4.11.05

Lilla bebí II

Það er gott að vera ungur í anda, en líklega enn betra að vera unglegur í útliti. Er ekki enn þá betra að vera barnalegur? Stundum efast ég en ég er hrædd um að það þýði orðið ekkert fyrir mig annað en að líta það bara jákvæðum augum. Í febrúar fór ég í atvinnuviðtal og eftir dágóða stund, auk þess sem atvinnurekandinn skoðaði starfsferilskrána mína (með öllum upplýsingum um stúdentspróf, háskólanám og annað) spurði hann mig hvort ég væri ekki örugglega á svipuðum aldri og dóttir hans, 16-17 ára. Áðan var ég í bókasafninu og ætlaði að fá mér skírteini. Starfskonan var nú ekkert á því að það væri góð hugmynd fyrir mig að fá mér skírteini en lét þó undan að lokum. Samt passaði hún sig á því að spyrja mig að aldri, mér til mikillar undrunar. Ég ákvað að kanna á heimasíðu bókasafnsins hverju aldur skipti máli varðandi skírteini. Það kom jú í ljós, átján ára og yngri fá skírteinið ókeypis og eins eldri borgarar. Þar eð hrukkurnar í andlitinu og gráu hárin eru ekki í sérlega miklu magni, þá geri ég ráð fyrir hinu fyrra. Allt að sex árum yngri, ekki slæmt það. Ætli ég haldi þessu unglega útliti fram á efri ár? Verð ég daman sem lítur út fyrir að vera tuttugu árum yngri, alveg eins og lýtalæknuðu konurnar í Hollywood? Nú er bara að krossa fingur og vona.