3.3.04

Jæja, nú ætla ég að reyna að skrifa nokkrar línur um ferðina. Það gerðist samt eiginlega allt of mikið til að ég geti skrifað um allt. Reynum samt að byrja:
Miðvikudagur, 25. febrúar:
Við Elías lögðum af stað allt of snemma eftir svefnlitla nótt. Það virðist vera regla hjá mér orðið að sofa ekkert nóttina fyrir flug og þar af leiðandi langar mig helst til þess að skjóta mig þegar vekjaraklukkan baular á mig í morgunsárið. Flugið gekk reyndar vel og mér tókst að sofa nánast alla leiðina. Við höfðum nokkra klukkutíma í Stokkhólmi. Ég reyndi að sýna Elíasi um en rataði ekki neitt. Reyndar rambaði ég á konungshöllina en þurfti að horfa á hana í langan tíma áður en ég staðfesti að um höllina væri að ræða. Við hittum svo Jonas sænska og fórum með honum á kaffihús og skoðuðum ljósmyndasýningu undir yfirskriftinni SPÁNN, mjög áhugavert. Alltaf gaman að hitta Jonas unga. Eftir að hafa dregið ferðatöskurnar um snjóinn í Stokkhólmsborg til að komast að höfninni og mæta aðeins of seint, hittum við danska hópinn og Norðmanninn og Svíana sem þeim fylgdu. Nokkrir myndarmenn með í hópnum. (lofaði að tala um sæta stráka). Kvöldið á bátnum var afskaplega fyndið. Við blönduðum aðeins geði við hópinn en fórum svo upp á diskótekið þar sem fjöldann allan af innflytjendastrákum á þörfinni var að finna. Ég hef satt best að segja aldrei séð annað eins. Eftir nokkur góð dansspor fórum við þreytt í háttinn í ogguponsulitla klefanum okkar.
Fimmtudagur, 26. febrúar:
Aftur þurftum við að vakna of snemma og skipta um fararkost. Við tókum nefnilega lest frá Turku til Tampere. Í Turku var allt snævi hulið og satt best að segja dálítið fallegt um að lítast. Danirnir byrjuðu strax í snjókasti, nokkuð sem þeir áttu eftir að halda áfram með það sem eftir lifði ferðar. Ég setti upp terroristahettuna og reyndi að sofa í lestinni og var ögn úldin þegar á leiðarenda var komið. Eftir langa gönguferð á hostelið þar sem línuskautahjólin undir ferðatöskunni voru reynd til hins ýtrasta, komum við okkur fyrir. Ég deildi herbergi með dönskum hrakfallabálki, tveimur íslenskum stelpum og tveimur Finnum. Það fyrsta sem við gerðum í Tampere var að heimsækja Hesburger, sem er nokkurs konar McDonald´s Finnlands. Ég er nú ekki svo hrifin af McDonald´s en jafnvel enn þá lítt hrifnari af Hesburger. Við fórum svo upp í mjög háan turn þar sem við gátum séð yfir alla Tampere-borg, eða hefðum að minnsta kosti átt að geta séð hefði skyggnið ekki verið slæmt. Danirnir héldu áfram í snjókasti. Um kvöldið fórum við í fyrsta gufubaðið. Þar var möguleiki á að baða sig í eins konar vök, fremur svalt. Það tók mig um það bil fjórar eða fimm tilraunir að dýfa mér alveg ofan í vatnið, fyrst dýfði ég tánum ofan í, svo óð ég upp að hnjám og á endanum smellti ég mér ofan í upp að höfði. Íííííííískalt! Þetta sama kvöld lékum við líka ýmsa leiki, reyndum að raða okkur upp í stafrófsröð og svo eftir augnalit, frá ljósasta að dekksta. Ég var með þriðju dekkstu augun á eftir tveimur af asískum uppruna. Mamma, ertu viss um að ég sé með íslensk augu? Varstu að dilla þér með Chi Vang?
Föstudagur, 27. febrúar:
Eftir morgunmat var ferðinni heitið á listasafn þar sem við skoðuðum finnska list frá ýmsum tímabilum. Nokkuð áhugavert barastað. Við vorum hreint og beint annað fólk menningarlega sem fór í gufubað rétt um hádegisbil. Saunan sem við heimsóttum í það skiptið var hreint út ekki slöpp, þetta var sú elsta í bænum, ef ég skildi rétt. Að sjálfsögðu varð heldur heitt í kolunum þarna inni svo að nokkrar stúlkur tóku til við að dreifa huganum með því að lemja hvor aðra með trjágreinum (!?!?!) en okkur Íslendingunum þótti það heldur skrítinn siður og fórum því frekar út og veltum okkur upp úr snjónum á heldur efnislitlum baðfötum. Rooosagaman! Svo kom líka blaðamaður sem jók enn frekar á frægð mína í Finnlandi. Hann tók myndir af mér í snjónum og svo tók hann líka viðtal sem birtist í finnsku dagblaði daginn eftir. Sem betur fer birti hann ekki strípilingamyndina af mér, bara aðra litla, heldur mynd af Brian strípihneigða frá Danaveldi og svitakettinum. Það var dálítið fyndið að sjá viðtal við sjálfan sig sem maður skildi ekki. :) Við borðuðum svo á víkingaveitingahúsi og eftir það fengum við um það bil 40 mínútna frítíma, sem ég eyddi ekki í neina vitleysu. Rokið var í H&M og á 20 mínútum tókst mér að máta og kaupa þrjár flíkur. Nokkuð vel af sér vikið það, ekki satt? Næst á dagskrá voru snjóleikir, við fórum í e-n sérfinnskan leik sem ég man ekki hvað heitir en fól í sér að kasta trékylfum í litla trjáhnulla. Nokkuð gaman! Enn skemmtilegra var samt að renna sér á snjóþotu niður mjööög bratta brekku. Nánast án undantekninga hélst maður ekki á þotunni niður alla brekkuna....rooooooosastuð! Kvölddagskráin samanstóð af áti, barferð og dansiballi. Dansað var dátt við ljúfa tóna sem kallaðir voru fram af miðaldra manni klæddum silfurlituðum jakka og með dökk sólgleraugu. Ekkert út á störf hans að setja en kannski dálítið skrítið að spila alltaf einhver helvítis vangalög á tuttugu mínútna fresti. Fólk varð bara væmið og dramatískt. Ætti að banna svona lagað.
Laugardagur, 28. febrúar:
Fúff, það var ekki ljúft að vakna til að fara á fund. Mér leið vægast sagt ekki vel eftir svefnlitla nótt og maginn á mér sneri öfugt. Við héldum engu að síður á fundarstað, Fredrik húmorsgóði, Brian strípilingur, Mikkel fjölþjóðlegi og ég og þar hittum við hina fundargestina, Freyju og nokkra Finna. Fundurinn var ágætur, en hádegishléið betra. Við fórum á ægilega fínan veitingastað og ég borðaði bærilega kjúklingakássu, sem læknaði næstum því magavandamál mín. Ég var satt best að segja frekar fegin þegar fundinum lauk um hálffimmleytið, ég var alveg dottin út og hætt að skilja sökum þreytu og tungumálavandkvæða. Ferðinni var næst heitið í saunu þar sem borða átti pizzu og fara í saunu. Hvort tveggja mistókst hjá mér. Pizzan mín kom ekki svo að ég fór með Miika hinum frábæra og Minnu múmín að kaupa pizzu, kom allt of seint til baka til að ná stelputíma í saununni og endaði svo bara á því að spjalla við aðra saunulata fram eftir kveldi. Á endanum fór ég svo heim á hótel með Norðmanninum, Freyju og Mikkel, við komum við á bar og fórum svo heim að spjalla...ég held ég hafi sofnað yfir spjallinu....
Sunnudagur, 29. febrúar:
Lokadagur Saunaexpressen, ferðin heim framundan. Farið var í gufubað í útjaðri bæjarins og fólk fékk tækifæri til þess að striplast dálítið meira, baða sig í ísvök og leggja lokahöndina á kvefið sem fólk ætlaði sér að fá er heim var komið. Ég var aumingi og baðaði mig ekki í vatninu. Ég fór í gufuna og tók svo til við að taka klámmyndir af öðrum þátttakendum, myndir sem bráðlega verða aðgengilegar á Netinu fyrir áhugasama. Eftir bærilegan hádegismat á veitingabúllunni Paprilla var hópnum skipt upp. Ég ákvað að skoða kirkjur ásamt öðru góðu fólki og gerði það og svo fórum við á kaffihús og ég fékk mér köku!!!! :) Lestarferðin var skemmtileg, ég kenndi Mikkel Dana íslensk blótsyrði og fleira og svo skelltum við okkur öll á djambátinn Isabellu. Kvöldið var skrautlegt, segi ekki meira og mánudagurinn 1. mars svo fullur af þreytu að ég eyði ekki einu sinni á hann sérfærslu. En á heildina séð, FRÁBÆR FERÐ!!!!!
Ég er komin heim eftir afskaplega vel heppnaða Finnlandsferð. Ferðasagan er ekki enn komin í skrifað form en áhugasömum er bent á að bíða. Framundan á Ölmubloggi er margt skemmtilegt....sætir strákar, gufuböð og snjódýfa, dönsk blótsyrði og bátsferðir. Gleymið ekki að skoða næstu færslu af Ölmubloggi.

