1.5.12

31 árs í sambúð

Bækurnar Fimmtán ára á föstu og Sextán ára í sambúð eftir Eðvarð Ingólfsson komu út árin 1984 og 1985 , ekki svo löngu eftir að ég fæddist. Þær voru afar vinsælar og mikið lesnar af jafnöldrum mínum jafnvel þótt þær væru ekki nýútgefnar þegar ég var unglingur á tíunda áratug síðustu aldar. Ég man að ég hugsaði með mér líklega tólf ára gömul að það væri helst til ungt að hefja sambúð sextán ára. Ráðlagt væri að bíða örlítið lengur með slíkt. Nú er það svo að tilhugsunin ein um að vera sextán ára í sambúð er fjarstæðukennd. Það er kannski merki um breytta tíma og hugsun hversu fjarstæðukennt mér finnst núna að skrifuð hafi verið bók um sextán ára krakka í sambúð.

Ég er þrjátíu og eins árs gömul og hef búið með sambýlismanni mínum í nokkur ár. Ég þakka fyrir að ég hóf ekki sambúð að grunnskólaprófi loknu enda var ég lítið annað en krakkaormur við sextán ára aldurinn og naut þess að þurfa ekki að bera ábyrgð á öðru en sjálfri mér. Ég hefði tæplega notið þess að borga reikninga og rífast um það hver ætti að vaska upp eftir matinn. Þó er reyndar alltaf spurning hvort 31 árs manneskja hafi bætt svo miklu við sig í þroska að hún sé tilbúin í það fullorðinslíf sem sambúð og börn hafa í för með sér.

Til eru alls kyns frásagnir af lífi einhleypra kvenna sem leita ástarinnar. Þar má nefna bækur, þætti og kvikmyndir á borð við Beðmál í borginni, dagbækur Bridgetar Jones og bækur Tobbu Marínós. Það er ekki eins algengt að fjallað sé um líf para í sambúð með barn. Líklega er það ekki nógu spennandi umfjöllunarefni. Enda held ég að sambúðarlíf geri fólk örlítið leiðinlegra.

Þegar ég var barn fannst mér foreldrar mínir ofboðslega ósanngjarnir og fljótir að skammast þegar við systkinin fundum upp á einhverju skemmtilegu að gera. Þannig naut það takmarkaðra vinsælda þegar við spiluðum handbolta í stofunni eða límdum flotta límmiða á herbergishurðina okkar. Ég man líka hvað mér þótti móðir mín leiðinleg þegar hún vildi ekki gefa mér nammi, gos eða kex jafn oft og mig langaði. Á unglingsárunum fannst mér foreldrar mínir vissulega oft strangir. Frá sjónarhorni unglingsins lifðu foreldrarnir afar döpru lífi. Þeir fóru iðulega snemma að sofa og fóru nánast aldrei í bíó. Þótt mamma og pabbi færu annað slagið út og hittu vini fannst mér félagslíf þeirra minna en ekkert. Það var eins og lífi þeirra væri lokið þótt þau væru ekki einu sinni orðin fimmtug.

Nú er ég orðin móðir og er satt best að segja þrisvar sinnum verri rúmlega þrítug en mamma og pabbi voru 45 ára. Ef þriggja ára sonur minn tæki upp á því að líma límmiða á herbergishurðina hjá sér myndu hrópin í mér örugglega heyrast yfir í næstu hverfi. Sykri er haldið frá barninu eins og mögulegt er og bíó er eitthvað sem ég man varla hvað er enda telst gott núorðið ef tími gefst til bíóferða oftar en einu sinni á ári.

Föstudags- og laugardagskvöld breyta algjörlega um merkingu á fullorðinsárum. Pörum í sambúð finnst oftar en ekki huggulegra að kúra heima í sófa yfir hugljúfri kvikmynd heldur en að skella sér út á lífið. Margir foreldrar ungra barna eru þess utan svo þreyttir eftir annasama vinnuviku að þeir sofna næstum yfir kvöldmatnum og flýja svo alsælir í sófann til að horfa á Útsvar um leið og ormarnir eru komnir í ró. „Dapurleg föstudagskvöld“ myndu unglingar segja en „huggulegt“ að mati þreyttra fullorðinna.

Auðvitað er margt skemmtilegt við að vera í sambúð með manneskjunni sem er þér kærust en margt það sem fylgir er ekki eins skemmtilegt og gerir það að verkum að orka til öflugs félagslífs minnkar. Foreldrar þínir sjá ekki lengur um húsverkin. Þau eru í þínum verkahring og þeirra sem með þér búa. Reikningana þarf að greiða og til þess að geta greitt þá þarf að vinna til þess að afla fjár.

Það er kannski ekki skrítið að saga þeirra ungu kvenna sem ég minntist á hér að ofan fjalli um leitina að ástinni, sögur kvenna á borð við Bridget Jones og söguhetjanna í Makalaus eftir Tobbu Marínós. Það er ekki eins mikið sagt frá því þegar ástin er þegar fundin og það er eins spurning hvort Carrie og Bridget geri sér grein fyrir hvað þeirra bíður. Við fáum takmarkað að njóta lýsinga á því. Það yrði kannski of leiðinlegt að fylgjast með Carrie og Herra stórum kúra fyrir framan sjónvarpið og vakna snemma til að fara með smábarnið í sund. Það er heldur varla tilviljun að hvorki Carrie né Bridget eru sextán ára. Ætli það sé ekki langtum betra að vera fertugur í sambúð? Ég skil í hið minnsta ekkert hvað Eðvarð Ingólfsson var að spá.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

______________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.