2.12.05

Veik eða ekki veik, that is the question

Síðustu daga hef ég legið í rúmi mínu og vorkennt mér og hóstað. Lítið hefur orðið úr lærdómi og mín helstu samskipti hafa farið fram gegnum tölvuna og við foreldrana, sem eru orðnir brjálaðir á dóttur þeirra, sem helst lítur út eins og ofvaxið latt barn, auk þess sem krílinu tókst að smita þá. Þrátt fyrir nokkuð stöðuga legu í bólinu gat ég hreinlega ekki sleppt því að halda upp á afmælið hans Gaels, svo að við Freyja skelltum okkur í Kringluna og héldum veislu þar. Að sjálfsögðu borðuðum við mexíkóskan mat, Gael til heiður, og svo söng ég hásum rómi afmælissönginn fyrir pilt, gestum Stjörnutorgs til mikillar gleði. Myndir voru teknar í veislunni, en þær eru því miður ekki enn tilbúnar til birtingar. Um kvöldið var samt aðalveislan haldin, jólakvöld Nordklúbbsins, sem vitanlega var bara enn ein afsökunin til að halda upp á þennan sérstaka dag. Á Óðinsgötuna mætti hópur manna til að föndra, drekka glögg og hlusta á ljúfa jólatónlist. Mér þótti ekki leiðinlegt að nánast allir sem mættu voru erlendir nemar úr háskólum borgarinnar svo að stemmningin varð afar fjölþjóðleg, og að ég fékk að tala pínulitla spænsku. Margir föndruðu af krafti og sjálf reyndi ég að búa til jólakort. Kortin hefðu létt unnið keppnir um ljótasta kortið, þau voru ekki einu sinni sætt ljót. Held að ég fari ekki í Listaháskólann.