18.2.04

Fúff, ég er fegin að ég þarf ekki að taka meira heimspekitengt en blessuð forspjallsvísindin. Annnars vildi ég tjá reiði mína yfir því hversu illa er staðið að félagsmálum innan spænskunnar. Til að byrja með þá liggur það á huldu hverjir í ósköpunum eru í stjórn félags spænskunema. Það á jú að vera til en ekki hef ég séð neitt að ráði til gjörða þess. Eina sem ég sá voru friðarkerti sem áttu að vera á þess vegum nú nýlega í menningarvikunni. Áðan í tíma heyrði ég káta stúlku segja mér að árshátíðin nálgaðist fljótt, „núnú árshátíð...ekkert svoleiðis hjá okkur” heyrðist í mér. „Jú” sagði stúlkan, „árshátíðin okkar er sameiginleg með spænsku- og bókmenntafræðinemum”. Hvenær átti að segja okkur þetta? Ég er satt best að segja pirruð og vona að ástæðan sé sú að stjórn félags spænskunema sé ekki til, það er eina afsökunin sem hún gæti mögulega borið fyrir sig.
Fúff, eins og ég var afslöppuð í morgun, þá hefur mér tekist að umturna því ástandi með því að opna tölvupóstinn minn. Mér finnst gaman að fá mörg email en í dag fékk ég svona 28 stykki. Ég varð hálfhrædd, satt best að segja. Það vantar upplýsingar hér og upplýsingar þar og svo væri ágætt að ég svaraði hinu og þessu. Fúff! Annars var videókvöld í illa lyktandi kjallaranum að Kleppsvegi 124 í gær. Við Elías og Sigga horfðum á spænska mynd sem heitir Qué he hecho yo para merecer esto. Þetta er alveg ótrúlega góð mynd sem fjallar um spænska húsmóður sem býr ásamt sonur sínum tveimur, eiginmanni og tengdamóður í blokkaríbúð í úthverfi Madridar. Eiginmaður hennar er eiginlega venjulegastur af persónunum, bara þessi dæmigerða karlremba en synirnir tveir dálítið spes. Annar stundar kynlíf með eldri mönnum meðan hinn selur eiturlyf og eyðir tíma með ömmu sinni. Amman er mjög fyndin, hún er nískari en allt nískt og safnar trjádrumbum. Konan sjálf er háð lyfjadópi og vinnur allt of mikið. Áhugavert. Ég vil ekki segja of mikið um myndina, mæli bara með því að allir (þ.e. þessi gríðarlegi fjöldi fólks sem les bloggið mitt) sjái hana.

17.2.04

Poetry
You are Poetry. You are often the most emotional of the arts. You
are introverted, in that you tend to let people
come to you rather than trying to get their
attention. You get along well with Music and
Literature.

What form of art are you?
brought to you by Quizilla
Sophisticated and classy, you take shitty-tasting liquid and make it look beautiful and glamorous!!
Congratulations!! You're a smart sophisticated and
beautiful martini!!

What Drink Are You?
brought to you by Quizilla
aragorn
Your man is King Aragorn (The rating takes place
below) Perhaps its because hes so world-weary but Aragorn
is upfront and honest with no time for mind
games. Hes attentive and devoted, as well as
sensitive to your needs.

The last 'WHICH LOTR GUY IS FOR YOU?' quiz you'll ever have to take UPDATED WITH BETTER PICS & RESULTS
brought to you by Quizilla

16.2.04

Ég ákvað að flýja land um helgina til að komast hjá því að þurfa að velja mér deit á Valentínusardaginn. Ferðinni var heitið til Stokkhólms, á FNUF-“seminar”. Við (Freyja, Jónas og ég) flugum út á föstudagsmorgun, hvert öðru þreyttara og skoðuðum allt fræga fólkið í Leifsstöð. Sigrún Þöll hefði sko unnið frægumannakeppnina hefði hún verið með okkur. Í okkar flugvél var reyndar bara eitt frægmenni enda vélin hálftóm og við með eina sætaröð fyrir hvert okkar. Frábært! Föstudeginum var eytt í H&M, ég er viss um að við vorum nokkra klukkutíma þar inni. Fólk má því eiga von á að vortíska H&M verði sýnd á strætum Reykjavíku næstu daga. Við hittum Heiðu, vinkonu Jónasar, og við fjögur fórum saman út að borða um kvöldið. Sá var sko sniðugur, staðurinn sem við fórum á. Þetta var kínverskur hlaðborðsveitingastaður þar sem maður gat valið úr tilbúnum réttum en einnig blandað saman fersku grænmeti, kjöti, fiski og núðlum að vild, skellt á það sósum og látið manninn í eldhúsinu steikja það. Þetta var sko sniðugt. Minn matur var reyndar svo sterkur að rjúka fór út úr eyrunum á mér. Jónas hinn sænski, Júnas öðru nafni, kom svo á veitingastaðinn og hitti okkur og við fórum öll saman út í langa leit að bar eða skemmtistað til að fara á. Meðalaldurinn á staðnum sem við fórum á náði engan veginn háum aldri mínum, lambakjötið sem þarna var átti ekki í neinum vandræðum með há kollvik eða lina rassa. Ekki óskemmtilegt það! Morguninn eftir þurftum við að fara eldsnemma á fætur og halda til Emil-í-Kattholti-lands, þar sem fundurinn fór fram. Á fundarstað hittum við Svía og Finna sem einnig tóku þátt í fundinum. Fundurinn var ágætur, mjög fræðandi og frekar skemmtilegur. Þetta var eins konar undirbúningsfundur fyrir fundinn sem haldinn verður eftir hálfan mánuð. Um kvöldið var svo kvölddagskrá, ostar og rauðvín auk ósköp notalegrar stemmningar og morðingjaleiks. Á sunnudagsmorgun héldu fundarhöld svo áfram í smástund en svo þurftum við Íslendingarnir að halda heim á leið, ekki leiðinleg heimför þar sem ég fékk aftur röð fyrir mig og sat í sömu röð og tveir mjög myndarlegir menn. Sem sé góður endir á velheppnaðri ferð! Takk fyrir mig!
Sigga systir er búin að eignast nýja vinkonu. Rosa hress stelpa sem heitir Shakira.

12.2.04

Ég vil benda heiminum á nýja bloggið hans Elíasar, skemmtileg viðbót við bloggheiminn. Haha, ég ætla í markaðsfræði. Annars er ég á leið til Stokkhólms í kvöld en er samt að pæla í að fara aðeins út í kvöld, bara smá. Ég þarf hvort eð er að vakna það snemma að það munar engu. Einhverra hluta vegna er ég ekki orðin mjög spennt vegna utanlandsfararinnar, kannski vegna þess að ég á eftir að læra í nokkra klukkutíma áður en ég geri nokkuð. :( Verður samt gaman að kaupa föt...vúhú!

11.2.04

Dagurinn í dag er eiginlega ekki minn dagur, held ég. Fyrir það fyrsta þurfti ég að vakna fyrir allar aldir (rétt fyrir klukkan átta sem sé, fyrir allar aldir í mínum huga) og drífa mig upp í skóla að klára fyrirlestur. Þegar ég var rétt að vakna fannst mér ég ver að fá gubbupest og langaði sko ekki á fætur. Gubbupestarímyndunin yfirgaf fljótt huga minn þegar ég kom í skólann og fékk mér að borða allt nestið mitt, btw. :) Jæja, skóladagurinn var ekkert merkilegur, fyrirlesturinn ok og svo hitti ég ítalska tungumálaskiptastrákinn "minn". Ákveðum við Freyja svo ekki að fara í Bónus og versla fyrir Grælandskynninguna. Allt í góðu með það þangað til á leiðinni heim að kexpakki hrökk upp úr skólatöskunni minni og á eftir honum ALLT skóladótið mitt. Nú á ég bara blautar bækur og skítug og krumpuð verkefnablöð (þau fuku út um allt og ég tók bíómyndaaksjón á þetta). Núna sit ég hundpirruð að læra fyrir viðskiptaspænskupróf, þreytt og búin að uppgötva að gubbupestin er ekki gubbupest heldur hálsverkur. Ímyndunarveiki eða hvað?

10.2.04

Ég held að leti mín nái engum takmörkum. Það er ótrúlegt hvað fólk tekur upp slæma siði þegar það býr erlendis. Í stað þess að eyða kvöldinu í að skrifa góðan fyrirlestur um klámmyndina Pepi, Luci, Bom fyrir spænska kvikmyndakúrsinn eyddi ég kvöldinu á Netinu (í óþökk mömmu) og spjallaði við Jordi, Völllu, Ösp og fleiri. Það hjálpaði örlítið að tala við Völlu sem að eigin sögn var jafnlöt en þegar ég loksins tók til við að skrifa um þessa mynd og lesa mér til um Almodóvar var komið miðnætti og vel það. En svo að ég segi ykkur aðeins frá myndinni, þá er hún klikkuð. Hún fjallar um konu sem er nauðgað af lögreglumanni. Henni sárnar þessi meðferð mjög þar sem hún hafði hugsað sér að selja meydóm sinn til að eiga fyrir reikningunum (pabbi hennar hyggst hætta að senda henni mánaðarlegan tékka) og ákveður því að hefna sín. Hún lemur mann, sem var svo óvart ekki lögreglumaðurinn (ef ég skildi rétt) heldur bróðir hans. Svo kynnist hún konu löggunnar,Luci, sem er húsmóðir haldin kvalalosta. Þegar húsmóðirinn situr á heimili fórnarlambs nauðgunarinnar (sú heitir Pepi btw) og kennir henni að prjóna kemur sextán ára rokksöngkonan Bom, vinkona Pepi, í heimsókn og pissar framan í Luci sem er ekki lítið hrifin. Svona heldur myndin áfram...annað markvert má nefna partý þar sem haldin er typpakeppni, tónleika og fjöldan allan af dragdrottningum sem við sögu koma. Ég held satt best að segja að þessi mynd sé fullkomið dæmi um þá frelsisvakningu sem varð í spænskri kvikmyndagerð og ef til vill menningu yfirleitt eftir Frankó...úff, er ég orðin of fræðileg?

