki sérlega á að komast á áfangastað. Það kom á óvart að nóg pláss var fyrir fætur, mögulega vorum við heppin að sitja framarlega og eins var afskaplega ljúft að fá Ipad að láni endurgjaldslaust fyrir Magga og okkur. Vonum að heimferðin verði jafngóð.

Einkasonurinn hegðaði sér óaðfinnanlega alla ferðina. Þægilegri ferðafélaga er eiginlega ekki hægt að hugsa sér. Hann vaknaði þegar við héldum á honum út í leigubíl og sofnaði ekkert aftur fyrr en við vorum að lenda í París. Honum þótti afskaplega spennandi að fara í rútu en var ekki alveg nógu sáttur við að bílstjórinn var ekki með bílbelti. Hann hikaði ekki við að gera athugasemdir við það, enda eiga jú ALLIR að vera með belti, en bílstjórinn annaðhvort heyrði ekki í honum eða þóttist ekki heyra. Mikill reglumaður á ferð. Sem betur fer svaf Maggi af sér þar sem við ferðuðumst í troðfullri neðanjarðarlestinni með tugi kílóa af farangri auk kerru og eins var ég afskaplega þakklát konunni sem eiginlega píndi mig beint í sitt sæti þegar hún stóð upp, jafnvel þótt ég þyrfti að klofa yfir annað sæti til að troða mér fram hjá öðrum farþegum í lestinni. En ég vildi jú hlýða. Við komum rúmlega sjö til Orléans og við tók labbitúr til að finna íbúðina með allt draslið í eftirdragi. Það var mjög jákvætt að stytt var upp en á móti okkur hafði tekið hellidemba á flugvellinum.

Íbúðin sem við búum í hér er frekar ólík því sem við eigum að venjast. Hún er á efstu hæð í eldgömlu húsi í þröngri götu sem er víst ekki bara göngugata en lítur samt út fyrir það. Lofthæðin er svakaleg og meira að segja að hluta á tveimur hæðum. Heima hjá okkur er alveg ágætlega mikið af dóti og drasli (oft meira en góðu hófi gegnir) en hér er mínimalismi bannorð. Það er fullt af myndum og teikningum á veggjum, leikföng í nokkrum stöðum og alls konar smádót. Svo eru bækur úti um allt, í tvöfaldri röð í flestum bókahillum, á klósettinu og í bunkum á gólfinu. Þetta hljómar dálítið ýkt en þetta er eins konar skipulögð óreiða og alls ekki slæmt, bara mjög kósí og góð tilbreyting.

Maggi kann afskaplega vel við sig hér og var ekki lengi að sækja lítið hljómborð, draga það inn í stofu og setja við hljóðfæraleik. Þetta er eiginlega eins konar skemmtari svo að Maggi situr og spilar og dillar sér í takt. Engin þörf á annarri tónlist hér. Eins talar þetta einstaklega skemmtilega leikfang þegar Maggi er ekki að spila, spyr hvert hann hafi farið á frönsku. Verst að hann skilur það ekki.

Við náðum að taka okkur góðan göngutúr í dag og versla inn áður en við fórum inn aftur í hádegismat og eftirmiðdagslúr. Þegar við vöknuðum aftur ætluðum við að reyna að ná að vera aðeins úti áður en aftur myndi byrja að rigna. Það mistókst allhrapallega. Við löbbuðum vissulega heillengi um áður en demban hófst en svo festumst við eiginlega undir trjám í tómum garði og biðum eftir að rigningunni slotaði. Það gerðist ekkert. Maggi naut sín samt í botn, hljóp um allt á pollabuxum og reyndi að ákveða hvaða vagn hann myndi velja í hringekjunni þegar búið væri að opna hana. Við ákváðum á endanum að labba af stað heim en það hætti eiginlega ekki að rigna fyrr en stuttu áður en við komum heim í land eins og Maggi kallar íbúðina. Á morgun verður stuðs við norsku veðurspána og reynt að vera úti við fram að hádegi þegar byrja á að rigna að nýju.

Góða nótt!