11.10.05

Lilla bebí

Það var ekki fyrr en í kvöld sem það rann upp fyrir mér að ég er gengin í barndóm. Ástæðan er ekki sú að andi minn sé yngri, nei, síðan ég varð einkabarn á heimili mínu nærri Kleppi hafa foreldrar mínir byrjað að álíta mig um það bil tíu árum yngri en ég er, og ég vitanlega að hegða mér eftir því. Nú er ég enn meiri dekurrófa og prímadonna en áður hef ég verið og uni því vel. Foreldrarnir þurfa aðeins einu barni að sinna og hringja því í mig þrefalt miðað við áður (dýrt að hringja langlínusímtöl) og ég get borðað á við þrjá þar eð matarkaupin hafa lítið breyst. Vitanlega deilast varnaðarorð og þess háttar aðeins á mig eina, svo að ég fæ víst líka margfaldan skammt af slíku. Í dag fórum við svo öll fjölskyldan sem stödd er hér á landi í Nóatún að kaupa í matinn. Við kjötborðið ákvað mamma að kaupa lifur í kvöldmatinn og ég öskraði yfir allta kjötdeildina eins og versta dekurdós að ég borðaði ekki slíkt eftir hrossabjúgnahryllinginn fyrr í haust svo að mamma keypti hamborgara til að steikja handa litlu dóttur sinni. Svo keypti mamma líka kjúklingabita sem sérrétt handa tuttugu og fjögurra ára gamalli dóttur sinni, þar eð hún hélt hana ekki vilja fiskibollur. Svo hitaði hún franskar í ofni fyrir þá stuttu í kvöldmat. Þetta var samt ekki nóg til þess að ég áttaði mig á þessu, það var ekki fyrr en ég fór út í kvöld og mamma hrópaði á eftir mér: Alma, kemurðu nokkuð seint heim? (nokkuð sem hún segir raunar alltaf við mig áður en hún fer út) og pabbi kallaði: Kyssa pabba sinn bless. Spurning hvort ég ætti að gera eitthvað í þessum málum og reyna að fullorðnast, eða bara njóta þess að vera litla barnið hennar mömmu?