5.11.06

Nýtt blogg eða ekki?

Miklar vangaveltur hafa farið fram í þykku höfði mínu að undanförnu um hvort rétt sé að sækja um skilnað við blogger.com eftir nokkuð farsælt fjögurra ára samband. Erjur og vandamál hafa komið upp að undanförnu, og engin lausn verið sjáanleg. Ég íhugaði framhjáhald (almalabama.blog.is), en sá svo að ef til vill er gamli góði blogger bara bestur. Því leita ég sátta við blogger og vona að samband okkar verði farsælt.
Í gær ákvað ég á síðustu stundu að ganga gegn nauðgunum (var eiginlega hætt við vegna veðurhávaða en þegar ég kom út var blíðviðri) og brunaði upp á Hlemm. Mæting var nokkuð góð, og gangan fór vel fram, þótt ungir menn á leið á djammið hafi gengið samhliða og spurt hvort þetta væri ganga gegn hórum. Þegar heim var komið, í fötum útötuðum í kertavaxi, var íbúðin að fyllast af fólki, sem fagnaði/syrgði heimför Paolos, sambýlings, sem heldur heim til Ítalíu á morgun. Við kíktum svo á Kúlturakaffihúsið og skemmtum okkur vel, en morguninn var helst til erfiður. Ég er farin að halda að aldur minn leyfi ekki skemmtistaðadvöl fram eftir nóttu, svo þreytt hef ég verið í dag. Það reyndi svo á að fara út úr húsi til að fagna afmæli Elsu frænku (elsku, Elsa mín, til lukku með daginn á morgun!) að ég hef haldið mig í rúminu síðan lurkum lamin. Dagar ungæðisins eru liðnir.