20.7.05

Á íslensku fyrir þá sem kvarta og kveina

Jæja, ég ákvað að segja frá í stuttu máli um hvað síðasta færsla fjallaði. Þar talaði ég nefnilega um fund okkar Gaels García Bernal og þakklæti mitt í garð móður minnar. Svo var það nefnilega að ég var stödd niðri í Norræna félagi fyrir nákvæmlega viku síðan, þegar móðir mín hringdi í mig og sagði mér að hlaupa niður á Café Oliver að sjá Gael. Til að gera stutta sögu enn styttri, þá fór ég þangað sá manninn, féll í stafi en þorði ekki að tala við hann. Og nú er ég mömmu ævinlega þakklát fyrir að vera svona glögg að þekkja hann og að hafa hringt í mig og sýnt þessu áhuga sem grúppía hefði verið stolt af. Þetta virðist ætla að verða mikið frægumannasumar. Fyrst talaði ég við Viggo Mortensen í símann, svo sá ég Gael og um helgina glytti aðeins í Björk úr leigubílnum sem hún sat í. Sá hana samt illa, viðurkenni það.
Annars er ég glöð að sjá veðrið batna örlítið, þótt ekki hafi ég svo sem kvartað og alls ekki þótt það jafnslæmt og fólk vildi meina. Reyndar sit ég inni á skrifstofu allan daginn en það er fínt að geta sest út til að borða hádegismatinn og sleikja sólina örlítið. Vonandi verður veðrið jafngott um helgina þegar við Freyja, og mögulega einhverjir fleiri, förum út í Sviðnur að stunda þrælavinnu.