25.3.04

Ég er alvarlega farin að halda að ég sé gömul! Fyrir nokkrum vikum síðan fóru merkin að sjást. Jú, ég fór nefnilega að skoða piltana kringum mig. Ólíkt dömunum þá virtist sem svo að allur karlpeningur væri á góðri leið með að verða nauðasköllóttur. Nú þarf vitanlega ekki að taka fram að ég er að ýkja mjög en engu að síður þá þótti mér það áberandi hversu há kollvik menn á mínum aldri voru með, hvert sem ég leit byrjaði hárið lengst uppi á kolli. Ég hætti svo að hugsa um þetta en aftur á Saunaexpressen fór ég að vanda að skoða hitt kynið (Danina) og varð aftur vör við lítið hár. Enn reyndi ég að leiða hugann að öðru og gleyma þessu og afsakaði mig svo að þessir drengir væru ábyggilega ekki drengir heldur karlmenn nýskriðnir á fertugsaldurinn. Heldur hljóp ég á mig með þeirri ákvörðun, kom vitanlega í ljós að flestir voru þeir á mínum aldri, einn eitt táknið um elli mína. Afmælisdagurinn rann svo í garð, árin orðin 23 og Eva hóf að minna mig á hversu ógeðslega gömul ég væri orðin. Kornið sem fyllti mælinn var samt tungumálanámskeiðið í vikunni. Þar eru nokkrir ungir piltar og eins stelpur sem ég hugsaði með mér að væru á mínum aldri. Óneeeii, svo var nú ekki. Einn liðurinn í tungumálakennslunni var að segja til aldurs og kom þá ekki í ljós að piltarnir þarna voru sextán og sautján ára og margar stelpnanna á sama aldri. Ég held að ég hafi verið þriðja elst í 20 manna hópi. Ég var sex og sjö árum eldri en flestir þarna inni!!!!!!! Og á næsta ári á ég tíu ára fermingarafmæli. Hjálpi mér allir...