28.4.04

Nú, meira en nokkurn tímann, er ég viss um að ég sé engin íþróttastelpa. Lengi hefur staðið til hjá mér að byrja í líkamsrækt. Ég setti mér það takmark fyrir löngu síðan að byrja þegar Laugar myndu verða tilbúnar, svo rann sá dagur upp, allt of snemma, og ég ákvað að fresta ræktinni aðeins. Ég ætlaði mér svo nokkrum sinnum að fara en ekki varð úr fyrr en um helgina að ég keypti kort á tilboði hjá Baðhúsinu. Að sjálfsögðu byrjaði ég með trompi, strax á sunnudag skelltum við systir okkur í Sporthúsið þar sem við skelltum okkur aðeins á hlaupabretti og þrekhjól, kíktum á tækin og enduðum þetta svo með skvasstíma. Það var hressandi en daginn eftir leið mér eins og vörubílstrukkur hefði keyrt yfir mig. Engu að síður ákvað ég að standa við plön mín og fór í leikfimitíma í Baðhúsið daginn eftir. Það var á mánudaginn. Núna er miðvikudagskvöld og ég finn enn þá mjög vel fyrir harðsperrunum sem ætluðu mig að drepa í gær. Ég gat varla gengið. Svo talar fólk um hversu hollt það sé að fara í líkamsrækt...