3.5.04

Í gær uppgötvaði ég nýja hetju, John Doe. Ef þið vitið ekki hver kauði er þá mæli ég með því að sleppa djamminu næsta föstudagskvöld og halda sig heima og horfa á Skjá einn klukkan 21. Þá hefst þessi merki þáttur. John Doe er enginn venjulegur maður. Hann er maður sem ekki veit hver hann er, uppruni hans er honum jafn óljós og...svart. Hann virðist sem sé hafa gleymt því hvaðan hann er og hver hann er, tengist ef til vill því sem sést í kynningunni, hann nakinn að detta í vatn. Get ekki útskýrt það nánar. Það sem gerir John svona frábæran að mínu mati er samt ekki fegurð nakins líkama hans, (þótt hann sé alls ekkert umkvörtunarefni) heldur sú rosalega vitneskja sem hann býr yfir. Hann veit svo mikið og er svo fljótur að hugsa að lögreglan leitar til hans í erfiðum málum, og hann þarf ekki annað en að líta á lík og þá getur hann sagt til um dauðastundu, hvernig viðkomandi var drepinn (til að mynda hvort hann var dáinn áður en hann var smurður) og svo framvegis. Einnig er hann skemmtilegur í frítíma. Þegar hann fer á bar byrjar hann ekki að spjalla um veðrið eða álíka leiðinlega hluti eins og Jón Jónsson myndi gera. Nei, John Doe kemur með fræðslumola. Til að mynda segir hann stúlkunni sem hann situr með að til að búa til hnetusmjörskrukku þurfi að meðaltali 500 hnetur og svo spilar hann á píanó. Ekki þarf að taka fram að maðurinn virðist jafnfær á öll tungumál, talar hann a.m.k. tungu Víetnama af hinni mestu snilli. Kannski hefði ég betur sleppt því að skrifa um John hér. Nú munu kvenkyns lesendur bloggsins þyrpast að John og veita mér samkeppni, hugsandi til þeirra ljúf fróðlegu kvölda sem þær geta átt með honum, spjallandi á íslensku. John Doe rúlar!