9.2.04

Fúff, þetta var sko fín helgi. Ég lærði ekkert af viti, borðaði mikið og skemmti mér mest. Föstudagskvöldið var, eins og áður hefur komið fram, skemmtilegt og ekki var laugardagskvöldið síðra. Þá var vinnupartý hjá ÁTVR-liðum heima hjá Eymari "la stewardais" í Skipasundinu, fámenn veisla en afar góðmenn. Planið var að veislugestir myndu fara í Keiluhöllina í Öskjuhlíð og keppa í keilu með fallegu borðana sem Marta bjó til bundna um sig miðja en því miður varð ekkert úr því. Við fórum upp í Keiluhöll og sátum þar drjúga stund en tókum svo bara leigubíl niður í bæ þar sem okkur var hleypt inn VIP-megin á Felix. Snjallt það! Aldrei hélt ég að ég fengi að sleppa við röðina! Elías slóst já í för og dansað var fram á rauða nótt, bæði þar og á Hverfisbarnum. Hrós helgarinnar fá Marta og Eymar fyrir vel heppnað teiti og Elías fyrir ótrúlegt dansúthald!

7.2.04

Jæja, föstudagskvöldið endaði í smádjammi og satt best að segja skemmti ég mér bara nokkuð vel. Fyrst um kvöldið hitti ég Freyju, Völlu, Ösp og Ásdísi á kaffihúsi og þaðan fórum við Ösp og Elías áfram á skrall. Vesalings Ösp var pínd áfram af frekum Langhyltingi (aka ég) og drifin í dansinn á svitaballi Röskvu á Grandrokk. Þar hittum við Eddu, Möggu og Jónas Magnússon og komumst að því eftir villtan dans að samkoman bar nafn með rentu. Þegar heim var komið byrjuðu samt ævintýrin. Alma átvagl var vitanlega svöng eftir að hafa hrist spikið í takt við tónlistina í klukkutíma eða svo og hóf því fæðuleit. Nei, ísskápurinn bauð ekki upp á mikið, ekki heldur skápurinn fyrir ofan matarborðið svo að Alma ákveður að kíkja í stóra háa skápinn. Sá skápur ákvað að gera árás með sultukrukku, sem skoppaði út á gólf og vakti mömmu. Þarf vitanlega ekki að taka fram að sultukrukkan mölbrotnaði og ég eyddi drjúgri stund í að þrífa upp sultu og glerbrot (fremur leiðinleg blanda btw) og plokka glerögn úr hælnum á mér. Samlokan sem ég fékk mér á endanum smakkaðist samt vel.

5.2.04

Crazy
Death by a heart attack during an orgy... and
pretty soon

Choose your Dramatic Death (Now w/pics!!)
brought to you by Quizilla
Ég ætla að nýta hluta af mínútunum átján sem ég hef á Internetinu til að blogga. Reyndar veit ég eiginlega ekki um hvað ég ætti að blogga, líf mitt snýst orðið bara um það að fara í skólann og koma heim og læra, eða það sem oftar vill verða, ekki læra. Nú þegar ég er ansi mikið eftir á og ég vil helst ekki hugsa til þess hvernig það verður eftir utanlandsferðirnar sem ég fer í. Annars er það að frétta að Óli fékk íbúðina sína afhenta á sunnudagskvöldið og er þegar byrjaður að mála og koma öllu í standið. Vonandi flytur hann inn í vikunni svo að við Sigga getum byrjað að skipta um herbergi. JÁ ÉG FÆ NÝTT HERBERGI! Vá, hvað þetta er annars leiðinlegt blogg...fúff, fúff.

2.2.04

Jæja, Valgerður hér færðu svarið við spurningu þinni. Ferðin var hreint út sagt ágæt. Reyndar stoppuðum við afar stutt á þessu Grand rokk djammi, kíktum bara rétt þangað. Við eyddum meirihluta kvöldsins á Kofa Tómasar frænda og svo á Hverfisbarnum. Antton Finni var með í för og alls ekki aumur félagsskapur það, kurteis og góður piltur. Jæja, amma gamla kveður. :)
Ég vildi óska þess að ég gæti sungið á blogginu.
Jahá, Burger King bara að opna. Ekkert sérlega gaman það!

27.1.04

Auglýsi hér með eftir þátttakendum í skemmtiferð Aspar og Ölmu sem haldin verður næstkomandi föstudagskvöld. Farið verður á skemmtikvöld Röskvu á Grandrokk sem hefst klukkan 21. Skráning er hafin á kommentakerfi þessarar síðu. Fjölmennum!
Það verður seint borið upp á mig að vera spéhrædd er ég hrædd um. Gegnum tíðina hef ég verið dugleg að bera bossa minn (já, þetta er ýkt) fyrir mönnum og konum sem á vegi mínum verða og það meira að segja án þess að fá borgun fyrir. (Ég sem sé strippa ekki á Óðal eða Bóhem, bara í búningsklefum leikfimihúsa, við stóra gardínulausa glugga og þess háttar). Nú er ég hins vegar farin að hugsa um að hætta þessum strípilátum og er einnig að velta fyrir mér að hafa samband við Íslanspóst og fá á hreint að póstmönnum fyrirtækisins sé boðið upp á áfallahjálp ef þörf krefur. Svo er nefnilega mál með vexti að í gærkveldi var ég heima í rólegheitum, skellti mér í bað og lá svo fyrir framan sjónvarpið í baðsloppi með handklæði vafið um hárlubbann og hauslíkið. Hljómar þá ekki dyrabjallan. Ég geng að sjálfsögðu til dyra eins og ég klædd og á móti mér kemur vægast sagt skelkaður maður sem neitar að trúa því að hafa hringt á réttu bjölluna. Ef þennan mann hefur ekki dreymt illa, veit ég ekki hvað. Hvort ástæðan er hræðsla við ungdömur í baðsloppum einum fata eða það að ég hef viðrað klobbann eða hrist út öðru brjóstinu fæ ég aldrei að vita.

26.1.04

Ég þjáist af einstöku andleysi...hef ýmislegt að skrifa um en nei...það vill ekki út. Lesendur bloggsins verða bara að bíða eftir að ritöndin syndi á mig.

24.1.04

Eins og glöggir lesendur bloggsins sjá hef ég bætt við tengli á hress-síðuna. Gjörið svo vel!

20.1.04

Ég er eiginlega dálítið áhyggjufull í dag. Maðurinn sem ég hélt að væri orðinn strætófélagi var ekki í strætó. Reyndar er ég ekki hundrað og fimmtíu prósent viss þar sem ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var rétt að koma í skólann að eitthvað hefði vantað, það væri gap í lífi mínu. Ég hef reyndar ekki talað við þennan strætófélaga minn en hann, eins og ég, tekur alltaf 9.30 vagninn í átt að miðbænum. Hann býr í háu blokkinni og kemur yfirleitt út á stoppustöð um það bil tveimur mínútum á eftir mér. Ætli hann hafi misst af vagninum í dag? Eða er hann kannski veikur? Kannski er hann bara "stollllker" á eftir mér sem safnar persónuupplýsingum um mig og er búinn að hakka sig inn á nemendasvæði mitt í Háskólanum. Það er kannski líklegri skýring. Í dag hefði ég nefnilega getað sofið út þar sem kennarinn minn var veikur en setti ekki tilkynningu um það fyrr en í morgun á Netið. Herra strætófélagi hefur örugglega lesið það og ákveðið að fara bara í 11.30 vagninn. Sorrý, herra, þarna gabbaði ég þig!

19.1.04

Er dagur samkynhneigðra í dag? Bara að pæla af því að fyrir utan Aðalbyggingu hengu fánar FSS og svo regnbogafáninn.
Fúff, ég er að krepera í Rómönsku Ameríku kúrsinum. Það er ekki nóg með að við þurfum að lesa alveg hræðilega mikið (auðvitað er ég ekki búin með nema svona helminginn) heldur er kennarinn ekki minn. Leiðinlegt að segja það en ég bara ,,fíla" manninn ekki, engan veginn. Hann er eflaust góður maður, neita því ekki, en mig langar að kroppa af mér skinnið í tímunum hjá honum. Þetta jákvæða hugarfar sem ég reyndi að temja mér í upphafi kennslu endist illa. Annars var ég að skoða bloggið hennar Aletheu, sem er Bandói, og skoðaði út frá hennar bloggi, alls konar linka hjá fólki sem ég man eftir úr Complutense og öðrum Bandóum. Gaman að fá svona campusfíling.
Ég bið Ösp afsökunar á ljótri nafngift!

16.1.04

Nú ætla ég að byrja keppni um flottustu síðuna.
Gangsta Bitch!
You're Gangsta Bitch Barbie. You're tough and you
like it rough, and of course you like to pop a
cap in any wiggers ass.

If You Were A Barbie, Which Messed Up Version Would You Be?
brought to you by Quizilla

14.1.04

Ég velti því lengi fyrir mér í gærmorgun hvort mögulegt væri að ég hefði eitthvað ruglast í tímatalinu. Mér þótti bara ómögulegt að vika væri liðin frá því að skólinn byrjaði. Það reyndist nú samt satt og í dag er meira en vika liðin! Ég verð komin á elliheimili áður en ég veit af. Í gær hitti ég Elías, sem er snúin aftur á klakann eftir jóladvöl í Galicíu. Hann bauð mér að borða paellu með honum og tveimur vinkonum, vel matreitt hjá pilti. Annars lýsi ég nú eftir Kanadafara. Hún Katie, vinkona Elíasar frá Kanada, gaf mér svo gott nammi. Það er eins konar smarties sem er ekki fyllt með súkkulaði heldur hnetusmjöri. Mjöööög gott! Það rifjaðist upp fyrir mér hversu veik ég er fyrir hnetusmjöri...Annars eru allar einkunnir komnar í hús og því ljóst að þessum 20,5 einingum er lokið. Vííííí! Svo að ég rjúki úr einu í annað...síðan ég byrjaði að læra ítölsku hef ég vanið mig á að kveðja mömmu notandi þetta ágæta tungumál. Mamma lærði ítölsku á sínum tíma og svarar mér vitanlega á móti og hefur þetta verið okkur hin besta skemmtun. Í gær, hins vegar, var mamma í vinnunni og einn af tæknimönnunum var þar. Blessaður tæknimaðurinn horfði á mömmu í forundran þegar hún kastaði Ciao-kveðju á hann...kannski ég ætti bara að tala íslensku á heimilinu í stað þess að valda því að mamma gerir sig að fífli..naahh.

