28.3.04

Helgin mín var heldur dapurleg. Ég sá mjög fáa fræga þrátt fyrir að hafa verið að vinna allan laugardaginn. Ég bað stjórann í búðinni að leyfa mér að vera bæði á föstudag og laugardag í næstu viku til að reyna að herða mig í keppninni. Held ég verði líka að fara á djammið, sé nefnilega núna að það er lítið streymi frægra hingað á Kleppsveginn á föstudag- og laugardagskvöldum!!
Ég ákvað nefnilega að halda mig heima þessa helgi og flytja milli herbergja. Þetta reyndist talsvert meira verk en ég hafði haldið og því enduðu bæði kvöldin með því að ég lak í rúmið uppgefin af þreytu. (innskot ritstjóra: ýkjur) Annars vaknaði með mér pæling á laugardagskvöldið þegar ég reyndi að setja saman afmælisgjöfina frá pabba og mömmu, skáp úr IKEA: Hversu mörg hjónabönd ætli hafi rofnað vegna samsetningarvandræða á IKEA-mublum? Ég er handviss um að þau séu þónokkur. Sem betur fer á ég engan mann og ég plataði Evu bara til að hjálpa mér örlítið og vera þess á milli andlegur skemmtari. Þetta reyndist engu að síður hálfmannskemmandi. Ein skrúfan var of þykk í agnarlitla gatið sem henni var ætlað og það gekk ekki að setja hurðirnar á skápinn. Á endanum bað ég pabba að hjálpa mér aðeins en ég var orðin svo pirruð að ég hálfurraði á hann og gafst upp á endanum. Samt gerði pabbi auðvitað ekkert af sér. Ég velti bara fyrir mér hvernig fari með nýgifta ástarhnoðra sem ákveða að kaupa sér ný húsgögn í litlu íbúðina sína og eyða helginni í að setja saman húsgögnin sem koma í þessum líka handhægu flötu umbúðum. Þetta fólk ábyggilega drepur hvort annað. Niðurstaða mín er sú að það ætti að standa á flötu pökkunum að heppilegast sé að skrifa: Vinsamlegast vinnið ekki að samsetningu í pörum! Ég er reyndar sátt stúlka í dag, enda í nýju flottu herbergi með fallegan skáp sem stendur samansettur upp við einn vegginn og með Hulk uppi á honum. Get ég annað en verið kát?