15.12.03

Ég fékk svolítið nýja sýn á lífið eftir að ég datt í mjög áhugaverð Verublöð heima hjá Eddu núna um helgina. Þar las ég nokkrar greinar og skoðaði og tókst jafnvel að eignast minn eftirlætisdálkahöfund í blaðinu, Guðrúnu Guðmundsdóttur (held ég fari rétt með). Hún skrifar um feminískt uppeldi í blaðinu, um dóttur sína sem er þrettán ára og fær ekki að mála sig nema við sérstök tilefni (mömmunni líður hræðilega að horfa á hana í því ástandi), má ekki ganga í G-streng (undirgefni við karlmenn og aðeins leyft ef daman hyggst starfa við súlunudd á Óðal) og ef hún ætlar að horfa á Popptíví, sem hún reyndar fær bara leyfi til í eina klukkustund á dag, verður hún að setja upp feminístagleraugun. Stelpuhróið má samt ráða því sjálf hvort hún reykir. Hún verður jú að fá að taka sjálfstæðar ákvarðanir. En þessi nýja sýn mín snýst um það að ég held að ég sé kannski dálítill feministi. Jú, ég mála mig jú ekki til að uppfylla fegurðarnormin sem þjóðfélagið setur. Ég horfi helst ekki á Popptíví, reyndar bara af því að mér finnst það ekki sérlega skemmtileg og vegna þess að ég er ekki dyggur sjónvarpsaðdáandi. Í þokkabót þá geng ég aldrei í G-strengsbuxum, mér finnst þær afskaplega óþægilegar. Kannski ég ætti að gerast meðleg í Feministafélaginu...kannski ekki, ég fór jú í háreyðingameðferð á leggjum í gær. Það er eflaust ekki vinsælt.