7.11.05

Slæmur endir eftir góða byrjun

Eftir geysilega skapvonsku allan laugardaginn tók ég gleði mína á ný og skellti mér með Öspinni og síðar Ingupingu, á tískusýningu sem var hluti af Unglistarhátíðinni. Það var ósköp gaman, og ekki leiðnlegri stundin í Þingholtsstrætinu og við dans á Hressó. Eftir það fór að síga á ógæfuhliðina. Skilaboð frá manni sem var reiður mér fyrir að vera skuggakona komu mér í vont skap sem ekki einu sinni grjónagrautnum á Ara í Ögri tókst að sleikja úr mér. Ég hélt engu að síður áfram göngunni upp Bankastrætið og skelltum við okkur í smádans á Kaffibarnum, þar til ég ákvað að vera skynsöm stúlka og hélt heim á leið. Eða svo hélt ég. Ferðin niður að leigubílaröðinni gekk ekki sem allra best. Ég gekk fram hjá ungpiltastóði sem hrópaði að mér ,,ekki detta! ekki detta!" þar sem ég gekk á sleipum gullskónum mínum yfir hálkublettina á Lækjargötunni. Ekki þarf að spyrja að því að ég datt beint á rassinn, þrátt fyrir að hafa vandað mig mjög við gönguna, drengaulunum til mikillar ánægju. Mér þótti það ekki eins fyndið at the time og ekki fannst mér leigubílaröðin heldur fyndin. Leigubílstjóranum mínum (45 mínútum síðar) fannst það samt afar fyndin hugmynd hjá mér að hringja á leigubíl frá Hótel Holti til að þurfa ekki að bíða í röðinni. Ég hefði haldið að menn í þessum bransa þekktu öll ráðin...