13.1.04

Ég veit ekki hvað olli því en ég var óhemjubitur í morgun, alls ekki morgunfúl (ótrúlegt en satt) en greinilega full af bitrum tilfinningum. Svo er mál með vexti að ég var að hlusta á nýja geisladiskinn sem Eva gaf mér í jólagjöf, "Ella baila sola", sem er spænsk stúlknasveit, að fróðra sögn dáð af Madridarstúlkum. Í hægðum mínum beið ég eftir strætó og fór að hlusta almennilega á textann í laginu og satt best að segja hneykslaðist stórlega. Í textanum syngur kona sem dreymir um að fá að verða eiginkona einhvers og fá að þrífa húsið hans og hlusta á litlar tær tipla um húsið. Svo geti hún hlakkað til vikulegu kossanna. Ég ætla rétt að vona að þetta sé kaldhæðni, ég bara trúi því ekki að ungar spænskar stúlkur hugsi svona. Í næsta lagi á eftir var svo talað um stúlku sem var ekki söm ef hún fékk ekki að sjá hann, því þegar hann var nálægt glampaði í augum hennar. Ég geri mér grein fyrir því að um það bil áttatíu prósent dægurlaga fjalla um eitthvað svipað en biturleikinn sem rauk upp í mér olli því að ég hálfurraði í strætó. Annars er ég nú bara nokkuð kát. Ég fékk nefnilega tölvuskeyti í gærkveldi frá kennaranum mínum sem var að láta mig vita af því að einkunnin mín hefði farið vitlaust inn og ég hefði átt að fá 0,5 hærra en það sem ég hélt ég hefði fengið. Fyndið það!

11.1.04

Ok, mér líst ekki mjög vel á að vera "normal" og heldur ekki að vera þessi "Haldir" eða hvað hann nú heitir, en Tarzan, það er cool! :D
CWINDOWSDesktoptarzan.jpg
Tarzan!

What movie Do you Belong in?(many different outcomes!)
brought to you by Quizilla
haldir
Congratulations! You're Haldir!

Which Lord of the Rings character and personality problem are you?
brought to you by Quizilla
Omigod! OMIGOD!! You're like, sooo 'Normal'
'Normal' PLEASE VOTE!!!

What Type of Lunatic are You? (With Cool Pics!!)
brought to you by Quizilla
Haha, ég fór að hugsa og mundi eftir einu sem vantaði varðandi frásagnir helgarinnar. Í gær vorum við nefnilega á Sólon og urðum fyrir því að blotna. Nei, ekki vegna þess að við sáum svona flotta gæja, og heldur ekki út af rigningunni (jú reyndar líka). Nei, nei, það var vegna þess að við hlið okkar dansaði maður sem var svo sveittur að hann leit út fyrir að hafa farið í sturtu í fötunum. Ég ýki ekki. Það skvettust frá honum droparnir og svo klesstist hann stundum á mig og ég fékk svitabletti í fötin mín. Óóóógóóóóó!
Jæja, þetta var nú bara ágætis helgi eftir allt saman. Ég gerði vitanlega lítið af viti. Á föstudag fór ég reyndar í partý til Ásdísar H. og svo út á trall á eftir. Stefnan var sett á Hverfisbarinn, aðra helgina í röð. Og já, ég talaði um röð, það er jú yfirleitt nokkuð sem fylgir ferðum á Hverfisbarinn en ekki þetta föstudagskvöldið. Við komumst beint inn. Á Hverfisbarnum var ágætisfjör þótt ég hafi verið fremur ósátt við Freyju fyrir að ná sér ekki í einn af ungu mönnunum sem þarna voru. Shame on you, Freyja! Á laugardaginn fór ég líka út, þá á Felix, Celtic og Sólon, en nenni ekki að tala um það. Vil frekar mæla með The Bagel Company. Þjónustan þar er heldur stirð, mamma fékk ekki laukbeyglu með súpunni sinni heldur bláberjabeyglu og þá seint og um síðir og það vantaði majónesið á beygluna mína en samt mæli ég með staðnum. Beyglan hefði nefnilega verið ljúffeng hefði ég fengið mitt majónes, virkilega flott og það er ekki svo dýrt þarna. Jidúddamía, þetta er að verða afskaplega leiðinlegt blogg, fer illa við flott útlitið! Held ég hætti í bili....bara eitt...Rodrigo Santero er kroppur dauðans! Er sannfærð eftir ferð númer tvö á Love Actually.

8.1.04

Electron
Electron -- You are full of energy and frentic
movement. Although you have a philosophicaly
"negative" outlook, people would
hardly be able to tell it by looking at you.
You get along well with protons and those who
are positive.

What kind of subatomic particle are you?
brought to you by Quizilla
Satt best að segja er ég strax orðin hundleið á háskólanámi þessarar annar. Ástæðan er ekki sú að ég sé búin að lesa yfir mig strax á fyrsta degi, nei, það dytti mér seint í hug. Málið er að ég hef verið í endalausum götum í dag og í gær vegna hreinna og beinna gata í stundatöflu og vegna þess að kennarar mæta ekki. Ég er búin að skoða ALLAR síður sem ég hef og gæti nokkurn tímann haft áhuga á á Internetinu og meira að segja læra smávegis í fagi sem ég er ekki byrjuð í. Hvað á ég að gera næst?? Annars er ég í sumarvinnupælingum. Ég er með starfsferilsrká í vinnslu og ætla að tala við gamla vinnuveitendur til að fá leyfi til að nota nafn þeirra sem meðmælendur. Gömlu vinnuveitendur, ef þið eruð að lesa þetta (ok, ég veit að enginn þeirra les þetta) þá hafið samband! :)

7.1.04

Ég viðurkenni það að færni mín í blogg-gerð er lítil...þetta er ógóljótt. Veitir einhver verðlaun fyrir ljótasta bloggið?

4.1.04

Sigríður, systir mín, hélt upp á tugina tvo í gærkveldi þótt reyndar hefði hún fyllt þá fyrir mánuði síðan. Veislan var nokkuð skemmtileg, veitingarnar sem mamma hafði fundið til góðar og leikir skipulagðir af ráðskonu einkar fyndnir og skemmtilegir. Þarna var margt góðra manna, starfsfélagar úr vínbúðinni, skólafélagar Sigríðar úr Menntaskólanum og svo nokkrir í viðbót sem tengdust á annan hátt. Eftir að foreldrarnir sneru til baka fórum við nokkur í bæinn. Við byrjuðum kvöldið á Felix en fórum svo á Hverfisbarinn. Þar var vitanlega löng röð en vinur Sigríðar, Kreuzer að nafni, smyglaði okkur inn með lymskulegum brögðum. Á Hverfisbarnum var því dansað dátt fram eftir nóttu. Vel heppnað janúardjamm! Megi djömm ársins verða í svipuðum dúr.
Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baaaakaaa. Spurning hvort það sé sem betur fer eða ekki. Ef árið 2003 hefði ekki gengið í garð hefði ég ekki...
-orðið virðulegur háskólanemi hér á Íslandi sem svífur á milli bygginga í vímu visku og þekkingar
-farið til Finnlands og lært að segja plastpoki á finnsku.
-unnið hjá Telepizza og lært að rúlla pizzadeig í höndunum.
-notið þess að stunda enga líkamsrækt.
-ræktaði hugann með því að ná 1400 stigum í Snake í nýja gemsanum mínum.
-ákveðið að vinna ALDREI aftur í Álfalandi.
-séð Shakiru á tónleikum, ég með 39 stiga hita, Shakira í banastuði.
-lært að þekkja nokkra fastakúnna í Vínbúðinni, hver öðrum verr lyktandi.
-hangið á kaffihúsum tímunum saman í stað þess að lesa spænska málfræði.
-kynnst fullt af skemmtilegu fólki og nokkrum leiðinlegum, og fundið mér MAAAAARGA leynilega ástmenn.
-verið með í virkjun Nordklúbbsins.
-fattað af hverju Scarpe-gönguskórnir heita þessu nafni.

19.12.03

Nú er ég þreytt og fúl og leiðinleg. Nenni ekki að gera rass í rófu. Mér finnast kúnnarnir mínir upp til hópa leiðinlegir og er pirruð á fólkinu í kringum mig. Hvers á ung kona á þrítugsaldri að gjalda?

15.12.03

Annars gleymdi ég að tilkynna að ÉG ER BÚIN Í PRÓFUM!!!!!! Ekki gekk samt síðasta prófið vel...
Ég fékk svolítið nýja sýn á lífið eftir að ég datt í mjög áhugaverð Verublöð heima hjá Eddu núna um helgina. Þar las ég nokkrar greinar og skoðaði og tókst jafnvel að eignast minn eftirlætisdálkahöfund í blaðinu, Guðrúnu Guðmundsdóttur (held ég fari rétt með). Hún skrifar um feminískt uppeldi í blaðinu, um dóttur sína sem er þrettán ára og fær ekki að mála sig nema við sérstök tilefni (mömmunni líður hræðilega að horfa á hana í því ástandi), má ekki ganga í G-streng (undirgefni við karlmenn og aðeins leyft ef daman hyggst starfa við súlunudd á Óðal) og ef hún ætlar að horfa á Popptíví, sem hún reyndar fær bara leyfi til í eina klukkustund á dag, verður hún að setja upp feminístagleraugun. Stelpuhróið má samt ráða því sjálf hvort hún reykir. Hún verður jú að fá að taka sjálfstæðar ákvarðanir. En þessi nýja sýn mín snýst um það að ég held að ég sé kannski dálítill feministi. Jú, ég mála mig jú ekki til að uppfylla fegurðarnormin sem þjóðfélagið setur. Ég horfi helst ekki á Popptíví, reyndar bara af því að mér finnst það ekki sérlega skemmtileg og vegna þess að ég er ekki dyggur sjónvarpsaðdáandi. Í þokkabót þá geng ég aldrei í G-strengsbuxum, mér finnst þær afskaplega óþægilegar. Kannski ég ætti að gerast meðleg í Feministafélaginu...kannski ekki, ég fór jú í háreyðingameðferð á leggjum í gær. Það er eflaust ekki vinsælt.

