22.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 3. færsla

Magnús hefur lært nýjan sið hér í Frakklandi af stráknum sem við sáum á kínverska staðnum, það er alveg augljóst. Í dag fórum við í nýja hringekju og þegar ég segi drengnum að þakka fyrir sig (segja merci) grípur kappinn í höndina á hringekjustjóranum og ropar út úr sér einu stykki af merci. Sagan endurtók sig svo þar sem við fórum að borða, nema hvað að starfsmaðurinn þar vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við þessu undarlega barni.

Annars tókst okkur að heimsækja garð Louis Pasteur - sem er svakalega flottur - og skoða dómkirkjuna hér í dag. Dómkirkjan er falleg bygging og þar inni voru alls konar gripir til sýnis, mögulegt að kveikja á kertum og eins voru myntir með ásleginni mynd af kirkjunni til sölu. Ég man hvað mér þótti svona myntir flottar þegar ég fór til Frakklands fyrir um það bil tíu árum. Sigga keypti fleiri en eina svona mynt og gott ef ég splæsti ekki líka í svona. Alveg frábært að eiga í minjagripasafni - eða ekki. Magnús var heldur hávær í kirkjunni enda var hann að leita að Séra Jóni. Ég er ekki alveg pottþétt á því hvern um var að ræða en eftir miklar vangaveltur höfum við komist að því að hann sé að leita að prestinum í Grænadal, þ.e.a.s. Reverend Timms úr Póstinum Páli. Líklega er hann kallaður Séra Jón í íslenskri þýðingu. Því miður var leit Magnúsar árangurslaus, enginn prestur lét sjá sig í kirkjunni - kannski sem betur fer, en það er alveg ljóst að hann gaf ekkert eftir við leitina.

Síðdegis fór að rigna svo að við hálffestumst uppi í íbúð, dottuðum, lásum og Magnús reyndi að finna sér dót að eyðileggja. Svo lásum við að sjálfsögðu um voðaverkin í Noregi, mjög sorglegt allt saman. Við skruppum reyndar út nálægt kveldi til að kaupa vatn, og þar reyndi á málleysið. Afgreiðslukonan reyndi að segja eitthvað við okkur (annað en takk, gjörðu svo vel og bless) en ég skildi ekki bofs. Fúlt, fúlt. Verkefni kvöldsins eru svo púsl sem eru svo hrikalega erfið að ég gafst upp. Það vantar alveg afþreyingu fyrir fávita hér í hús. Allt hérna er hugsað fyrir hugsuði, sem sé ekki fyrir okkur. Góða nótt!