14.11.06

Brjáluð

(skrifað á sunnudaginn)
Það er líklega einhver blanda af ógeðfelldum draumum, afbrýðissemi, reiði, magapínu, reykingahatri, skorti á samfelldum svefni og almennri skapvonsku sem veldur því að ég hef verið hræðilega óskaplega skapvond í dag. Ástkærir íbúðarfélagar mínir héldu fyrir mér vöku milli klukkan 6:00 og 7:30 með öskrum og tali á ýmsum tungum. Krakkarnir fengu nefnilega gesti. Ef ég hefði ekki verið föst við rúmið mitt vegna svefnsýki og eins vegna vopnaleysis, þá hefði ég líklega rokið fram og lamið þau öll með sveðju. Ekki varð úr slíku og í dag er ég bara hér á Tjarnargötunni en ekki á Litla Hrauni. Fýlan hefur þó ekki aðeins slæmar afleiðingar. Vissulega hef ég hrakið frá mér fólk í allan dag, en á móti kemur að ég ryksugaði ganginn (að hluta til vegna þess að ég vildi pirra krakkana með hávaða - að hluta til vegna þess að ég þurfti að losa orku), þreif herbergið mitt aðeins og henti drasli. Svo tók ég skyndiákvörðun og pantaði flug til Kóngsins Kaupmannahafnar. Nú er sem sé planið að halda utan 9. janúar 2007. Húsnæðisleitin gengur þó ekkert, og bætir ekki í mér skapið. Líklega verð ég þekkt sem starfsneminn sem bjó allt sitt vinnutímabil á hosteli.
Gærkvöldið var annar sæmilega skemmtilegt. Við fengum Danina í heimsókn og haldin var heljar mikil veisla á Óðinsgötunni. Almenn gleði ríkti, og öl og vín flæddi. Kannski ekki viðeigandi á vinnustaðnum. Besta stund kvöldins var þó eflaust þegar klósettið stíflaðist og ég rak handlegginn á kaf niður í leiðslurnar, skvetti klósettvatni utan í allt og alla (mig auðvitað líka) en tókst að lokum að leysa vandamálið. Eftir miðnætti var svo haldið með hópinn á skemmtistaðinn Hressó, og ég kíkti þangað, vonandi í síðasta sinn. Á Hressó spyr maður sig hvert æska landsins stefni. Fyrir utan auðvitað að hlusta á hræðilega tónlist, þá virðist dansinn farinn að líkjast klámdanspíudansinum á MTV. Stúlkur dilla mjöðmunum létt, stífar, um leið og þær strjúka á sér brjóstinn meðan aðrar reyna að lokka athygli pilta með því að kyssa vinkonu og káfa á henni. Og þetta voru EKKI samkynhneigðar stúlkur, ég get svarið fyrir það. Það leið ekki langur tími þar til ég flúði þennan skemmtistað ef skemmtistað má kalla. Kveðjur frá Ölmu jákvæðu.