25.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 5. færsla

Dagurinn í gær var fyrsti dagurinn sem var alveg rigningarlaus og raunar var ekki einu sinni skýjað. Það var samt enginn svakalegur hiti en mjög gott þegar sólin skein. Þetta passaði vel við plön dagsins, þ.e. að fara í dýragarð í um það bil eins og hálfs tíma fjarlægð, dýragarð sem heitir ZooParc de Beauval. Maggi hafði suðað nokkrum sinnum á dag að hann langaði í dýragarð: Ég mig langar í dýragaaaarð og tími var kominná að uppfylla þá ósk.

Beauval-dýragarðurinn er svakalega flottur, risastór og þar af leiðandi frekar mikið pláss fyrir dýrin. Það magnaðasta var líklega girðingin þar sem gíraffa, nashyrninga, sebrahesta og antilópur var að finna. Allt svo tignarleg og flott dýr, nashyrningurinn líka. Maggi var hrifinn af flestu en mörgæsirnar, aparnir og kannski gíraffarnir nutu aðdáaunar hans umfram önnur dýr. Hann reyndar gerðist sekur um brot á reglum dýragarðsins, reglufylgjandi móður hans til mikillar gremju. Við fórum tvö inn í litla girðingu þar sem hægt var að labba eftir göngustíg og klappa og koma nálægt geitum, smáhestum og öðrum húsdýrum. Meðfram göngustígnum var eins konar girðing sem Maggi skreið undir og hljóp góðan hring á grasflötinni. Þá voru góð ráð dýr, ekki komst Jónas að sækja hann (annars hefði ég pottþétt sent hann) svo að ég neyddist til að skríða undir girðinguna og sækja orminn. Það má taka fram að hann skammaðist sín mikið eftir að útskýrt var fyrir honum hversu óleyfilegt þetta væri.

Á leiðinni heim ákváðum við að keyra ekki hraðbrautina heldur keyra eingöngu gegnum bæi og þorp. Það var svakalega gaman. Það eru margir flottir bæir á þessari leið, t.d. Contres og St. Aignan. Hefði kannski verið gaman að stoppa þar eða í einhverjum kastalanum en orkuleysi háði okkur eftir marga klukkutíma í dýragarðinum. Eftir kvöldmat heima í landi skelltum við okkur út í hjóla- og labbitúr. Fyrst fór Maggi á lítið hlaupahjól en það var frekar erfitt að hjóla á því á hellulögðum götum Orléans. Því fannst honum ekkert tilvaldara en að við pabbi hans ýttum honum, ekkert sérstaklega þægilegt þar sem um mjög lágt hlaupahjól var að ræða.

Nú er ferðinni heitið út í von um að ná að labba aðeins um og borða Crêpes áður en fer að rigna af krafti. Ætli einhvers staðar sé hægt að fá rúðuþurrkur á sólgleraugu?