13.12.03

Ösp benti mér á það í kommenti að ef sett er inn www.madrit.blogpot.com í stað blogSPOT.com birtist biblíusíða á skjáinn. Ég prófaði þetta og sé að þetta er rétt og efast ekki um að þetta eru skilaboð frá Guði til mín, hann biður mig um að verða nunna. Ég enda tilvalin í verkið. Annars fór ég að velta fyrir mér hvers vegna síðan heitir madrit...ætli þetta standi fyrir mad rituals? Leyfi ykkur að dæma sjálfum af kynningu síðunnar: A mega-site of Bible, Christian and religious information & studies; including, audio and written KJV Bible, Bible helps & tools, churches, Doctrine, links, news, prayer, prophecy, sermons, spiritual warfare, statistics, and tracts. Features the Chronological 4 Gospels, Prayer Book, Prophecy Bible, and a photo tour of Israel. Það er gott hvað mamma mín hugsar vel um litlu dóttur sína. Að áeggjan Sigríðar kallaði ég í mömmu og sýndi henni mynd af Rodrigo, kvaðst hafa kysst hann í gær. Hvað segir mamma: "Oh, hvað þú átt gott!" Mamma hefur trú á litla fuglinum sínum, nokkuð ljóst...en reyndar greinilega ekki mikinn áhuga á ímynduðu ástarlífi hans, hún sagði bara þetta og yfirgaf herbergið.

10.12.03

Jiiiii dúdda mía...verð að deila þessari fegurð með alheiminum. Sjáið hann Rodrigo. Gaaaasalega er hann sætur! Ekki er hann síðri hér. Kærar þakkir til Jónasar Magnússonar fyrir þennan glaðning!

9.12.03

Ung stúlka, reyklaus og áreiðanleg, auglýsir eftir prófstressi á góðu verði. Á sama stað til sölu nokkur kíló af rólyndi. Upplýsingar í s. 6969690.

8.12.03

Ösp Árnadóttur hefur verið gerð að gestaskrifara á blogginu La historia de mi vida... Býð ég Ösp Árnadóttur velkomna og vona að hún verði virk í skrifum á komandi vikum.
Nú er tæknin að stríða mér og ég er ekki sátt. Í fyrsta lagi fæ ég ekki email sem mér ættu að berast (nei, ég er ekki að tala um ástarbréf frá ímynduðum vöðvafjöllum) og gsm-síminn minn er eitthvað skrýtinn. Efst í horni skjásins er nefnilega fast litla umslagsmerkið, nokkuð sem ég er heldur betur ósátt við. Ekki nóg með það, þá fékk ég líka skilaboð frá Rosu spænsku, sem væri ekki í frásögu færandi nema vegna þess að inn í skilaboðin fléttuðust íslenskar setningar, nokkuð sem ég hafði vistað í "outboxinu" mínu. Ég held ég hafi ekki sent Rosu þetta þar sem stúlkan talar ekki orð í íslensku og þetta var samhengislaust í skilaboðunum. Þetta er meira en lítið dularfullt. Síminn minn hefur þróað eigin vilja, svo að engan ætti að undra þótt hann fái ástarjátningar frá mér í smsi eða símtöl með hatursorðum. Annars vil ég mæla með myndinni Love Actually sem meðal annars er sýnd í Háskólabíói. Ég sá hana í gær og var mjög hrifin. Reyndar verð að bæta því við að Páll Heimisson var alls ekki hrifinn og Elías ekki heldur neitt sérlega kátur með myndina en allir ekki-töffarar ættu að elska þessa mynd. Það langbesta við myndina er samt eiginlega krakkinn OG maðurinn sem leikur Karl, gasalega myndarlegur náungi með suðrænt útlit og roooosalega flottan líkama.
Fúff, ég er aldeilis löt þessa dagana. Það er bara ekkert svo gaman að lesa þessar smásögur frá Rómönsku Ameríku, hreint ekki. Annars á ég núna bara tvö próf eftir, fór í eitt í morgun, fer í annað á morgun og svo á mánudaginn í næstu viku. Það verður ágætt að klára þetta en ég get svo sem ekki kvartað yfir því að hafa drepið mig með vinnu í prófatörninni...engu að síður er ég hugmyndasnauð og sleppi því, held ég, bara að blogga.

5.12.03

Ég ákvað að vera staðföst og fara ekkert á skyndibúllu í gær. Í staðinn fórum við Páll og Jónas Magnússon og átum heima hjá Freyju. Ég mæli með slíku. Húsnæði Freyju er hreinna en allflestir skyndibitastaðir (ég kannaði sérstaklega ástand þrifa á gólfi, Jónína fær tíu í einkunn) og maturinn var talsvert betri. Reyndar virðist sem loftið sé þurrt eða ef til vill tókst einhverjum að kýla mig án þess að ég tæki eftir því þar sem ekki leið á löngu þar til ég lá í blóði mínu (fyrir nákvæmar antidramadrottningar: blóðdropar skvettust á bol minn) og eflaust verð ég ekki söm. Þakka engu að síður Freyju fyrir frábærar móttökur. Annars er það helst að frétta að ég var að koma úr prófi og þjáist af handleggjaverkjum. Bölvaður ávani þetta með að þurfa alltaf að svara prófum með penna. Ég er ekki alls kostar hrifin af því og gerði því prófið bara tvisvar, fyrst með blýanti og svo ofan í með penna og strokaði út. Held það hafi verið útstrokið sem reyndi svona á. Þetta blessaða ítölskupróf gekk reyndar bara vel. Plan sem ég hafði sett mér fyrir annað ítölskupróf fyrr í vetur gekk upp í þetta skiptið, alveg óvart. FYYYYYNNNNNDDDIIIIIIÐÐÐÐÐÐ.....

2.12.03

Ef ég gerði könnun á hvaða orð kemur oftast fyrir sem fyrsta orðið í bloggfærslunum mínum þá er ég viss um að "jæja" er vinsælast. Áhugavert, ekki satt? Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort ég sé hæf til þess að fara út að borða á fínum veitingastöðum og yfirleitt komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Á Þremur Frökkum um daginn með Finnunum stundaði ég það að bjóða fólki bita af hvalkjötinu mínu, jafnvel fólki sem sat á næsta borði. Þar fyrir utan krumpa ég alltaf servíettuna mína, helli gjarnan niður, sulla á mig og næstu menn og ber enga virðingu fyrir elegansinum satt best að segja. Ég held ég haldi mig bara heima...a.m.k. frá öllum matsölustöðum með þjónustu á næstunni.

1.12.03

Jæja, nú er þessi leiðinlegi mánudagur búinn. Var í prófi í morgun sem var fremur leiðinlegt, svo leiðinlegt raunar að ég pikkaði bara við eitthvað, þrusaði út úr mér einhverju ömurlega leiðinlegu bréfi og skilaði prófinu. Kennarinn var reyndar ekki inni í stofunni, það er fyndið en þessi kennari fer alltaf fram í prófum. Hver og einn gæti svindlað að vild. Ekki hafði ég áhuga enda mikill andstæðingur svindls eftir svindlið á kristinsöguprófinu á sínum tíma. Eftir prófið tók svo við undirbúningur fyrir fyrirlestur um Júróvisjón sem við héldum svo klukkan 17.15. Ekki neitt sérlega vel heppnað en alls ekkert leiðinlegt. Bíð núna eftir að pabbi sæki mig... held hann elski mig ekki lengur!
Ég vil þakka Evu Dögg Þorkelsdóttur kærlega fyrir andlegan stuðning á undanförnum árum. Hún hefur verið mér stoð og stytta, bæði hér á landi sem og erlendis. TAKK EVA! (var að uppgötva "bold")

27.11.03

Annars gleymdi ég að birta þakkarlistann minn. Svo er nefnilega mál með vexti að vinnu við annað verkefnið mitt er lokið. Ég kláraði að prenta út Orðabókarverkefni Eddu-Miðlunar, margumtalað btw, í morgun. Þar af leiðandi vil ég þakka eftirtöldum aðilum fyrir aðstoð af ýmsu tagi: Anna fyrir óþreytandi málfræðihjálp og dönskuþýðingar, Sigurður fyrir lán á tölvu og góða aðstöðu, Þjóðarbókhlöðunni fyrir aðgang að skemmtilegum orðabókum, Eddu fyrir lán á orðabók, Freyju fyrir sérfræðikunnáttu, Sergio (held ég að hann heiti) fyrir axlaböndin/brjóstahaldaraböndin, Rosu fyrir tengiliðavinnu og ábendingar og Natalíu hjá RENFE fyrir sérfræðiaðstoð. TAKK, TAKK! Að auki vil ég þakka Eddu, Jónasi, Sigríði og Elíasi fyrir að þola málæði mitt í gær. Ég var algjörlega óstöðvandi!
Jæja, nú held ég að tími Almna sé kominn. Ekki hefur eigendum nafnsins aðeins fjölgað talsvert á síðustu árum, heldur hefur afrekunum fjölgað í samræmi, eða jafnvel út úr hófi. Nú má vera að einhver hugsi: ,,En ég man ekki eftir neinum frægum Ölmum, enginn stjórnmálamaður, enginn leikari...iss ekki einu sinni neinn í Nemendaráði í grunnskólanum mínum". Ég þagga niður í slíku þegar ég bendi á forsíðu nýjasta tölublaðs gæðaritsins Séð og heyrt. Þar framan á er Idol-stjarnan (sem hefði átt að komast áfram) Alma Rut með ástmanni sínum. Kallið þið það ekki að vera fræg? Ég held að þetta sé bara fyrsta skrefið í rétta átt. Við erum komnar til að vera. Þess eflaust ekki langt að bíða ég komi mér í stjórnmálin.

