16.6.07

Upplýsingaskyldu sinnt

Ég hefði mátt vita að gort mitt á síðum veraldarvefsins myndi ekkert nema slæmt hafa í för með sér. Núna rignir eins og hellt sé úr fötu og hefur gert í nánast allan dag. Á slíkum dögum er auðvitað ekkert hægt að gera annað en að hanga heima. Ég tók slíkt með trompi. Vaknaði kl. 12:30 eftir tólf tíma svefn og hef ekkert gert annað í dag en að labba út á pítsastað í fæðisleit(áður hafði ég kannað alla möguleika á heimsendum mat en Domino's sendir ekki í mitt hverfi). Ég var því þakklát þegar Oliver hringdi og tilkynnti komu sína í Læssøesgade, hér verður sushi í kvöld ásamt opalskotum og pönnukökum.
Heimkoman er öll að skýrast. Ég mun vinna aukaviku í sendiráðinu og halda svo í vikufrí við Adríahafið. Allt lítur svo út fyrir að við Jónas munum fljúga heim, Feneyjar - London - Keflavík, sunnudaginn 5. ágúst. Ég er búin að fá vinnu á gömlum slóðum og er raunar nokkuð spennt fyrir því. Eins komst ég inn í mastersnám við Háskóla Íslands sem ég sótti um, og stefni því að því að taka eins og tvö fög meðfram vinnu ef slíkt er mögulegt Nóg verður því eflaust að gera. Húsnæðismál eru raunar nánast komin á hreint, aðeins á eftir að skrifa undir leigusamning. Mér myndi sjálfsagt líða illa yfir því hvað þetta er allt saman ofurskipulagt, en sem betur fer er miðinn heim enn óbókaður. Gott að hafa örlitla óreiðu í lífinu til að halda geðheilsu, ekki satt?