2.9.05

Matarást

Ónefndur vinur minn er orðinn frægur á vinnustaðnum mínum þó svo að enginn hafi hitt hann enn þá. Aldrei er þó að vita nema vinnufélagar mínir krefjist þess að fá að hitta pilt, enda var hann umtalaður eftir að ég lýsti máltíðinni sem hann eldaði í gærkvöld. Í forrétt fengum við snigla í sveppum og gómsætt hvítlauksbrauð en aðalrétturinn samanstóð af nautasteik með sveppum, bakaðri kartöflu, dijonsinnepi, heimagerðu hvítlaukssmjöri og salati með furuhnetum. Eftirrétturinn toppaði þetta samt allt saman (erfitt en mögulegt, það sannaði gestgjafinn): búðingur með hvítu súkkulaði og afar ljúffengu pistasíusýrópi. Í morgun hélt ég að ég myndi ekkert borða aftur þessa helgina, ég var háleftir mig eftir allt átið.

Svo að ég ræði annað þá hefur mikið verið talað um það í fjölmiðlum hversu mikill skortur sé á vinnuafli í hinum ýmsu þjónustugreinum. Leikskólarnir eru fullir af börnum en ekkert starfsfólk og á kaffihúsum og í sjoppum afgreiða eigendurnir. Ég setti atvinnuumsóknina mína á tvær vefsíður í síðasta mánuði, enda var ég ekki alveg viss um hvað ég myndi taka mér fyrir hendur með haustinu (ekki alveg viss enn þá raunar). Síðan þá hef ég fengið símtöl frá nokkrum stöðum þar sem ég er beðin að koma í viðtal, þó svo að ég hafi ekki sótt um nein störf sérstaklega. Það finnst mér ótrúlegt. Ég er eiginlega hætt að svara neinum símtölum fyrr en ég hef kannað áður hvaðan hringt er. Maðurinn sem bankaði á dyrnar hérna í Haðalandinu, þar sem ég er að passa, virðist ekki hafa áttað sig á manneklunni á vinnumarkaðnum. Sá kveðst vera nemi hér á landi og selur handgerðar blómamyndir til að standa straum af námi sínu á klakanum. Þetta var í annað skiptið sem hann reynir að selja mér svona myndir, hann kom um daginn þegar ég var hjá ömmu, en í þetta skiptið virtist örvæntingin ná að fylla hann, hann bað um smápeninga þegar ég afsakið mig með að geta ekki keypt. Er þetta fyrsta stig betls hér? Greyið pilturinn ætti að skjótast út á Pizza Hut og sækja um vinnu.