11.2.05

heima á landinu kalda

Ég er stödd heima á fróni og er ekki enn þá farin að venjast því að nota íslensku stafina. Það tekur mig auka mínútu að skrifa hverja línu. Ferðin heim gekk prýðilega, raunar fannst mér Iberiaflugið langtum þægilegra en Icelandairflugið (eru þeir ekki hættir að heita Flugleiðir?) og biðin á Kastrup var í góðu lagi þökk sé bókinni sem Freyja gaf mér í jólagjöf. Ég hafði raunar áhyggjur af því að magn heilhveitibrauðs sem ég snæddi á flugvellinum myndi fara illa í maga minn eftir ofát hvítra brauðlengja í Madridarborg. Það var ljúft að hitta fjölskylduna og frábært ad sofa aftur í lyfturúminu, borða flatköku og fara í langt heitt bað. Allt eins og ég bjóst við. Við Eva skelltum okkur svo í lúxusbíó í gær og höfðum það allt of gott. Mjög gaman! Ég verð andlaus í þessum snjó og kulda svo að ég held ég hætti núna, lesendum mínum til léttis.