26.11.03

Ég held kannski að ég sé ekki ein af þeim sem lukkan leikur við....hvað haldið þið?

24.11.03

OJOJOJ hvað það er kalt! Ég held að rasskinnarnar á mér séu frosnar saman. Ég hefði haldið að skíturinn djúpi sem hylur stóran hluta af mér myndi verma mig eitthvað upp. Ástæða þessa djúpa skíts er sú að ég á eftir að ljúka heilum helling af verkefnum fyrir fimmtudag! Í kvöld þarf ég að reyna að klára blessaða málfræðiverkefnið mitt, sem reyndar er mögulegt að takist þótt illa verði og svo þarf ég að draga fram úr erminni einu stykki orðabókarverkefni og tíu blaðsíðna bókmenntaritgerð. Hafa ekki allir trú á mér? Helgin var annars allsvakaleg, einum of svakaleg ef ég á að segja eins og er. Ég ákvað að elda með Palla og Jónasi á laugardaginn og við auðvitað enduðum á því að fara út í bæ. Þar hittum við Sigrúnu Þöll, Eddu og Elías sem voru góður félagsskapur allt þar til heim var haldið KLUKKAN SJÖ!!!!!!! Hvað er að mér? Ég þarf á hjálp að halda. Ætli til sé Anonymous Djammoholics?

19.11.03

Jesús minn hvað ég er löt...ég nenni ekki að lyfta litla fingri. Verkefnin mín ganga ekki alveg nógu vel, ég er reyndar mjög langt komin með málfræðina, það sem ég gat, en stutt komin með orðabókaverkefnið og ekki byrjuð á bókmenntaritgerðinni. HVAÐ GERÐIST MEÐ MIG???? Ég sem var einu sinni dugleg samviskusöm menntaskólastúlka hef breyst í þreyttan ungling sem nennir engu nema að hanga á kaffihúsum og sötra kók. Eigið þið ráð?

15.11.03

"Æææææ" var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég hreyfði mig í rúminu í morgun. Bakið á mér er helaumt eftir ríðingar gærdagsins. Við Leiri frá Laxnesi áttum nefnilega góða stund í morgunsárið og hann skilaði mér hálfdofinni í klofi, brjóstum og baki. Annars var gærdagurinn einstaklega atburðaríkur. Vitanlega átti ég skemmtilega stund í skólanum svo ekki sé minnst á vinnuna en einhverra hluta vegna þá þótti mér partýið í Norræna félaginu bera af. Þangað komu billjón Finnar og Danir og svo nokkrir Íslendingar og ég held að flestir hafi skemmt sér bærilega. Eftir partýið fórum við svo í Þjóðleikhúskjallarann á heimspekideildardjamm sem var ágætlega heppnað. Þar var dansað út í nóttina og sumir djúsuðu. Einstaklega skrítið kvöld engu að síður.........fúff........

11.11.03

Úff, ég held að glæstir dagar afreka í Trivial Pursuit séu löngu, löngu liðnir. Að undanförnu geri ég ekki annað en að tapa. Nú síðast fyrir mömmu og Siggu systur. Og ég tapaði ekki bara heldur var ég höfð að háð og spotti, þá aðallega af mömmu (þó svo að Sigga væri eiginlega að vinna). Mamma hló að mér og hneykslaðist á fávisku dóttur sinnar og hálfhló og spurði: “Ertu EKKI komin með köku? Kemur reyndar ekki á óvart, þú veist ekki neitt.” Gaman hvað fjölskyldan veitir mér mikinn og góðan stuðning. Annars er kannski ekki furða að illa gangi í heilanotkunarspilum. Heilinn er jú ekki í mjög stífri notkun. Ég læri ekkert. Mínar ær og kýr eru bara að fara út að dansa! Úff, úff!

10.11.03

Sem stendur er ég að fara í gegnum einhvers konar leiðindatímabil í geðdagatali mínu og finnst því fremur leiðinleg dagskráin hjá mér. Í dag var hún reyndar geysifull af áhugaverðum hlutum; fremur leiðinlegum málnotkunartíma klukkan átta (það á að banna að láta fólk mæta svona snemma í skólann til að tala!!! ég mun ekki hætta að impra á því), sýningu á La Colmena klukkan tíu, sem btw er mynd gerð eftir bók sem ég las fyrir bókmenntakúrsinn úti í Madrid...man einhver eftir kvörtunum mínum?.....Ég fór svo í ítölskutíma þrátt fyrir áform mín um að skrópa...kennarinn nefnilega gekk fram hjá mér og brosti og sagði "Ciao Alma" þegar ég var að læðast út úr aðalbyggingunni að ég hafði ekki geð í mér að mæta ekki. Konan sem átti að kenna mér í tímanum klukkan eitt var ekki mætt korteri síðar svo að við Palli ákváðum að fara á Alþjóðaskrifstofuna og spyrjast fyrir um Erasmusskipti. Þar var konan bara á Palla máli, sagði Bologna eflaust besta kostinn fyrir okkur.....grrr...mér reyndar líst ekkert illa á það, verður samt að koma í ljós. Svo var það bara beint í vinnuna....hingað til allt fremur leiðinlegt en það gerðist eitt fyndið. Við vinur minn, sem er níu ára, sáum Davíð Oddsson, ég benti pilti á fræga manninn sem var fyrir framan okkur eins og eðlilegt er. Byrjar þá piltur ekki að kalla á Davíð......"Hæ!" "Ertu ekki Davíð Oddsson?" Davíð heilsaði á móti og játti því. "Þú ert oft í sjónvarpinu, er það ekki?" "Jú stundum" svaraði Davíð á móti og áttu þeir þarna smá samtal á köllum meðan ég reyndi að benda barninu á að hætta að tala við Davíð enda einstaklega óþægilegt fyrir skuggakonu eins og mig. Davíð á samt hrós skilið fyrir að svara piltinum, heilsa og veifa honum að endingu, þrátt fyrir að hafa augljóslega verið að flýta sér. Þetta var svolítið skemmtilegt tilvik í dag. Líka gaman að stelpu sem var að tala mjööög hátt í gemsann sinn í strætó, að reyna að ráðleggja vinkonu sinni sem eflaust var í ástarsorg. Ég lærði sko mikið og vona að ég lendi bráðum í ástarsorg til að geta nýtt ráð þessa tánings.

9.11.03

Jæja, enn ein helgin langt komin þótt ekki hafi hún verið neitt sérstaklega viðburðarrík. Á föstudagskvöld átum við reyndar saman heima hjá mér nokkrir vinir og horfðum á upptöku af Idol, sem vissulega var nokkuð gaman, auk þess sem hluti hópsins; Edda, Jónas, Elías og svo bættist Palli við, fór út að dansa. Fremur hressandi, en ekki eins gaman í morgun þegar ég þurfti að fara í vinnuna. Ég var svo ægilega þreytt og utan við mig að einn kúnninn sagði mig vera í öðrum heimi, sjöunda himni og spurði hvort ég væri ástfangin. Tókst samt að halda kassanum á núlli sem mér finnst árangur út af fyrir sig eftir jafnlítinn svefn og ég fékk. Annars er ég núna að leka út af sökum þreytu og er í þokkabót banhungruð. Væri einhver dyggur lesandi bloggs míns (líklega margir sem lesa það klukkan hálffjögur á laugardagsnóttum) til í að koma með eitthvað að borða handa mér? Takk, sjáumst! Hah, ákvað að bæta aðeins við þetta. Fór að rifja upp fund minn við gamlan bekkjarbróður og mundi þá eftir óhemjufyndnu atviki sem átti sér stað rétt fyrir heimför á föstudaginn. Elías, Jónas og ég stóðum sem sé eftir á Lækjartorgi eftir að hafa spjallað við Frey og Diddu (vona að ég fari rétt með nöfn) og vorum að leggja af stað til baka, þegar Jónas fór einhverra hluta vegna að syngja Nínulagið. Það var svo sem ekkert sniðugt við það, hið fyndna var SAUÐdrukkna lágmark þrjátíu ára gamla konan sem tók að syngja með Jónasi með miklum tilþrifum og gott ef ekki faðmaði hann að skilnaði. Sú söng sko illa! Veit ekki hvað Bubbi hefði sagt við hana! Kannski getað fantaserað eitthvað í Sister Act style....aldrei að vita.

6.11.03

Eitt mjög merkilegt gerðist fyrir mig í morgun, kannski lýsir því hversu snautt af tilbreytingum líf mitt er um þessar mundir. Ég fékk nefnilega sms frá Tyrklandi!!!!! Jahá, þetta var ekkert sérlega merkilegt sms, bara eitthvert júróvisjónbull, en mér finnst bara svo ótrúlega flott að fá sms frá svona fjarlægu landi! Geysiáhugaverðir atburðir virðast fylgja mér í dag, nokkru síðar er ég að ganga upp Bankastrætið og geng fram hjá hinum frábæra Megasi. Ekki jafnflottur samt og næsti maður sem gekk fram hjá, Páll Óskar. Ég var að hugsa um að þakka honum kærlega fyrir júróvisjónlögin þrjú sem hann spilaði um helgina en var of feimin og hef það heldur ekki í mér að ónæða frægt fólk í frítíma þess. Ónáða bara vini mína. Jæja, ég held ég hætti þessari leti og fari að læra fyrir viðskiptaspænskupróf áður en ég fer að horfa á Tre uomini e una gamba (vona að þetta sé rétt skrifað...). Ciao!
Nú er illt í efni. Einhver óvæginn hefur skvett skyri fyrir framan Háskóla Íslands í morgun. Má vera að Helgi Hós sé kominn á ferð á ný en greinilega undir nýjum formerkjum, farinn að mótmæla íslensku menntakerfi, skólagjöldum eða lélegri þjónustu á Deli OG farinn að nota bláberjaskyr. Gaman að allri jákvæðri þróun, ekki satt? Annars vildi ég nota tækifærið og óska Elsu minni til hamingju með 16 ára afmælið. Ég reyndar hitti stöllu í strætó í morgun og gaf henni þá afmælisgjöf að kyssa hana ekki til hamingju (morgunandfýla) en ætla að hitta hana á eftir og leyfa henni að velja sér gjöf. Einhverjar hugmyndir?

