16.7.05

Vöknuð

Ég er farin að halda að síminn minn sé með vírus, og að þetta sé vírus sem gengur. Þegar sprengt var í hverfinu mínu í maí og ég reyndi í ofboði að ná í Evu og Jordi, sem voru heima, sagði Jordi mér að síminn hans hefði látið á hálfklikkaðan hátt. Hann hringdi í sífellu án þess að nokkur maður væri að reyna að hafa samband við hann og ekki var hægt að slökkva á þessu. Reyndar tókst það á endanum og sama var hjá mér í morgun. Klukkan tíu í morgun sendi Freyja mér sms, sem ég vaknaði við en í kjölfar sms-ins heyrðist ískurpíp úr símanum mínum. Ég vissi ekkert hvaðan þetta hljóð kom, enda úldin í morgunsárið, en eftir að hafa útilokað möguleikan á loftvarnarflautum (ég panikkaði örlítið) og hlustað eftir hljóðum úr tölvunni minni og öðrum nálægum raftækjum, áttaði ég mig á því að þetta var síminn. Ætli Vodafone séu með svona trikk svo að viðskiptavinir þeirra vakni snemma og hafi þar með meiri tíma til að hækka símareikninginn? Ég er að minnsta kosti nokkuð viss um að ég hef ekki áhuga á að eiga slíkan vekjaraklukkusíma enda algjörlega óeðlilegt að vera á fótum svona snemma morguns á laugardegi.