9.10.05

Leti

Það er tæplega að ég hafi lyft litla fingri í dag sökum þreytu og leti. Ég vaknaði er farið var að líða fram á miðjan dag þar eð ég var afskaplega þreytt eftir að hafa haft ægilega mikið að gera síðan ég kom heim frá Danaveldi þrátt fyrir að hafa ekki unnið nema einn dag. Talsverður tími fór í að hjálpa Páli og fleiri þýskunemum á Októberfest, sem haldið var á lóð Háskólans á fimmtudag og föstudag (það vita nú raunar allir, held ég) sem var bæði skemmtilegt og verulega þreytuvaldandi. Á bæði fimmtudag og föstudag kom ég heim svo þreytt að annað eins hefur vart sést á mínum bæ. Þreytan hefur eflaust að hluta til verið andleg þar eð ég eyddi föstudagskvöldinu að miklu leyti í að þræta við viðskiptavini á barnum og reyna að finna út hver af hinum milljón manns sem biðu væri næstur. Auk þessa hef ég verið að brasa í hlutum tengdum Nordklúbbnum, taka upp úr töskum og svo reyna að kíkja í bók þess á milli. Nú er nefnilega kominn tími á að bretta hendur fram úr ermum og byrja að skrifa eitthvað um Pedro minn, skil á nokkrum skrifuðum blaðsíðum eru eftir rúma viku. Ekki veit ég hvenær mér verður eitthvað úr verki, samt sem áður. Á morgun geng ég þvert á orð mín og ætla að hjálpa Freyju með skólaverkefni með því að leika í stuttmynd fyrir hana, fara á kattasýningu, kíkja í búð og svo reyna að heimsækja vinkonu mína. Ekki veit ég næ að gera þetta OG undirbúa ritgerð. Á einhver nokkra klukkutíma aflögu til að selja mér?