5.11.03

Jiii, hvað þessi dagur byrjar illa....ég GLEYMDI að mæta í vinnuna í morgun!!!!! En sú skömm! Ekki gott það!
Dálítið skondið þetta: http://www.cenedella.com/stone/archives/000543.html
Í gær héldum við annað nordklúbbskvöldið, sem tókst með ágætum. Á dagskrá kvöldsins var survivorleikur, eitthvað sem við vissum eiginlega ekkert hvernig ætti að vera. Við enduðum því bara á að fara í leikjakeppni, keppa í dansi, sjómann, uppröðun og svo var líka spurningakeppni. Drösull, lið skipað Páli, Elíasi, Lindu, Gyðu, Sigurrós og fleirum sigraði keppni kvöldsins. Til hamingju, Drösull! Meiri aumingjarnir í Lappaliðinu. :) Úff.....held ég hætti að blogga...þetta er leiðinlegasta blogg áratugarins.

4.11.03

Annars vildi ég líka tilkynna það að ég er hætt við tvo af leynilegum ástmönnum mínum, annan fyrir sorglegt ástand, hinn fyrir slappa danstilburði. Getur einhver hjálpað mér að finna nýja?
Edda fær mínar bestu þakkir fyrir dugnað í dansi á föstudags- og laugardagskvöld. Annars voru kvöldin ágæt. Á föstudag drakk Páll sig sauðdrukkinn ásamt vinkonu sinni Sigrúnu Þöll og þau máluðu bæinn rauðan og týndu okkur Eddu. Við Edda létum það ekki á okkur fá, héldum dansi okkar ótrauðum áfram á Felix þar sem margan skrítinn manninn var að finna, Óli bróðir dæmi sem aldrei klikkar. Þar dönsuðum við fram á rauða nótt (ýkjur, Edda þurfti að vakna klukkan hálfníu þannig að ég plataði hana bara svona einn aukaklukkutíma) og fórum heim með bros á vör. Eftir áhugavert grænmetisætumatarboð á laugardaginn, sem var alþjóðlegur VEGAN-dagur, fórum við aftur út að dansa en í breyttu hópsniði. Með í för voru Sigríður, Edda, Kristín Rut og Jónas Magnússon. Við fórum á Nasa þar sem Páll nokkur Óskar þeytti skífur mér til mikillar ánægju. Um það bil 95% af lögunum sem hann spilaði voru mjög vel danshæf og í skemmtilegri kantinum. Við vorum ekki einu kátu kúnnarnir það kvöldið, skyrtuklædd ljóska á rúmlega miðjum aldri naut sín í botn, reyndi við alla ungu mennina (held hennar mark hafi verið að þeir væru lágmark helmingi yngri en hún) og stökk upp á svið og söng í míkrafón (=bjórflaska) við lagið “I Will Survive”. Afskaplega skemmtileg sviðsframkoma hjá stöllu. Við báðum Pál að sjálfsögðu um eurovisionóskalög en vorum á útleið, fremur svekkt yfir að hafa ekki fengið að heyra júrópoppið okkar, þegar lagið hennar Selmu Björns fór að hljóma og við (nema Edda, fyrirgefðu peddið mitt) hlupum út á dansgólfið og dönsuðum við júrósyrpuna sem Palli verðlaunaði okkur með. ROOOOOSAGAMAN! Ég ætti kannski að fara leið sveitamanna og telja upp fólk sem ég hitti þessi tvö kvöld....nahh...vil samt nefna Svíann sem ég mætti í Bankastrætinu klæddum upp sem Madonnu, mjög hórulegum. Hann fær mitt hrós fyrir búning kvöldsins! Svo sá ég líka rassapönka!
Jæja, loksins ætla ég að efna til keppni á bloggsíðunni minni. Að sjálfsögðu verða glæsileg verðlaun í boði. Keppnin snýst um að giska á réttan mann, og vísbendingarnar sem þið fáið eru orð hans. HVER ER MAÐURINN? "Hommar eru bara kvenmenn." "Edda, þér finnst gott þegar ég táldreg þig" Svör óskast í kommentakerfið!

2.11.03

Fúff, mig klæjaði í fingurna núna um helgina af bloggþörf. Held ég skrifi um atriði helgarinnar í nokkrum færslum.

27.10.03

Oj, hvað þetta er leiðinlegur dagur eitthvað, próf á próf ofan, þeagr búin að fara í tvö. Reyndar tókum við líka konuspjall í málnotkun sem var nokkuð skondið. Vonum að hlutirnir batni!

26.10.03

Fúff, dagurinn í dag er ekki góð byrjun á viku sem á eftir að vera slæm. Það eru meira að segja öldur á tjörninni. Þetta hefur verið skítsæmileg helgi engu að síður. Ég þurfti reyndar að vinna í vínbúðinni dásamlegu í Kringlunni, ákaflega leiðinlegt en þarft verk. Föstudagurinn var dásamlegur í einu orði sagt. Það er ekki öðruvísi hægt að lýsa degi sem maður nýtir í að fara í fjölskylduboð með föðurættinni. Hún er svo sem ágæt en ég á bara lítið sameiginlegt með henni og þekki eiginlega engan. Ég man ekki einu sinni nöfnin á yngstu börnunum í fjölskyldunni. Annars átti ég ágætislaugardagskvöld. Við Palli og Jónas elduðum heima hjá Jónasi (þetta þýðir reyndar að ég bjó til "leim" eftirrétt og strákarnir sáu um allt annað) og svo komu einhverjir austanmenn í heimsókn. Aldeilisgaman hreint út sagt en langdvölin í miðbæ Reykjavíkurborgar olli talsverðri svefnþörf á sunnudagsmorgun. Ég held að ég verði bara að taka góðu boði Freyju, sem hyggst bjóða mér með sér á Reykjalund í janúar. TAKK FREYJA!

23.10.03

Lífið er orðið eitthvað svo leiðinlegt að undanförnu en dagurinn í gær slapp reyndar. Morgninum eyddi ég reyndar í lærdóm þar sem ég þurfti víst að fara í ítölskupróf í hádeginu. Það var fremur létt, sem betur fer! Sjáum samt hvernig gengur! Eftir internettripp ákvað ég að kíkja á Þjóðarbókhlöðuna en hætti skyndilega við þegar ég mætti Jónasi elskulegum í innganginum og bauð mér með honum að gera eitthvað annað en að læra. Við héngum á kaffihúsi og skoðuðum idolblöð og Séð og heyrt. Í sorpriti því var verið að ræða um myndlistarsýningu Sævars nokkurs Cicelski og ákváðum við því að kíkja á hana. Hreint út sagt hin ágætasta sýning. Ég eyddi svo kvöldinu með Sverri, við fórum í keilu, og svo fór ég í heimsókn til stórusystur hans og kisulóranna. Allt mjög gaman en leiðinlegra í kennslustundinni í morgun þar sem ég hafði ekki lesið vel. Ég er hræðilega mikið eftir á með allt núna. :(

22.10.03

Jæja, ég ætti kannski að skrifa um hvað ég gerði á mánudagskvöldið en þess er ekki þörf, dyggir blogglesendur eru löngu búnir að lesa um það á bloggi Páls og Jónasar (sjá linka hér til hliðar). Annars veit ég ekki hvað er í gangi hjá mér. Ég er að deyja úr einhverju eirðarleysi. Mér hreinlega leiðist, það vantar fútt í tilveruna. Samt sem áður hef ég nú alveg nóg að gera, próf, ritgerðir og fyrirlestrar bíða í hrönnum og fullt af verkefnum sem ég þarf að vinna upp. Reyndar var ég í ítölskuprófi áðan og það gekk bara nokkuð vel. Ástæðan er samt ekki sú að ég hafi verið svona vel lærð, nei þetta var bara skítlétt próf og afar stutt. Hefði hentað fullkomlega til ráðabruggsins míns en nei, sumum hlutum er ekki ætlað að verða. Æi, nú er ég bara farin að tala inn í mig...best ég hætti. Vil samt skamma ykkur fyrir að NOTA EKKI NÝJA FÍNA ATHUGASEMDAKERFIÐ!!!!!!!

20.10.03

Jæja, nú get ég kætt landann. Freyja er búin að setja upp myndir úr Finnlandsferðinni á þetta url: http://public.fotki.com/Freyja/ Segið mér endilega hvað ykkur finnst!

17.10.03

Vá, mér hefur tekist að laga þetta (eða það var í lagi allan tímann).......Svona er maður klár! Annars sit ég heima og hósta og finnst það mjög leiðinlegt! :(
Fúff, ég held að quizilla.com hafi aldrei verið jafnnálægt sannleikanum.....................................................................My inner child is ten years old today

My inner child is ten years old!

The adult world is pretty irrelevant to me. Whether
I'm off on my bicycle (or pony) exploring, lost
in a good book, or giggling with my best
friend, I live in a world apart, one full of
adventure and wonder and other stuff adults
don't understand.

