14.2.05

Valentínusardagur

Vitrir menn segja mér að siðaskipti hafi þegar gengið í gegn hér á landi en sökum tengsla minna við kaþólsk ríki við Miðjarðarhafið skipa dýrlingadýrkunardagar eins og Valentínusardagurinn örlítinn sess í hjarta mínu, sérstaklega í dag þar sem ég fékk Valentínusarkveðju frá suðrænum vini (ekki nein ást þar á milli, bara vinakærleikur en ég er samt montin að hafa fengið kveðju á þessum degi). Ef ég tala beint út frá hjartanu þá finnst mér raunar afskaplega vitlaust að halda upp á þennan dag á Íslandi, ekki bara vegna þess að ég er bitur og eilífðareinhleyp heldur líka vegna þess að við höfum tekið upp nóg af erlendum siðum og eigum jú okkar eigin konu- og bóndadaga. Núna ætti ég kannski að vera sár yfir því að hafa engar ástarkveðjur fengið á konudeginum...ég er eiginlega farin í hring. ¡Andskotinn!
Annars vil ég þakka Jónasi nokkrum Magnússyni fyrir prýðilega veislu á föstudagskvöldið. Átti ég þar góðar stundir. Einnig vil ég benda lesendum bloggsins á þá hræðilegu staðreynd að Olsenbræðrum tókst ekki að sigra í dönsku forkeppninni á laugardagskvöldið og því mun rauðhært unglamb (háraliturinn eini jákvæði punkturinn) fara til Úkraínu og flytja hugljúft lag a la portuguesa. Ég óska honum alls hins besta. Að lokum vil ég þakka Gael García Bernal fyrir frábært framlag sitt til Bafta-verðlaunanna. Hann stóð sig eins og hetja í sætinu sínu, sat bara og var fallegur okkur áhorfendum til ÓMÆLDRAR gleði.