How Old is Your Inner Child?
brought to you by Quizilla

15.10.03

Æi, æi, æi, mér tókst einhvern veginn að fleygja út nýja athugasemdakerfinu. Nú verð ég bara að bíða þar til einhver góður vill hjálpa mér að koma því upp aftur! :o(

13.10.03

You Are Lust
You are Lust. Every part of you screams "Do me now!"
You exude sexuality and while others sometimes
view you as a slut, you see yourself as only
giving into your base desires.

What Emotion Are You?
brought to you by Quizilla
Þegar ég var lítil stundaði ég persónunjósnir án þess að einu sinni hika við það og aldrei fékk ég samviskubit. Ég (að sjálfsögðu í samvinnu við aðra en ég ætla bara að eyðileggja eigið mannorð að þessu sinni) fletti öllum poppstjörnunum sem ég dáðist að upp í þjóðskránni (og það var sko fyrir daga Netsins, maður hafði sambönd!) og auðvitað símaskránni, lærði afmælisdagana þeirra utan að og vissi allt um þeirra fjölskylduhagi. Auðvitað fórum við líka nokkra túra að skoða húsin sem þessar stjörnur bjuggu í og fengum talsvert adrenalínkikk út úr því. Eftir að ég komst til örlítið meira vits og talsvert fleiri ára hætti ég þessu, sem betur fer en núna er ég eiginlega byrjuð aftur á persónunjósnum bara á annan hátt. Já, bloggsíður og heimasíður eru nýr vettvangur fyrir fyrrum ungnjósnara. Valla vinkona hefur einmitt nefnt þetta sama, maður byrjar að skoða síðu hjá einhverjum sem maður þekkir og veltist svo inn á blogg hjá fólki sem maður ýmist þekkir alls ekki eða kannast bara pínulítið við og viti menn, tuttugu mínútum seinna er ég orðin fróð um fjölskyldulíf Jóns og Gunnu, síðasta fyllerí og búin að skoða myndir úr Parísartúrnum. Er þetta ekki pínulítið sick?

10.10.03

Vááá, ég held að það sé einhver komin með svona háráætlun um mig eins þá sem við gerðum á Álandseyjum (að rífa illa gerðar fléttur úr finnskri stúlku, klippa hárríka konu og greiða flóknum Dana)....það eru svona áttahundruð manns búnir að ganga fram hjá mér hér í tölvuverinu og færa taglið mitt úr stað!

29.9.03

Jaeja, nu er eg komin til Finnlands og hvad er thad fyrsta sem eg geri i Helsinki? Fer a Internetkaffihus....sorglegt en astaedan er reyndar su ad eg thurfti ad kanna stodu a reikningnum minum. Thad var rooooosagaman i Stokkholmi. Vid gistum a hosteli sem er stadsett i bati i hofninni, mjog fint. Vid hittum svo Jonas unga og Jónas Íslendingur hitti Heidu vinkonu sína. Thad var ósköp gaman ad vera med theim, vid forum i gonguferd um baeinn og svo ut um kvoldid. Fyrir valinu vard "Kicki´s", afskaplega ahugaverdur stadur thad sem finna matti sittlitid af hverju, fjarhaettuspil, trubador/hljomsveit, danstonlist og STRIPP!!!!! Mer leid halfilla ad horfa a thad, skammadist min bara. Vid tokum svo batinn yfir a sunnudagseftirmiddag. Freyja og Jónas Íslendingur pontudu fyrir okkur i hladbordi um kvoldid og vid forum svo nidur (ja nidur er sko retta ordid, vid vorum ekki bara undir bilunum, vid vorum undir dyrunum!!!!!) ad leggja okkur. Ekki vildi betur til en svo ad vid svafum yfir okkur, voknudum tuttugu minutum eftir thann tima sem okkur var gefinn i hladbordinu og rukum oll upp a gallabuxum og bol og med uldid fes ad borda asamt veisluklaeddum matargestum. Segid svo ad Islendingar kunni sig ekki! :)

25.9.03

Nú er ég að fara til Finnlands og Svíþjóðar, liggaliggaláááái! Vildi bara láta vita! :)

22.9.03

Það er svo oft sem í Velvakanda er aðeins að finna kvörtunarbréf reiðra Íslendinga en stundum kemur fram fugl sem vill koma á framfæri einhverju sem vel var gert. Það ætla ég að gera núna. Hetja dagsins er hann Ómar, fyrirmyndar gítarleikari og söngmaður (=trúbador) sem starfar á ölhúsinu Celtic Cross. Það er ekki nóg með að Ómar spili vel og syngi, áheyrendurnir eru honum allt. Hvort sem þú vilt hlusta á "Undir bláhimni" eða slagara með the Proclaimers er Ómar boðinn og búinn að hjálpa þér. Til að vera leiðinleg í lokin vil ég koma á framfæri ósk um að hann æfi sig í Kim Larsen lögum. Það færir honum eflaust enn fleiri aðdáendur! Heil sé Ómar í upphæðum!

17.9.03

Gott kvöld, mig langar að vekja athygli á því að EDDA vinkona mín, íbúi við Þingholtsstræti er að leita að góðri konu eða góðum manni sem vill eiga Sigurjón kött. Edda, ég elska þig! Þú ert Eddan í mínu lífi!
Ég held að öllum háskólanemum sé hollt að skella sér á tungumálanámskeið í hádeginu. Hvar annars staðar (á þessu skeri) er hægt að finna jafnfjölþjóðlega hópa og breiðan aldurshóp? Í mínum "italiansk for begyndere" hópi er yngsti nemandinn nítján ára en sá elsti sjötíu og sex ára (held ég), þar er fólk frá nokkrum heimsálfum, flestum hornum Evrópu, Suður-Ameríku, Asíu....kannski fleirum. Annars er skemmtun mín í tímum á heldur lágu plani. Ég hlæ að kennaranum. Já, ég hlæ að framburði kennarans á nöfnum nemendanna. Þetta er að sjálfsögðu grimmilegt gagnvart þessari annars indælu konu sem leggur á sig að reyna að muna hvað nemendur hennar heita en það er bara svon fyndið þegar hún kallar Eddu Heddu, Ölmu Hölmu (hún er samt, held ég, búin að læra núna), Hebu Hebbbu og Þórhildi Torgerdi. Ljótur húmor en heldur mér kátri í tímum! :)
Sumir eiga margar, aðrir eiga fáar, ég á bara eina, eina Eddu í mínu lífi.

30.8.03

Vil benda ykkur á bloggsíðu Hlífar, skemmtileg lesning.
Jæja, enn er allt í óreiðu, ekki beint draumaástandið mitt. Ég veit ekki enn þá með fullvissu hvaða námskeið ég mun sækja á haustönn, hundfúlt. Ég get ekki búið mig andlega undir tímana. :) Í dag var reyndar kynningarfundur uppi í Háskóla, fyrst fyrir Heimspekideild og svo skor rómanskra og klassískra mála og svoooo spænskuna. Þar voru ekki mjög margir en samt ágætt. Þrír kennarar kynntu sig fyrir okkur, ein íslensk kona og tveir Spánverjar. Ég veit reyndar ekki alveg hvort eða hvað þetta fólk á eftir að kenna mér en eflaust kemur það í ljós fyrr eða síðar. Vonandi ganga hlutirnir ekki á spænskum hraða í deildinni.

26.8.03


You're Cate Blanchett....you can be a great person
and have the ability to do many things at once
you're loved by your friends and family...

What actress are you?
brought to you by Quizilla

24.8.03

Ef svo ólíklega vill til að ég eignist einhvern tímann drengbarn hef ég ákveðið nafn þess. Hann mun heita Gael eftir leikaranum Gael García Bernal. Ekki halda að þetta sé skyniákvörðun, nei, ég er búin að prófa nafnið.....Gael pael hael mael sael fael....það er erfitt að finna ljót rím við nafnið. Kannski væri bara líka hægt að nota nafnið á stelpu!?! Annars væri vitanlega best að barnið héti nákvæmlega það sama og leikarinn en slíkt væri erfitt þar sem hann heitir tveimur eftirnöfnum, García og Bernal. Ég er svo óheppin að heita hvorugt (þótt Sigurðardóttir sé reyndar ágætt) og verð því að láta mér nægja að reyna að næla mér í eitt fallegt eftirnafn á barnið. Ætli Andy García væri til í að feðra son minn?
Ég er svo þreytt að ég fer að sofna liggjandi fram á lyklaborðið.

20.8.03

Jæja, sökum fjölmargra hvatningarorða hef ég ákveðið að lífga við bloggið mitt hinum geysimörgu lesendum þess til mikillar (eða blandinnar) ánægju. Í dag eignaðist ég dóttur á Indlandi. Reyndar ætti ég ekki að tala í fyrstu persónu þar sem foreldrarnir eru tveir, Sigga systir og ég. Styrktarbarnið okkar er Bellamkunda, tíu ára, sem á sér þann draum heitastan að verða læknir þegar hún vex úr grasi. Uppáhaldsliturinn hennar er rauður og hennar helsta áhugamál að leika sér. Annars var ég í leiðindum mínum að skoða dagatal frá Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga sem olli vangaveltum hjá mér um hjálparstarf. Hvernig ætli best sé að standa að slíku? Það sem olli dálítilli hneykslun minni voru upplýsingar á umræddu dagatali. Sagt var frá hinum ýmsu þjóðflokkum Afríku og hvernig starf félagsins gengi þar, að sumir væru nánast kristnaðir en aðrir ættu enn langt í land. Það er ég viss um að íslenskir kristniboðar hafa gert mjög góða hluti í fátækum ríkjum Afríku en væri ekki nær að hjálpa þessu fólki með fræðslu eða þjálfun í störfum eða öðru í stað þess að leggja aðaláhersluna á að fræða um líf Jesú Krists? Hefur þetta fólk ekki rétt á að halda áfram að stunda trú sína? Samkvæmt upplýsingum um Bellamkonda, er hún hindúatrúar og fær að halda þeirri trú sem hún vill þótt einhver fræðsla sé um kristni í skólanum. Gott mál það sýnist mér!